07.11.1935
Neðri deild: 67. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal ekki lengja umr. mikið. En viðvíkjandi því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði, að byggingarskylda ríkissjóðs vari afnumin, vil ég segja það í fyrsta lagi, að byggingarskylda ríkissjóðs er ekki afnumin af opinberum jörðum, nema þeim, sem byggðar yrðu samkv. þessum lögum. Það er í samræmi við það, sem ég hefi haldið fram, að sá ábúðarréttur, sem mönnum er veittur með lögum þessum, nálgast að vera eignarréttur. Og þegar svo er komið, vil ég setja sömu kvaðir á þá, sem hljóta þennan ábúðarrétt, ein, og þá, sem eiga sínar jarðir. Hv. þm. verður að athuga það, að svo hlýtur að fara, þegar þessar jarðir eru lengi í sömu ætt, þá verður stækkandi hluti af jarðarverðinu eign ættarinnar eða ábúandans, og meir og meir, eftir því sem ættin bætir jörðina meira. Þetta eru svo mikil hlunnindi, að þessir menn ættu að geta lagt á sig þær kvaðir að byggja á þeirri jörð, sem verður nálega sem einkaeign. Það er að vísu rétt hjá hv. þm., að þeir, sem fyrst taka við illa húsaðri jörð, verða þar fyrir örðugleikum, ef þeir þurfa að byrja á því að byggja upp, en það eru ekki meiri örðugleikar en þeir eiga venjulega við að stríða, þegar um kaup þessara jarða er að ræða. Þegar frá líður, er mikill hluti af því, sem ábúendur þessara jarða hafa með höndum, sama og þeirra eign.

Viðvíkjandi brtt. hv. þm. Hafnf. vil ég taka það fram, að ég mótmæli því, sem kom fram hjá honum, að það væri ekki eðlismunur á sölu jarða almennt og á því að selja þær til óðalsréttarábúðar. vill hv. þm. ekki athuga það, að þegar maður kaupir jörð af ríkinu eða einstaklingum, þá getur hann selt hana strax aftur; hve háu verði sem hann vill; hann getur partað hana í sundur eftir vild, byggt hana öðrum gegn hárri leigu o. s. frv. Hann getur sem sagt farið með hana eins og hann vill. En í hinu tilfellinu, þegar jörð er seld til óðalsréttarábúðar, getur viðtakandinn ekki selt hana, ekki leigt hana; hann getur aðeins notað hana sem ábúandi, og ekkert meir.

Hvað brtt. hv. 7. landsk. snertir, þá vil ég segja það, að það, sem hún fer fram á, má gera undir einstaka kringumstæðum, en það er líka það eina. Þess vegna er mjög mikill munur á þessu tvennu. Þess vegna get ég ekki f. h. n. fallizt á að mæla með brtt.

Hvað viðvíkur brtt. hv. sama þm. á þskj. 483, vil ég segja það, að n. hefir ekki gefizt kostur á að athuga hana vel. Mín sérskoðun á henni er sú, að fyrri liður sé þannig vaxinn, að ég geti í fljótu bragði fallizt á hann, en á öðrum liðnum hefi ég ekki getað glöggvað mig nógu vel, svo að ég get hvorki fyrir mína hönd né n. látið í ljós neina skoðun á honum að svo stöddu. Það er ósk mín, að hv. þm. fallizt á að taka till. aftur til 3. umr., svo að n. gefist kostur á að athuga hana. Ef hann verður við þessari ósk minni, þá get ég látið hér staðar numið og beðið til 3. umr. með það, sem ég óska frekar að segja um málið.