25.11.1935
Efri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (1998)

169. mál, tolllög

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að leggja út í langar deilur um þetta atriði. Hv. 1. þm. Reykv. byggir till. sína á því, að með frv. sé verið að hækka tollinn. Í útreikningi þeim, er fylgir frv., er þess getið, að svo gæti farið, að tollurinn hækkaði um 20000 kr., en þar er miðað við áætlunarupphæð á þunga tóbaksins, að frádregnum umbúðum, svo að það er ekki hægt að slá því föstu, að tekjurnar yrðu þær sömu og ráð er fyrir gert í frv. En það var betra að hafa vaðið fyrir neðan sig, og mun forstöðumaður tóbakseinkasölunnar hafa hagað þessu svo til þess að vera fremur fyrir ofan en neðan núv. toll.

Að hér sé nýr tollur á tóbaksneytendur, er ekki rétt, því að þetta er bara að taka úr einum vasanum og láta í hinn. Verði tollurinn t. d. 20000 kr. meiri fyrir þessa breyt., þá verður álagningin bara þeim mun minni, munurinn enginn nema sá, að ríkissjóður fær meiri upphæð sem tóbakstoll, en gróði tóbakseinkasölunnar þeim mun minni. Sé ég því ekki ástæðu til að samþ. till. hv. þm. Ég hygg, að forstöðumaður tóbakseinkasölunnar og tollstjóri muni manna helzt geta gizkað á þetta, því að alltaf hlýtur hér að vera um ágizkun að ræða.

Ég legg því til, að frv. verði samþ. óbreytt. eins og meiri hl. fjhn. hefir lagt til. Hinu legg ég ekki mikið upp úr, að erfiðara sé að reikna með 25.37 en 26 kr. tolli. Það skiptir ekki verulegu máli. En af þessum ástæðum, sem ég hefi nú greint, legg ég til, að frv. verði samþ. óbreytt.