15.02.1935
Sameinað þing: 1. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Minning Lárusar H. Bjarnasonar

Minning Lárusar H. Bjarnasonar. Aldursforseti (SigfJ):

Áður en tekið verður til starfa, vil ég með nokkrum orðum minnast eins fyrrverandi þingmanns, sem látizt hefir frá því er síðasta þingi sleit. Þessi maður er Lárus H. Bjarnason, fyrrum hæstaréttardómari.

Hann var fæddur í Flatey á Breiðafirði marz 1866, sonur Hákonar kaupmanns Bjarnasonar og konu hans, Jóhönnu Þorleifsdóttur. Hann varð stúdent árið 1885, en kandidat í lögfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1891. Gegndi síðan málflutningsstörfum við landsyfirdóminn rúmlega eins árs skeið, en var þá settur sýslumaður í Ísafjarðarsýslu, og tveim árum síðar. 1984 skipaður sýslumaður í Snæfellsnes- og Hnappadalasýslu. Því embætti gegndi hann í 14 ár, til 1908, er hann var skipaður forstöðumaður lagaskólans, sem þá var nýstofnaður, og við stofnun háskólans, 1911, varð hann þar prófessor í lögum. Því embætti gegndi hann þar til hann var skipaður dómari í hæstarétti, í árslok 1919. Frá dómaraembætti sínu fékk hann lausn 1931. — Hann andaðist 30. des. f. á.

Lárus H. Bjarnason var þingmaður Snæfellinga 1901—1908, konungkjörinn þingmaður 1909—1911, og 1. þm. Reykvíkinga 1912—13. — Hann átti sæti í kirkjumálanefndinni frá 1904, í millilandanefndinni 1907 og í sparnaðarnefndinni 1924, átti um hríð sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur og gegndi auk þess fjölmörgum trúnaðarstörfum um æfina.

Eftir hann liggja ýmsar bækur og ritgerðir um lögfræðileg efni og stjórnmál, og einnig var honum falinn undirbúningur ýmsra merkra lagabálka fyrir stjórninni.

Með Lárusi H. Bjarnasyni er hniginn í valinn einn af mestu atkvæðamönnum þjóðarinnar. Í sýslumannsstörfum sínum þótti hann reglufastur og hið skörulegasta yfirvald. Á þingi var hann með áhrifamestu mönnum, prýðilega máli farinn, harðskeyttur og fylginn sér, og hins mikla og góða starfs hans í þarfir íslenzkrar lögvísi, fyrst sem brautryðjanda í lagakennslu og síðan sem dómara í æðsta dómstóli landsins, mun lengi minnzt verða.

Vil ég biðja háttv. þm. að votta virðingu sína minningu þessa merkismanns með því að rísa úr sætum sínum.

Allir þingmenn stóðu upp úr sætum sínum.