25.11.1935
Efri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (2018)

149. mál, stimpilgjald

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta frv. er upphaflega borið fram af fjhn. Nd. eftir tilmælum mínum, vegna þess að það kom í ljós, þegar átti að fara að innheimta stimpilsektir, þá voru þær svo óeðlilega háar, að ráðuneytið treysti sér ekki til að ganga þar að mönnum fyrir brot, sem virtust ekki framin af neinu öðru en vanþekkingu á l. Þetta var ástæðan til þess, að ég tók upp það ráð að fara fram á, að Alþingi heimilaði ráðuneytinu að lækka sektirnar eða fella þær niður.

Ég held, að það sé góð leið, sem hv. fjhn. þessarar d. leggur til, að farin verði, að þessi heimild skuli gilda til 1. júlí 1937. Mætti þá eftir þá reynslu, sem fengist á þeim tíma, gera framtíðartill. í þessu efni. Og ég er sammála hv. 2. þm. Rang. í því, að þegar sú framtíðarbreyt. verður gerð, þá verði sektirnar lækkaðar, því að það er ómögulegt að framkvæma þetta eins og það er.