15.02.1935
Neðri deild: 1. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2455 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

Starfsmenn þingsins

Thor Thors:

Ég býst ekki við, að hv. 2. þm. Reykv. fari að gera mér grein fyrir, hvað hann hefir út á störf þessara manna að setja; ég býst líka við, að honum komi betur að mega hvísla því að forsetum þingsins, sem hann e. t. v. þykist hafa eitthvað yfir að segja, heldur en að ræða það opinberlega. Ég sé aðeins, að á ferðinni er ný regla, sem virtist eiga að gilda hér um vinnumiðlun, samkv. ósk þessa yfirherra þingsins. Ég vil benda á, að þingskrifararnir, sem áður hafa verið og yfirleitt reynzt vel, fá að halda áfram starfi sínu, og ég sé ekki minnstu ástæðu til annars en láta sömu reglu gilda um þá, sem gegna öðrum störfum við þingið. Ég treysti svo á sannsýni og réttlætistilfinningu hæstv. forseta þessarar d., að hann láti ekki hafa sig til þess að taka upp aðra reglu í þessu efni. Mun ég svo ekki frekar ræða þetta mál.