28.11.1935
Efri deild: 81. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (2039)

176. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Frsm. (Páll Hermannsson):

Þetta frv. fjallar um það, að undanskilja þær innlendar tollvörutegundir, sem fluttar kynnu að verða út úr landinu, gjaldi því, sem á þeim hvílir samkv. 1. nr. 50 31. maí 1927. Þeim, sem þessar vörur framleiða, kemur saman um, að þar verði ekki fluttar út úr landinu meðan þetta gjald hvílir á þeim. Ég býst við, að Alþ. hafi lagt þetta gjald á innlendar vörur til þess að afla tolltekna í ríkissjóðinn, en ekki til þess að hamla því, að innlendar iðnaðarvörur yrðu fluttar út úr landinu. Það hefir komið fyrir, að iðnaðarvörur hafa verið fluttar út, svo sem þvottaefni og kaffibætir, en það hefir aðeins verið til Færeyja. En mönnum kemur saman um, að það sé ekki ósennilegt, að hægt væri að flytja fleiri vörur út en þær, sem nefndar væru, ef þær væru undanþegnar tolli. Það væri ef til vill hægt að flytja út öl og sódavatn. Þetta frv. hefir gengið viðstöðulaust í gegnum Nd. Iðnn. þessarar d. hefir athugað frv., og leggur hún til, að það verði samþ. óbreytt.