06.11.1935
Neðri deild: 66. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (2047)

158. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Fiskimatsmenn — en svo eru þeir daglaunamenn kallaðir, sem vinna við fiskimat undir stjórn yfirfiskimatsmanna, — eru taldir háðir ákvæðum l. um hámarksaldur opinberra embættis- og starfsmanna. Nú er svo háttað um þessa menn, að þeir eru á engan hátt háðir ríkinu sem starfsmann; þeir vinna hjá einkafyrirtækjum og taka laun sín hjá þeim. Ríkið sér þeim ekki fyrir ellistyrk eða lífeyri á nokkurn hátt. Það eru því engin skynsamleg rök fyrir því, að nefnd lög eigi að ná til þessara manna. Það er að sjálfsögðu með þessa menn eins og aðra, að það er misjafnt, hve lengi þeir halda starfskröftum sínum óskertum, en margir þeirra munu þó vera fullfærir til þess að hafa þessi störf á hendi, þótt þeir hafi náð þeim hámarksaldri, sem lögin tiltaka.

Það mælir því öll sanngirni með því, að þeir fái að halda starfi sínu eins lengi og kraftar þeirra leyfa og vinnuveitendurnir vilja hafa þá. — Mun ég svo ekki hafa þessi orð mín fleiri, en óska þess, að frv. fái að ganga nefndarlaust til 2. umr., því að það ríður á að hraða því, þar sem ákvæði aldurshámarkslaganna munu hitta marga þessa menn um næstu áramót, svo fremi, sem frv. þetta verður ekki orðið að lögum þá.