23.11.1935
Efri deild: 77. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

158. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég skal játa, að ég hefi sjálfur enga reynslu sem matsmaður. En mér fannst sum rök hv. 2. þm. S.-M. nokkuð veik, þó hann hafi sjálfur reynslu í starfinu.

Ég get ekki séð, að nein hætta geti stafað af frv. Ég tók það fram, að ég teldi, að fiskimatsmenn gætu verið fullkomlega vinnufærir á þessum aldri, og ég þekkti menn í þessu starfi, sem náð hefðu hámarksaldri, en væru þó enn fullkomlega hraustir með áralanga reynslu í starfinu. Ég tel því ómaklegt og jafnvel óheppilegt að svipta þessa menn störfum þegar í stað.

Frv. gerir ráð fyrir, að undanþágan gildi aðeins frá ári til árs og hún sé bundin við meðmæli yfirfiskimatsmanna, og ég sé enga ástæðu til að vantreysta þeim.

Það er alveg rétt, að menn þurfa að hafa fullkomna sjón. Ég lít svo á, að leikni í starfinu sé fyrst og fremst í því fólgin að dæma með augunum. Hraðinn, sem hv. 2. þm. S.-M. lagði svo mikið upp úr, er því fyrst og fremst kominn undir þessari leikni, en hún er auðvitað mest hjá þeim, sem hafa áralanga reynslu í starfinu og á annað borð hafa óskerta sjón. Aðrir myndu auðvitað ekki fá undanþágu.

Ég hefi horft á fisk metinn, og það gengur þannig til, að fiskurinn er lagður upp á borð hjá matsmanninum, sem tekur hann upp í hendina, horfir á hann og leggur hann svo á annað borð, þar sem verkafólkið tekur hann. M. ö. o., það er eitt handtak á einum fiski, sem matsmaðurinn hefir í frammi, og eins og ég tók fram áðan, þá er matið fólgið í hinni skörpu athyglisgáfu matsmannsins. Þess vegna skal ég játa það, að sjón matsmannsins verður að vera í fullkomnu lagi, en ég hygg, að margur maðurinn 65 ára gamall hafi það góða sjón, að hann geti fullkomlega leyst þetta starf af hendi. Ég a. m. k. leyfi mér að fullyrða, að margir matsmenn hér í Reykjavík á þessum aldri eru svo líkamlega og andlega hraustir, að þeir eru fullfærir til þess að halda áfram þessu starfi, en ég skal náttúrlega ekkert fullyrða um það, hvað lengi þeir muni vera það. Það er margt, sem getur komið fyrir á einu ári, en þá er það yfirmatsmannsins að dæma um það, hvort viðkomandi matsmaður sé starfi sínu vaxinn, og við verðum að ætla það, að hann velji eingöngu þá menn, sem hann telur fullkomlega hæfa. — Um það, hvort hér geti komizt að klíkuskapur eða umburðarlyndi við gamla starfsmenn, skal ég ekkert segja. En getur slíkt ekki einnig komizt að gagnvart yngri mönnum, sem ekki eru starfi sínu fullkomlega vaxnir? Ég segi ekki, að það sé, en mér skilst, að það geti alveg eins verið.

Hv. þm. leggur mikið upp úr því, að hér sé um þreytandi starf að ræða. Að vísu getur maður sagt, að þetta sé þreytandi starf, en miðað við mörg önnur störf, sem margir menn verða að vinna á þessum aldri, þá getur maður varla kallað þetta þreytandi starf. En svo má heldur ekki gleyma því, að það er orðið svo nú orðið, a. m. k. hér í Reykjavík, að það er hrein tilviljun, ef unnið er heilan dag að mati. Og því miður eru horfurnar svo hjá okkur núna, að það er mjög hætt við því, að þetta starf fari minnkandi ár frá ári frá því, sem verið hefir. Hér er því ekki um langan vinnudag að ræða, svo ofþreyta ætti ekki að geta verið þröskuldur í veginum.

Ég er alveg sannfærður um, að það er réttlátt að gefa þessa undanþágu, sem hér um ræðir, og tryggingin fyrir því, að hún geti ekki orðið til tjóns, er það, að það er á valdi þess manns, sem ber ábyrgð á matinu, yfirmatsmanns, að ekki aðrir en hæfir menn séu látnir gegna starfinu.