29.11.1935
Efri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

158. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Ingvar Pálmason:

Ég fór fram á það við fyrri hluta þessarar umr., að málið yrði þá tekið af dagskrá, ef hugsanlegt væri, að samkomulag fengist um brtt. við frv. Eins og hv. þdm. er kunnugt, var ég á móti frv. eins og það var samþ. við 2. umr. Ég sá þá, að málið mundi ná fram að ganga og taldi því rétt að gera tilraun með að breyta frv. í betra horf. Ég hefi því borið fram brtt. þá, sem hér er á þskj. 638. Ég skal geta þess, að ég hefi borið hana undir meðnm. mína í allshn. og veit ekki betur en að þeir séu henni samþykkir. Ég hygg, að þeir telji, að það fari eins vel á að afgr. frv. í þessu formi eins og í þess upphaflegu mynd:

Ástæðan til þess að ég felli mig betur við þessa afgreiðslu á frv., er fyrst og fremst sú, að það hagar svo til með æðimarga fiskimatsmenn, að þeir heyra ekki undir lögin, því það er skilyrði til þess, að lögin nái til starfsmanna, að starfið sé aðalstarf þeirra. Ég get fellt mig við það, að þeir fiskimatsmenn, sem samkv. anda og hljóðan laganna heyra undir þau, verði undanþegnir, sérstaklega með tilliti til þess, að þeim er ekki goldið af opinberu fé, og verði brtt. samþ., þá leiðir af því, að það verður mál á milli yfirfiskimatsmanna og fiskeigenda, hvenær þeir eigi að láta af starfi sínu, og sé ég ekki, að þar þurfi lög að koma til. Ég get fellt mig við þessa afgreiðslu á málinu og geri ráð fyrir, að meðnm. mínir fallist á hana. Ég tel þessa brtt. falla sæmilega inn í lögin, svo að frá formsins hlið sé ekkert á móti því að samþ. hana. Ég hefi átt tal um þetta við einn af aðalflm. málsins og virtist, að hann gæti vel unað þessum úrslitum. (MJ: Var þetta ekki samkomulag flokkanna?). Mér vitanlega hefir þetta aldrei verið flokksmál.