16.03.1935
Neðri deild: 30. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (2074)

87. mál, eignarnámsheimild landa í Hafnarfirði

Flm. (Emil Jónsson):

Allir þeir, sem einhverntíma hafa komið til Hafnarfjarðar, vita, hvernig landið þar umhverfis lítur út. Það er að langmestu leyti hraun, og skyldu menn ætla, að þar gæti enginn ráðizt í jarðræktarframkvæmdir. En það hefir þó verið gert af nokkrum mönnum. Vitanlega er það ákaflega erfitt, og landið, sem telja má ræktanlegt, er svo lítið, að það fullnægir enganveginn þörf bæjarbúa til ræktanlegs lands. Að vísu eru sunnan við kaupstaðinn nokkrar landspildur, sem tilheyra bænum að nokkru leyti, en þeir blettir eru nær því allir útmældir og ræktaðir eins og unnt er. Næst þessu koma svo lönd þriggja jarða: Jófríðarstaða, Áss og Hvaleyrar. Að vísu á Hafnarfjarðarkaupstaður hálfa Hvaleyri. Ás er opinber eign (Þjóðjörð) og ef til vill verður hún til boða Hafnfirðingum til kaups, þegar núv. ábúandi fellur frá, en það getur orðið nokkuð langt eftir því að bíða.

Mikill hluti af því landi, sem tilheyrir Jófríðarstöðum, er óræktaður, og mætti vel takast að rækta það. Mundi það þegar hafa verið gert ef Hafnfirðingar hefðu átt þess kost. Til skýringar á þörf Hafnfirðinga fyrir ræktanlegt land skal ég geta þess, að þar búa nú um 4000 manns, og allur þessi fjöldi hefir náttúrlega mikla þörf fyrir mjólk og jarðepli og ýmiskonar garðávexti. Ræktað land er aðeins 30—40 ha., og er það langt frá því að gefa nægilegt fóður handa þeim kúm, sem eru í bænum. Einnig skortir mikið á, að bæjarbúið hafi nægilegt beitiland fyrir kýr sínar og kindur, — en sauðféð er um 2000. Þar fyrir utan er ekki um annað land að ræða en það, sem tilheyrir þessum jörðum. Sunnan við þær tekur við eyðihraun, þar sem engrar bjargar er að vænta. Hér norðan við Hafnarfjörð er ekki um önnur lönd að ræða en þau; sem tilheyrir þeim jörðum, sem lagt er til í 4. lið 1. gr. frv., að teknar verði eignarnámi. En þær jarðir tilheyra Garðahreppi. Það eru í raun og veru smávægilegir landskikar, sem einstaklingana, er á jörðunum búa, munar ekkert um, þó að af þeim verði teknir, en aftur á móti skiptir afarmiklu máli fyrir Hafnfirðinga að fá, til þess að rækta þar tún og garðávexti.

Enn er það nýmæli í þessu frv., að Krýsuvík í Grindavíkurhreppi og Stóri-Nýibær verði tekin með. En þar eru einu jarðhitasvæðin í nágrenni Hafnarfjarðar. Hafa Hafnfirðingar mikinn hug á að tryggja sér þau og notfæra á ýmsa lund síðar. Jarðir þessar eru nú lausar úr ábúð og í eyði, því að enginn vill á þeim búa af ýmsum orsökum, svo að tíminn yrði aldrei betur valinn en einmitt nú til að taka þar eignarnámi. Annars er nokkur hætta á, að þar kynnu að lenda í braski, vegna gróðavonar af hitaveitu þaðan síðar meir. Atvinnuhorfur í Hafnarfirði eru eins og víðast annarsstaðar daufar og ákaflega einhæfar, — er þar eingöngu um sjávarútveg að ræða. Þess vegna eru þar löng atvinnuleysistímabil á hverju ári, og verður því að reyna að fylla í þær eyður eins og efni standa til. Hafnfirðingar hafa því tekið sér fyrir hendur að taka illmöguleg landsvæði til ræktunar og hreint og beint óhæfa bletti sumstaðar, en hafa þó jafnframt mátt horfa á önnur margfalt betri lönd í nágrenninu, sem enginn hefir nytjað. Þetta er svo öfugt og ósanngjarnt fyrirkomulag, að við það er ekki lengur unandi. Mér finnst það ekki forsvaranlegt né sæmandi í lýðfrjálsu landi að halda dágóðum ræktunarlöndum lokuðum í nágrenni við kaupstaðina, þar sem ótal hendur eru til þess að erja þau og rækta, þeirra manna, sem vilja nota þau sér til lífsbjargar í atvinnuleysinu.

Á Alþingi 1933 voru borin fram þrjú frumv., er öll fóru í mjög svipaða átt og þetta og miðuðu að því að bæta úr brýnni og aðkallandi þörf Hafnarfjarðarkaupstaðar á ræktanlegu landi. Vöru þau flutt í Ed. af þm. úr öllum flokkum. Eitt þeirra var um það, að taka eignarnám á nokkrum löndum og afnotarétti landsvæða í Hafnarfirði, Garðahreppi og Seltjarnarneshreppi, annað var um eignarnámsheimild á afnotarétti landsvæðis úr Garðalandi, en hið þriðja var um eignarnámsheimild á Hvaleyri við Hafnarfjörð. Allir voru flm. sammála um, að þörf Hafnfirðinga fyrir ræktunarlönd vari brýn og aðkallandi, og töldu nauðsynlegt að ráða hót á henni. En það, sem skildi og málið strandaði á, var, að flutningsmennirnir vildu fara sína leiðina hver til þess að greiða úr þessari þörf Hafnarfjarðarkaupstaðar. Ég vona, að nú fari þetta á annan veg; ég vona, að allir hv. þdm. sjái þörfina og viðurkenni hana og veiti þessu frv. öruggt fylgi.

Ég þarf ekki við þessa umr. að fara langt út í einstök atriði. Það er gert ráð fyrir, að það verði útnefndur gerðardómur til þess að meta skaðabætur, bæði til einstaklinga, sem afnotaréttur landa er tekinn frá, og eins til þeirra hreppsfélaga, sem kunna að verða fyrir skaða vegna missis gjaldþegna til annars sveitarfélags.

Ég skal geta þess einnig, að það hefir verið reynt að hafa um þetta samkomulag við Garðahrepp, en ekki tekizt. Hér er því um að ræða einn leiðina, sem hægt er að fara, því þó það sé rétt, að hagsmunir Garðahrepps séu nokkuð skertir með þessu frv., þá er ekki farið fram á, að það verði gert öðruvísi en að fullar bætur komi fyrir, og það er ómögulegt, að hreppur með einum 14 býlum geti setið yfir rétti 4000 manna, sem nauðsynlega þurfa á þessu landi að halda.

Ég vil svo leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.