14.11.1935
Neðri deild: 73. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

87. mál, eignarnámsheimild landa í Hafnarfirði

Frsm. (Emil Jensson):

Það er rétt hjá hv. þm. G.-K., að við töluðum saman um þessa till. og að ég til samkomulags hafi gengið inn á hana. En ég vil taka það skýrt fram, að ég hefi gengið inn á hana, eins og allar aðrar brtt. við þetta frv., eingöngu til samkomulags, þó að mér hafi verið ljóst, að þær eru mjög til þess að rýra gildi þess lands, sem þarna er um að ræða, fyrir Hafnarfjarðarkaupstað. Þessi brtt. hv. þm. G.-K. gerir í sjálfu sér hvorki til né frá fyrir kaupstaðinn; þar sem hér er einungis um að ræða 4 dagsláttur. En það, sem mér finnst við brtt. að athuga, er bað, að með þessu er landið slitið alveg úr tengslum við bæjarland Hafnarfjarðar, þannig að það verður eins og afskorið svæði, án þess að vera í föstu áframhaldandi sambandi við bæjarlandið. Ég vona að vísu, að þetta komi ekki að sök að öðru leyti heldur en hvað landmissirinn snertir. Og ég vil undirstrika það, að mitt samkomulag við þessa brtt. er gert í trausti þess, að það hafi ekki nein önnur og verri áhrif heldur en það, sem landmissirinn snertir. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, vegna þess, að það geta komið í ljós síðar annmarkar á þessu, því að með þessu verður bæjarland Hafnarfjarðar 2 aðskildir partar.