29.10.1935
Neðri deild: 59. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (2103)

143. mál, búreikningaskrifstofa ríkisins

Flm. (Jón Sigurðsson) [óyfirl.]:

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þetta mál. Frv. fylgir allýtarleg grg., svo að ég hygg, að allir hv. þdm. geti áttað sig á því, enda er það ekki margbrotið né flókið á neinn hátt. Ég vil aðeins benda á það, að það er talið nauðsynlegt að safna skýrslum um afkomu landbúnaðarins, til þess að fá yfirlit um hann og afkomu þjóðarheildarinnar. Hér er farið fram á, að ríkið láti safna skýrslum um annan aðalatvinnuveg þjóðarinnar, landbúnaðinn, frekar en nú er. Það er öllum vitanlegt, að þessi atvinnuvegur á nú við mikla örðugleika að stríða, og eru allar líkur til, að svo verði einnig á næstu árum. Verður því að gera ýmsar ráðstafanir af hálfu hins opinbera, sem grípa að ýmsu leyti inn í atvinnurekstur landsmanna. Nú eru ábyggilegar búnaðarskýrslur undirstaðan undir öllum gagnlegum ráðstöfunum af hálfu ríkisvaldsins til viðreisnar landbúnaðinum, en þær verða aftur að hafa stoð í áreiðanlegum búreikningum.

Að því er snertir fjárhagshlið þessa máls, þá skal það játað, að það er ekki glæsilegt að koma fram með tillögur, sem hafa aukin útgjöld í för með sér. Við flm. höfum þó, þrátt fyrir hinar örðugu kringumstæður, talið þetta mál svo mikið nauðsynjamál, að það megi ekki falla niður af þeim ástæðum. — Ég vil að endingu vænta þess, að hv. d. og þá fyrst og fremst hv. landbn., sem ég legg til, að málinu verði vísað til, taki það til rækilegrar íhugunar og afgr. það sem fyrst.