13.11.1935
Neðri deild: 72. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (2105)

143. mál, búreikningaskrifstofa ríkisins

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

N. hefir athugað þetta mál og er yfirleitt sammála um að leggja til, að það nái að ganga fram. Þó hefir einn nm., hv. þm. Ak., sérstöðu í málinu, og mun hann lýsa henni.

Þær till., sem n. hefir gert um breyt. á frv., eru ekki miklar og að mestu orðabreyt. Þó er ein brtt., sem n. gerir, dálítil efnisbreyt., eða kannske tvær þeirra.

Í frv. eins og það liggur fyrir á þskj. 422 er skrifstofan bundin við bændaskólann á Hvanneyri, en lagt er til, að hún sé undir yfirstjórn Búnaðarfél. Íslands. Ég geri ráð fyrir, að þetta ákvæði, um að búreikningaskrifstofan skuli vera starfrækt við þennan skóla, sé sett í frv. vegna þess, að við bændaskólann á Hvanneyri er sá maður kennari, sem mestan áhuga hefir fyrir þessu máli og mest starf hefir lagt í það að hrinda þessu máli áfram í einhverri mynd. Er hann kominn það áleiðis í því, að hann hefir þegar fengið marga bændur til þess að halda búreikninga. Hefir hann fengið aðstoð og styrk frá Búnaðarfél. Ísl. til þess að vinna úr þeim. Og til er vélritað yfirlit yfir niðurstöður þeirra fyrir síðasta ár. En þó að þessi maður sé þarna kennari og þó að sjálfsagt sé, að Búnaðarfél. Ísl., eins og ætlazt er til í frv., fái þennan mann til þess — og engan annan — að veita þessari skrifstofu forstöðu, þá álítum við nm. ekki rétt að binda það í l., að svo skuli alltaf vera, að starfræksla þessarar stofnunar sé bundin við þennan skóla. Vitanlega getur þessi maður, sem nú er kennari við þennan skóla, hvenær sem er fallið frá eða flutt í burtu. Og í því tilfelli er ekki víst, að neinn af kennurunum við bændaskólann á Hvanneyri yrði endilega hæfasti maðurinn, sem þá væri völ á, til þess að hafa forgöngu í málinu. Þess vegna leggjum við til, að Búnaðarfél. Ísl. hafi yfirumsjón með þessari búreikningaskrifstofu, án þess að hún sé bundin við sérstakan skóla að lögum.

Hin brtt. varðar 2. gr. frv. Í þeirri gr. er gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiði forstöðumanninum 2 þús. kr. laun árlega. Við gerðum till. um, að þessu verði breytt þannig, að Búnaðarfél. Ísl. semji við þennan mann, sem tekur að sér forstöðu þessarar skrifstofu, um kaup. Það getur verið minna en nú og það getur verið meira, eftir því hvaða störfum hann gegnir öðrum. En við leggjum til, að ríkissjóður leggi skrifstofunni til fé, þó aldrei yfir 3 þús. kr. á ári.

Hinsvegar er það ljóst, að kostnaðurinn muni ekki verða svona mikill eins og nú standa sakir, en hún gerir ráð fyrir að hann eigi fyrir sér að aukast, og það fram úr þessari hámarksupphæð, en þá er ætlunin að Búnaðarfél. Ísl. veiti það, sem til vantar. Þetta er aðalefnisbreytingin í brtt. okkar.

Þá leggjum við til, að 5. gr. frv. falli niður. Við kunnum ekki við að hafa viðurlög við því, þó að dráttur kunni að verða á því að senda búreikningana til búreikningaskrifstofunnar. Við meiri hl. landbn. teljum þetta þarft og nauðsynlegt mál, og það gerir hv. þm. Ak., sem skrifað hefir undir nál. með fyrirvara, en hann telur, að Búnaðarfél. Ísl. geti beitt sér fyrir þessu án þess að lagasetning komi til, en okkur hinum nm. finnst réttara að setja þetta í ramma, sem tryggir því meira framtíðarlíf heldur en hafa það laust og óbundið.

Það þarf ekki að tala um þýðingu þessara skýrslna. Það er augljóst, að það er þýðingarmikið fyrir landbúnaðinn, ef hægt er að fá ábyggilegar upplýsingar og niðurstöður um hinar ýmsu greinar landbúnaðarins. Í öllum nágrannalöndum okkar eru slíkar skrifstofur sem hér er lagt til að sett verði á stofn, en þær eru reknar með dálitið mismunandi aðferðum. Aðallega eru það þó skrifstofur reknar á svipaðan hátt og hér er gert ráð fyrir, sem safna þessum skýrslum, en einnig er þeim náð gegnum félagsskap. En hér er aftur lagt til að fara báðar þessar leiðir. Ég vænti þess fastlega, að menn sjái ekki eftir því, þó að ríkissjóður leggi fram 3000 kr. í þessu skyni, því að það er öldungis víst, að árangurinn af þessu starfi verður mikils virði, og þá vitanlega sérstaklega fyrir alla þá, sem landbúnað stunda.