25.10.1935
Neðri deild: 57. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (2150)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Jón Pálmason:

Út af þeim orðum hv. þm. V.- Húnv., sem síðast féllu finn e ástæðu til að segja nokkur orð um þetta mál. Ég get ekki látið ómótmælt svo órökstuddum ástæðum eins og komu fram hjá hv. þm., að þetta frv. sé af hálfu okkar flm. þess, og sérstaklega minni hálfu, árás á samvinnufélagsskapinn í AusturHúnavatnssýslu. Hér liggja til allt aðrar og veigameiri orsakir heldur en að hér sé um deilu að ræða um stefnur í verzlunarmálum, stefnur, sem deilt hefir verið um í okkar héraði og yfirleitt í landinu.

Ég vil skjóta því til hv. þingmanna, hvort þeim mundi ekki flestum finnast það óviðkunnanlegt, ef aðallendingarstaðurinn í þeirra héraði væri í öðrum hreppi heldur en þeim, sem kauptúnið er aðallega sprottið upp í. Hér er þannig ástatt, að lendingarstaðurinn er í öðrum hreppi. Og það er, eins og hv. 1. flm. tók fram, að meiri hl. verzlunarinnar er kominn út fyrir ána og í annan hrepp en fjölmennið, sem komið hefir á þennan stað, því að það er að mestu leyti sunnan við ána. Þetta er aðalástæðan tal þess, að ég hika ekki við að gerast flm. að frv. Ég tel óeðlilegt, að slíkt skipulag haldist áfram. Ef um hagsmuni væri að ræða í þeim anda, sem hv. þm. V.-Húnv. talaði um, þannig að þarna væri verið að seilast inn á hagsmunasvið sveita til framdráttar kauptúni, þá kæmi slíkt engu síður við mig og mína atvinnu en annara, sem þarna eiga hlut að máli.

Eins og hv. þm. er ljóst, er þarna um að ræða talsvert deiluatriði milli tveggja hreppa, án tillits til allrar flokksafstöðu í stjórnmálum. Ég verð sem fulltrúi þessara aðilja að gera það upp við mig, hvort það sé réttmætt eða heilbrigt, að ég taki afstöðu í þessu hitamáli. Þegar hagsmunir tveggja sveitarfélaga rekast á, þá er augljóst mál, að örðugleikar eru fyrir sameiginlegan þm. þeirra beggja að leggjast á sveif með öðru þeirra. En ég hefi tekið afstöðu í þessu máli með það fyrir augum eingöngu, að ég tel hér réttlætis- og sanngirnismál vera á ferð. Það getur Ekki verið um annað að ræða en tímaspursmál, hvenær þetta kemst í kring. Það er ofur eðlilegt hinsvegar, að sá hreppur, sem hagsmuni hefir af því að hafa þennan kauptúnshluta, sem um er deilt, innan sinna vébanda, haldi því fram, að sjálfsagt og rétt sé, að núv. fyrirkomulag á þessu haldist. En skoðað frá sjónarmiði almennings í okkar héraði, þó held ég, að engum sanngjörnum manni blandist hugur um, að eðlilegast sé, að allt kauptúnið sé í einu hreppsfélagi.

Um það, hvort gjöld mundu þyngjast á samvinnufélagsskap okkar Austur-Húnvetninga við það, að frv. þetta yrði að l., er náttúrlega ekki hægt að segja til fullnustu fyrirfram. En eins og sakir standa nú, þá er tiltölulega mjög lág gjöld hægt að leggja á þennan félagsskap, eftir samvinnul., umfram það, sem gert er, því að utanfélagsmannaverzlun er ákaflega lítil nú. Hinsvegar er engin trygging fyrir því, að þeim l. verði ekki breytt, og engin trygging fyrir því, að ekki megi með öðrum hætti ná gjöldum af þessum félagsskap. En hann er háður gersamlega sama lögmáli og nálega undantekningarlaust öll kaupfélög í okkar landi, sem eru í kauptúnshreppi.

Skal ég nú ekki hafa fleiri orð um þetta mál. En ég gat ómögulega látið hjá líða að mótmæla því, að ég sé hér að gerast meðflm. að frv., sem sé árás á þann félagsskap, sem ég er í sjálfur, og er í því héraði, sem ég er fulltrúi fyrir. Þau ummæli eru gersamlega ómakleg, og get ég ekki hugsað mér, að þau séu í alvöru fram komin.