25.10.1935
Neðri deild: 57. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (2151)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Hannes Jónson [óyfirl.]:

Það má segja, að það sé föst venja, að þegar farin er á þingi slík herferð eins og hér er um að ræða, þá sé látið í veðri vaka, að allt sé gert í nafni réttlætis og sanngirni. Hvenær ætli þessum mönnum detti í hug að segja það, sem þeir meina? Nei, það á allt að vera gert í réttlætisins nafni, en ekki til þess að ásælast. Þetta er það, sem hv. þm. A.-Húnv. endurtók nú. En hér er um sama ranglætið að ræða fyrir því. Og rökstuðningur sá, sem hann reyndi að koma með til að réttlæta þetta ranglæti, var endurtekning fl einu atriði í ræðu hv. flm., að aðallendingarstaður kauptúnsins væri í öðrum hreppi en aðalfólksfjöldinn. Þetta er nákvæmlega hið sama og haldið var fram hér í Rvík, að vissar sveitir bæri að innlima í bæinn af því, að höfnin væri í bænum, en hinar sömu sveitir hefðu svo mikil not af höfninni. Blönduósbúar sunnan við ána börðust eins og þeir gátu á móti bryggjubygginga fyrir utan ána og lögðu tugi þús. kr. í bryggjugerð sunnan við ána frá sér og sýslusjóði, til þess að þar yrði lendingarstaðurinn í framtíðinni. Svona er bardagaaðferð þeirra. Nú loka þeir augunum fyrir þeim sjálfsögðu kröfum, sem Engihlíðarhreppur á á því að fá að halda sínum hreppstakmörkum óskertum.

Svo að ég taki annað dæmi en ég áður nefndi: Kauptún er hreppur út af fyrir sig. Næstu hreppar verða að nota eingöngu tæki, svo sem uppskipunartæki, hafnarbætur og annað, sem nauðsynlegt er við afgreiðslu skipa og þessi kauptúnshreppur á að öllu leyti. Ættu þá stjórnir þessara hreppa hver um sig að gera kröfu til þess, að sá kaupstaður væri sameinaður sína hreppsfélagi, af því að þessi aðstaða væri þeim endilega svo nauðsynleg til þess að þeir gætu komið frá sér vörum sínum og flutt þær í land frá skipi? — Nei, þetta er svo fjarri lagi. Sveitaverzlanir t. d. verða að fá allar vörur sínar í gegnum þær hafnarbætur, sem eru í kaupstað eða kauptúni, fjarri þeirra sveitarfélegi. Þær geta ekki gert kröfu til þess, að kauptúnið eða kaupstaðurinn framselji þeim þessa aðstöðu inn í þeirra sveitarfélög. Alveg eins verður kauptúnshreppur að beygja sig fyrir því, að því sé ekki afhent samskonar aðstaða þó að hún sé í sveitarfélagi, sem er aðeins að nokkru leyti kauptún. — Hér er ekki um neitt annað að ræða en tilhneigingu eins sveitarfélags til að ásælast hagsmuni annars sveitarfélags. Og ég sé ekki annað en að mönnum beri skylda til að vernda rétt þess sveitarfélags, sem réttinn gegn ásælni. annars sveitarfélags.