18.11.1935
Neðri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (2155)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það er nokkuð djarft af hv. frsm. og hv. flm. frv. að vitna í sveitarstjórnarlögin máli sínu til stuðnings. Það er meira en djörfung, því það er næstum því ósvífni að nota lagaákvæði, sem eru algerlega á móti því, til stuðnings fyrir málið.

Hv. frsm. benti á 4. gr., en hér á að þverbrjóta 3. gr., sem mælir svo fyrir, að til þess að slík sameining geti átt sér stað, þurfi samkomulag sveitafélagsins og meira að segja stuðning sýslunefndar. En þetta hefir aldrei verið borið upp á sýslunefndarfundi, en það hefðu þeir þó átt að gera, þó að það hefði ekki verið fyrsti grundvöllurinn til þess að fá það samþ. En það atriðið var þá fengið, og það var sá stuðningur, sem líklegur gat orðið til þess að ná í hitt atriðið, með samkomulagið. En þá hefði verið fengin sterkari undirstaða til þess að bera málið fram. En það er varhugavert að ganga framhjá 3. gr. sveitarstjórnarl., og það sjálfsagða fyrir Alþ. er að vísa málinu heim til löglegrar meðferðar í héraði. Það verður að gera, ef sæmilega á að vera með það farið. Ég hefi þó ekki borið fram rökst. dagskrá í málinu, en ég geri ráð fyrir að gera það við 3. umr.

En við skulum taka 4. gr. sveitarstjórnal. Eftir að hv. frsm. og hv. 1. flm. hafa flutt mál sitt, þá eru komnar fram skýrar sönnur fyrir því, hvað þeir eru á tæpu vaði. En allt málið er þannig útbúið, að það fer alveg öfugt við tilætlunina með 4. gr., því eins og það er nú, er það ekki einu sinni eftir anda 4. gr., og ef þeir hefðu trú á því, að í henni fælist rökstuðningur fyrir frv., þá myndu þeir fara með frv. eftir því, sem 4. gr. ætlast til. Þeir vita, að ef ætti að afgr. það á þeim grundvelli, þá hefði það ekki fylgi á þingi, svo að þeir víkja frá 4. gr. til þess að kaupa málinu fylgi. Það, að þeir víkja frá 4. gr., er aðeins gert til þess að koma málinu gegnum þingið. Þeir, sem mest hafa barizt fyrir þessu máli fyrir norðan, hafa haldið því fram, að það bæri skylda til að bæta aðstöðu þeirra manna, sem búa fyrir norðan ána, til þess að fá ræktað land, svo að þeir geti haft skepnur. Þessu hefir verið hampað framan í þá menn, sem hafa hagsmuna að gæta fyrir norðan ána. Ég hygg, að lengi vel hafi Engihlíðarhreppur ætlazt til þess, að þessi þorpshluti gerði tilraun til að komast að samkomulagi við eiganda jarðarinnar Ennis. En þegar það fékkst ekki, og ekki var búizt við því, að þorpið utan Blöndu gerði áskorun til hreppsins um að reyna að ná í samkomulag, þá gerði hreppurinn tvær ítrekaðar tilraunir til þess að ná samkomulagi, en það hefir ekki tekizt. En eins og ég benti á áðan um einstök atriði málsins, hvernig þau stæðu rokin, er flm. telja til stuðnings, þá er hægt að leysa málið á allt annan hátt og á eðlilegri grundvelli en hér er ætlazt til, sem sé með því að taka umrætt land eignarnámi af eigendum Ennis, í stað þess að rugla saman tveimur hreppum, sem lítið eiga sameiginlegt, á þann hátt að uppfylla gróðalöngun annars, en traðka á rétti hins. Það er eðlilegt, að Blönduóshreppur sækist eftir þessari sameiningu, en það er enganveginn eðlilegt, að Alþ. samþ. jafnósanngjarna kröfu. Ég mun því í dag eða á morgun ásamt 2—3 öðrum þm. leggja fram frv. um að taka eignarnámi landshluta til afnota kauptúnsbúum austan ár, því það er aðkallandi nauðsyn og þar með er í rauninni fallinn sá grundvöllur, sem sameiningarmenn á Blönduósi höfðu sterkastan og er eðlilegur og réttlætanlegur, en ég vil fullnægja á þennan hátt. Vænti ég þess, að hv. flm. frv. leggi ekki neitt ofurkapp á frv. sitt, þegar þeir sjá, að fullnægja má stærstu atriðum málsins, sem talin eru af mönnum fyrir norðan. Hafa ekki verið færð nein rök né minnstu ástæður gegn því, er ég færði fram við 1. umr. þessa máls, hvorki þá né heldur nú, af hv. flm. þessa frv. eða hv. frsm. allshn. Stendur því allt óhaggað og óhrakið, sem ég sagði, að unnt væri að fullnægja öllum þeim atriðum, sem færð eru fyrir nauðsyn sameignarinnar, eftir öðrum leiðum. Vil ég halda fast við þá skoðun, að Alþ. á ekki að samþ. þetta frv., eða a. m. k. ekki fyrr en það hefir fengið löglega afgreiðslu heima í héraði. Tel ég því rétt, að það verði fellt nú við þessa umr., en verði það ekki gert, mun ég bera fram rökst. dagskrá við 3. umr. um að vísa málinu heim í hérað vegna ónógs undirbúnings, sem samkv. ákvæðum sveitarstjórnarlaganna á þar að fara fram. Ég vil svo endurtaka það, að þó hv. flm. bendi á 4. gr. þeirra laga máli þessu til stuðnings, þá er slík túlkun skýlaust brot við orðalag laganna og því ósæmandi.