18.11.1935
Neðri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (2159)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það var hálfspaugilegur þessi vindþembingur í hv. þm. Ak. og hefir líklega átt við anda sveitarstjórnarlaganna, sem stendur á brúarsporðinum, hvort sem hann er búinn til af honum eða öðrum.

Einkennileg voru rök hans við því, sem ég hélt fram. Þá spyr þessi hundvísi þm., hvort Engihlhr. taki ranglega útsvar af kaupfél. Þvílík heimska! Eins og það sé rangsleitni að leggja á útsvar? Nei, það er hitt, sem er rangsleitni, ef seilast á til af öðrum hreppi að leggja undir sig tekjustofna. Á því ætti hv. þm. að kunna skil. Það er ekki undarlegt, þó hv. þm. þykist þurfa lítil rök, ef hann telur þetta einhverja dýrðarspeki eða véfréttavizku.

Þá leggur hv. þm. áherzlu á, að Engihlíðarhreppur hafi ekkert gert fyrir Blönduósbúa. Ég hefi verið á Blönduósi, að vísu fyrir allmörgum árum, og þá var enginn hörgull á að fá landsnytjar fyrir þorpsbúa eins og þeir þurftu. Þetta er því eitthvað nýtt, en ekki undarlegt, þó að farið sé fram á að tryggja mönnum land, því það er aðkallandi nauðsyn, og er sú eina ástaða fyrir frv., sem frambærileg er. En nú hefi ég margsýnt fram á, að þessu er vel unnt að kippa í lag á fullnægjandi og eðlilegri hátt, og því geta hv. flm. ekki mælt á móti, að þessi lausn er miklu nær en sú, er felst í frv. þeirra.

Þá minntist hv. þm. Ak. á það í ræðu sinni, að hér væri ekki verið að gera annað en hefði verið gert annarsstaðar undir svipuðum kringumstæðum. Ég minnist þess ekki, að hér á Alþingi hafi verið gert neitt, sem gengur jafnlangt í þessa átt, þó eitthvað svipað hafi komið fram, en þá hefir þessi hv. þm. gerzt til þess ásamt fleirum að standa móti slíkum frv., — þó ég líka viðurkenni, að ásælnismálstaðurinn hefir á stundum mátt sín meira, eða hefir sigrað. En hér er gengið lengra en áður í þessa átt þar sem segja má, að svipað hafi verið ástatt.

Ég býst ekki við, að Engihlíðarhreppur hafi af svo miklu að taka, að ástæða sé til að taka frá honum og færa yfir til Blönduóshr., sem ekki þurfti að vera verr á vegi staddur, ef fjármálum hans væri eins vel stjórnað og Engihlíðarhrepps. En ef alltaf á að jafna á milli hreppa á þennan hátt, þá held ég, að það mundi æra óstöðugan. Hv. þm. Ak., sem er oddviti sýslunefndar Á.- Húnv., má gjarnan ganga lengra í því en hann hefir gert hingað til, og taka fastara í taumana um að rétta við fjárhaginn hjá Blönduóshr. — þó vel megi vera, að hann sé eitthvað byrjaður á því —, ef hann ætlar að koma fjárhagsstjórn þess hrepps í svipað horf og hjá Engihlíðarhr., sem sízt situr á honum að kasta steini að fyrir gætilega fjármálastjórn, þó sá hreppur hafi ekki kastað 60 þús. kr. í flóafen og einskisverða bryggju.