18.11.1935
Neðri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Frsm. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Mér þykir hv. þm. V.-Húnv. hafa verið nokkuð fjölorður um bryggjubygginguna á Blönduósi og viðhaft mörg óvirðingarorð um þá menn, sem að henni stóðu, bæði fyrr og síðar í ræðum sínum. En mér finnst það satt að segja koma úr hörðustu átt, því ég veit ekki betur en sá mæti maður Þórarinn á Hjaltabakka hafi unnið manna mest að því að koma bryggjunni upp. Og ég hélt, að hv. þm. ætti allt annað að Þórarni Jónssyni en slík ummæli. Annars sé ég ekki, hvað það kemur þessu máli við, þó bryggja, sem hefir verið fyrir mörgum árum, hafi ekki orðið að því gagni, sem búizt var við. Það kemur a. m. k. ekki málinu við, nema þá til þess að styðja þann málstað, sem frv. heldur fram, að hagsmunir kauptúnsins utan og innan árinnar séu óaðskiljanlegir. Kauptúnið hefir vitanlega vaxið upp utan um verzlun og atvinnurekstur, eins og venjulegt er, og því ber þeim fyrirtækjum skylda til að bera þær byrðar, sem fylgja því að framfara það fólk, er að þeim safnast. Og þó að atvinnureksturinn hafi flutt í annað hreppsfélag, getur það ekki leyst hann undan þeirri skyldu. Og sé þörf á, verður að breyta markalínunum svo, að koma kvöðinni af því á hans herðar. Mér fannst hv. þm. vilja láta lita svo út, sem útsvarskyldan væri aukaatriði. En hvað ætli Engihlíðarhreppi gangi til að vilja ekki sleppa af þessum skika, annað en útsvörin? En þess verður að gæta, að Engihlíðarhr. á hér minni siðferðislega kröfu en Blönduóshreppur. Hér er alls ekki um neina refsingu á Engihlíðarhr. að ræða, og skil ég vel þeirra afstöðu. En ég skil ekki, hvernig stendur á því, að þetta hefir komizt þannig inn í höfuðið á hv. þm., að hann er svona mikið á móti anda l., því svo andlaus ætti hann þó ekki að vera frá skaparans hendi, að hann geti ekki meðtekið þennan anda. Ég er bara hræddur um, að í sínu andans stríði villist hv. þm. á góðu öndunum og þeim illu, svo að hann útiloki þá góðu, en hinir verði eftir.

Þá hefir hv. þm. V.- Húnv. talað mikið um, hversu ágætlega Engihlíðarhr. hafi verið stjórnað, og því síður væri ástæða til að rýra tekjur hans. En reynslan hefir sýnt, að hreppurinn hefir aflað meiri tekna en brýn þörf var til. Og strangt tekið er hreppsfélögum ekki heimilt að afla meiri tekna en þau þurfa að nota á hverju ári. Það getur því verið dálítið vafasamt, hvort það er alveg samkv. l., að á fáum árum hefir verið safnað í sjóð um 30 þús. kr. Bendir þetta á, að afkoma hreppsins sé ekki eins slæm og hv. þm. V.-Húnv. vill vera láta. En þó að þetta sé dálítið vafasöm aðferð, tel ég ekki ástæðu til að refsa fyrir það, enda hefir engin tilraun verið gerð í þá átt.

Hv. þm. hefir ekki reynt að sanna réttmæti stóryrða sinna og gífuryrða, en vill bara ekki taka til greina þann siðferðilega rétt, sem hér er byggt á.