18.11.1935
Neðri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (2161)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Guðbrandur Ísberg:

Hv. frsm. allshn. tók að mestu af mér ómakið um að svara hv. þm. V.-Húnv. Ég vildi þó aðeins leiðrétta þau ummæli hv. þm. V.-Húnv., þar sem hann var að leggja mér þau orð í munn, að ég hefði verið að átelja fjárstjórn Engihlíðarhrepps. Það hefir mér aldrei dottið í hug, en skal vera fyrstur til að viðurkenna, að þar hafi verið vel haldið á spilunum.

Þá lagði hv. þm. mér einnig þau orð í munn, að ég hafi lagt sérstaka áherzlu á, að Engihlíðarhr. hefði ekki gert nógu mikið til þess að hlynna að þorpinu norðan árinnar. — Það vita allir, og hv. þm. veit það vel og lagði sjálfur áherzlu á, að ekki hefir verið gert þar það, sem nauðsyn hefir verið á. Þorpið þarf að fá land til ræktunar, og þeirri nauðsyn verður að fullnægja. Er það ein ástæðan fyrir frv., þó ég hafi ekki lagt mikla áherzlu á hana. Ég vildi gera þessa aths., en ætla ekki að lengja umr. nú að öðru leyti.