18.11.1935
Neðri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Mér þykir vænt um að heyra, að hv. þm. Ak. skuli vera farinn að veikja ástæður sínar fyrir frv. með því að viðurkenna, að hann hafi ekki lagt neina áherzlu á sum atriði þess. Því ef honum fyndust þau réttmæt, mundi hann vafalaust leggja áherslu á öll þau atriði, sem væru því til stuðnings. Er ég áður búinn að sýna fram á, hvernig hægt er að leysa þetta á annan og miklu eðlilegri hátt. Og fyrst því hefir ekki verið mótmælt, hvernig er þá hægt að halda fram, að nauðsynlegt sé að samþ. þetta frv.? Því hefir aðeins verið slegið fram, að sameining þorpshlutanna væri eðlileg, en engin rök færð fram gegn því, að þetta mál megi leysa á annan heppilegri hátt. Hv. frsm. þóttist vilja útdeila hinum rétta anda, en ég hélt, að það væri að fara í geitarhús að leita ullar, a. m. k. yrðu það aldrei nema smáskammtar.

Ég ætla að halda því fram, að bryggjumálið hafi verið nauðsyn, sem hrundið var í framkv. af mörgum áhugasömum héraðsmönnum, þegar Blönduóshr. var búinn að verja tugum þús. frá sjálfum sér og ríkinu í gagnslausa bryggju. Þá byggja kaupfél. og Engihlíðarhr. utan árinnar, án eyris framlags frá Blönduóshr. eða annarsstaðar að en úr sýslusjóði, og leysa þannig bryggjumálið á heppilegan hátt. Engihlíðarhr. á því að fá að njóta ávaxtanna af því verki, en ekki þeir, sem stóðu á móti því.

Hitt er fjarstæða, að það séu meðmæli með sameiningunni, þó menn af Blönduósi fái atvinnu fyrir utan ána. Það eru vitanlega stór hlunnindi fyrir þá, sem tekjur fá af þeirri vinnu, og því meiri því betra. Hefir Engihlíðarhreppur látið slíkt alveg óátalið og sýnt í því efni mikið umburðarlyndi. Og svo segir hv. frsm., að Engihlíðarhr. hafi minni siðferðislegan rétt til uppskerunnar, þar sem hann sáir, en hinir ekki. (JakM: Hvað hefir Engihlíðarhr. lagt fram?). Hann hefir t. d. lagt fram gjafavinnu í bryggjuna og safnað fé til hennar á annan hátt. Það eru allt aðrir menn en Blönduósingar, sem beittu sér fyrir að koma bryggjunni upp. Voru það ýmsir mætir kaupfélagsmenn, og meðal þeirra bændur úr Engihlíðarhreppi.

Þá vildi hv. frsm. halda því fram, að eitthvað mundi vera athugavert við tekjuöflun Engihlíðarhrepps, og að hún hefði ekki verið l. samkvæm. Þó tók hv. þm. það fram, að hann ætlaðist ekki til, að þeim væri refsað. Nei, hann vili e. t. v. ekki láta refsa neinum, sem brýtur lög? Ætli maður verði ekki fremur að telja, að hann vilji láta fylgja landslögum, en sé hér að taka aftur og kyngja því, sem hann hefir ofmælt, og viðurkenna, að þeir séu ekki sekir. Ef hann í raun og veru teldi þá seka, vildi hann vafalaust láta refsa þeim. En eins og hv. þm. Ak. veit, er hér aðeins um það að ræða, að sparlega hefir verið haldið á tekjunum. Og hvernig ætti jafnlítið sveitarfélag og Engihlíðarhreppur að lifa sjálfstæðu lífi, þegar búið er að höggva af honum hvern hlutann af öðrum, þar sem Laxárdalur, sem verið hefir verulegur hluti af hreppnum, er nú að leggjast í auðn? Hv. þm. ætti því að vita, að það er að tálgast svo utan af þessu sveitarfélagi, að með frv. er verið að tefla í fullkomna tvísýnu, hvort það verður megnugt að standa undir öllum sköttum og gjöldum í framtíðinni. Þó að þetta yrði stuðningur við Blönduóshrepp, er það a. m. k. hæpið réttlæti að ganga svo herfilega á rétt annars aðila, til hagsbóta fyrir hinn.

Því virðist helzt haldið fram, að þetta sé eðlilegt og réttlátt, því Engihlíðarhr. þoli það, af því hann hefir safnað nokkrum sjóði með hagsýni og sparnaði. En það mun sýna sig, að það endist ekki lengi, ef svona á að ganga á tekjustofna hreppsins. A. m. k. ætti Blönduóshr. að hafa meiri skilyrði til þess að komast áfram en Engihlíðarhreppur, þegar búið er að rýra hann eins og hér er gert.

Mér finnst ekki rétt af hv. þm., sem jafnframt er oddviti sýslunefndarinnar, að vilja ekki hlýða á, hvað hún segir um málið, en styðja að því, að Engihlíðarhr. sé limlestur á þennan hátt, án þess að eiga kost á að bera hönd fyrir höfuð sér.