19.11.1935
Neðri deild: 77. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (2170)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Jón Pálmason:

Það hefði kannske ekki þótt ólíklegt, að ég sem fulltrúi þess héraðs, sem þetta mál viðkemur, hefði tekið þátt í umr. um það í gær, en þannig stóðu sakir, að báðir hv. 1. flm. frv. og hv. frsm. allshn. vörðu svo vel sitt mál, að ég fann ekki ástæðu til að bæta þar neinu við, fyrr en hin rökst. dagskrá um að vísa málinu frá kom fram frá hv. þm. Borgf. Áður en ég vík máli mínu að dagskrá þessari skal ég lýsa ánægju minni yfir brtt. allshn. og þakka n. fyrir skilning hennar á málinu. Óska ég, að brtt. verði samþ. í hv. d. — Skal ég svo fara nokkrum orðum um þessa dagskrá hv. þm. Borgf. Því hefir verið lýst yfir af flm. hennar, að hún væri byggð á þeirri reglu Alþingis, að krefjast ýtrustu tilrauna til samkomulags í slíkum málum sem þessu, áður en Alþingi léti það til sín taka. Ég get sagt hv. flm. það og öðrum, að mér hefði aldrei komið það til hugar, að mál þetta kæmi inn á Alþingi, ef hægt væri að gera ráð fyrir því, að samkomulag fengist um það í héraði, því ef hægt hefði verið að afgr. málið á grundvelli sveitarstjórnarl., þá var með öllu óþarft, að málið kæmi fyrir Alþingi. Nú liggja fyrir Alþingi öll rök í málinu, með og móti. Annarsvegar óskir um breyt., hinsvegar mótmæli gegn henni, þar sem talið er, að gengið sé á rétt Engihlíðarhrepps með sameiningunni. Ef svo er, að einhver hv. þm. hefir ekki enn lesið þau mótrök, þá vil ég mælast til, að þeir læsu þau, og vænti ég þá, að þeir treysti sér til að greiða atkv. með eða móti málinu án þess að því verði vísað frá með dagskrá. Snertandi það, að gróði sé fyrir málið að vísa því heim til sýslunefndar, þegar öll rök í málinu með og móti liggja ljós fyrir, þá sé ég ekki, að Alþingi stæði neitt betur að vígi, þó fyrir lagi samþykki eða mótmæli sýslunefndar, sem byggðust á eins eða tveggja atkv. mun. Þess vegna held ég, að engin ástæða sé til að vísa málinu heim.

Ég skal taka það fram, að hliðstætt mál þessu hefir legið fyrir þinginu, þar sem um var að ræða að leggja land, sem tilheyrði Gullbringu- og Kjósarsýslu, undir Hafnarfjörð. Allshn. vísaði þessu máli til sýslunefndar þeirrar sýslu, en eingöngu af þeim ástæðum, að hér var um að ræða breyt. á milli lögsagnarumdæma, þar sem tekið var af öðru og bætt við hitt. Slíkt liggur alls ekki fyrir hér.

Þá vil ég að síðustu geta þess, að fyrsti flm. frv., hv. þm. Ak., sem dauður er við þessa umr., hefir beðið mig að skila því, að þar sem hann talaði um agitationir utan þings móti frv., þá hafi hann ekki átt við þá menn, sem hingað eru komnir frá Engihlíðarhreppi, því það er gott að fá þeirra rök í málinu. Ef þau lægju ekki fyrir, væri frekar ástæða til að vísa því heim. En nú liggja þeirra rök frammi, og er því sú ástæða fallin. Hv. þm. Ak. átti við allt aðra menn utan þings, sem agiteruðu gegn frv., og þeirra agitationir voru ekki sprottnar af neinni umhyggju fyrir Engihlíðarhreppi, heldur af allt öðrum ástæðum. (PO: Hvaða menn eru það? — HannJ: Er það Steingrímur Davíðsson?). Ég ætla ekki að fara nánar út í það mál. Ég vænti þess, að hv. þm. hafi svo kynnt sér gögn málsins, að þeir geti greitt atkv. með eða móti frv. og að sú fylking verði þunnskipuð, sem dagskránni fylgir.