19.11.1935
Neðri deild: 77. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (2171)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ástæðan til þess, að ég kveð mér nú hljóðs til þess að gera aths., er sú fáránlega krafa hv. þm. V.- Sk., sem undarlegt er, að skuli koma frá löglærðum manni, að dagskrá minni sé vísað frá, af því hún ætti ekki við og geti því ekki komið til atkv. Hefði mér aldrei dottið í hug, að þessi hv. þm. gæti verið svo utangátta um afgreiðslu mála. Ég hafði í tveimur ræðum mínum fært rök að því, að málið bæri þannig að, að ómögulegt væri að samþ. frv., þar sem flest það hafði verið vanrækt í undirbúningi málsins, sem sveitarstjórnarlögin mæltu fyrir. Ég vissi þó ekki í gær, að annað hefði verið vanrækt en að leggja málið fyrir sýslunefnd Austur-Húnavatnssýslu, eins og l. mæla fyrir, en síðan hefi ég frétt, að málið hefir ekki einu sinni verið tekið fyrir af hinum fyrstu aðilum, þar sem eru hreppsnefndir Engihlíðarhrepps og Blönduóshrepps, því samningaumleitanir hafa aðeins verið milli einhverrar nefndar utan hreppsnefndarinnar í Blönduóshreppi og hreppsnefndar Engihlíðarhrepps, sem hreppsnefndin leit svo á, að gæti ekki verið hinn rétti aðili fyrir Blönduóshrepp. Það vantar því ekki einungis samþykki viðkomandi sýslunefndar, heldur vantar það, að tilraun hafi verið gerð til samninga milli sjálfra aðiljanna, hreppsnefndar Blönduóshrepps og hreppsnefndar Engihlíðarhrepps. Það skortir því ekki eitt, það skortir allt, til þess að Alþingi geti tekið ákvörðun um málið, Jú, auðvitað, ef Alþingi vill traðka ákvæði sveitarstjórnarl., þá er hægt að gera hér á nýja skipun. Það er náttúrlega hægt að samþ. lög alveg í trássi við anda og skýlaus ákvæði sveitarstjórnarl., en slíkt er Alþingi gersamlega ósamboðið. Það er því ekki um annað að gera en að vísa málinu heim og reyna samkomulag milli hreppsnefndanna, því slíkt samkomulag hefir ekki verið reynt, og ef það fæst ekki, þá að leggja málið fyrir sýslunefnd. — Ég þarf raunar ekki að hafa fleiri orð um þetta; það er svo ljóst, svo skýrt, að ekki er hægt að samþ. frv. nema með því að brjóta gegn ákvæðum 3. gr. sveitarstjórnarl. Ég trúi því ekki, að Alþingi taki svo hatrammt á málinu að samþ. frv. án þess reynt sé til þrautar að leysa það heima fyrir. Allt annað væri fullkomið ofríki, sem ekki samrýmdist því lýðræðisfyrirkomulagi, sem gildir hér í landi, heldur bryti algerlega í bága við það. Ég skal benda á það, að fyrir því eru fullkomin fordæmi að senda mál heim sem þetta, áður en Alþingi gripur inn í þau með löggjöf. Ég þarf ekki annað en benda á það, sem gert var hér í hv. d. fyrir nokkrum dögum, þegar hér lá fyrir frv. um að leggja undir Hafnarfjarðarkaupstað hluta af Bessastaðahreppi, og þegar farið var fram á að taka eignarnámi handa sama kaupstað jörð á Reykjanesskaga, þá þótti ekki annað fært en að bera málið undir sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu. Hv. þm. þessa kjördæmis fór fram á það við 2. umr., að engin atkvgr. færi fram um málið fyrr en umsögn sýslun. væri fengin. Og hæstv. forseti tók strax þessa ósk til greina og lofaði því, og það loforð var efnt, að málið skyldi ekki verða tekið á dagskrá fyrr en álit sýslunefndar Gullbringu- og Kjósarsýslu væri fengið. Þetta er því í fullu samræmi við það, sem ég hefi sagt um þetta mál, og þannig leit einnig hv. d. á þetta fyrir skemmstu. Ég get bent á, að í þeim tilfellum, sem með l. hafa verið tekin lönd undan Gullbringu- og Kjósarsýslu og lögð undir Reykjavík, sem hefir verið gert með tvennum l., fyrst Ártún og síðan Skildinganes, þó þótti ekki geta komið til mála að gera slíka breyt. öðruvísi en sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu kæmi fram sem réttur aðili í þeim málum. Nú hefir það verið borið í vænginn hér, að eðlismunur væri á því, hvort breyta ætti mörkum milli lögsagnarumdæma eða mörkum milli hreppa innan sama lögsagnarumdæmis. Á þessu er enginn verulegur munur? Þegar land er fært milli lögsagnarumdæma, er verið að færa á milli grundvöllinn undir álagningu gjalda til hrepps- og sýslusjóða, en hér er verið að færa á milli hreppa grundvöllinn undir álagningu útsvara. Í báðum tilfellum er það fjárhagsatriði, sem máli skiptir. Því er hér enginn eðlismunur á, hvort breyta á mörkum lögsagnarumdæma eða hreppa.

Ég ætla, að dæmi það, sem ég hefi bent hér á, sýni, að Alþingi hefir fullkomlega tekið til greina ákvæði sveitarstjórnarl. og neitað að taka til afgreiðslu slík mál sem þetta fyrr en búið væri að reyna til þrautar samkomulagsleiðina á grundvelli þeirra l. Eins á að fara að nú. Ef Alþingi samþ. þetta frv. nú, þá brýtur það ekki aðeins í bága við sveitarstjórnarlögin, heldur einnig við sína fyrri framkomu í a. m. k. þremur slíkum málum, sem legið hafa fyrir undanförnum þingum.

Ég þakka hæstv. forseta, hvað hann hefir leyft mér að hafa þessa aths. langa, en þetta varð að koma fram. Það sjá allir, að ekki kemur til mála að vísa frá þeirri rökst. dagskrá, sem ég hefi leyft mér að flytja, því samþ. hennar er sá eini máti, sem hægt er að afgr. þetta mál með. Furðar mig, að slík reginfjarstæða skuli koma fram.