19.11.1935
Neðri deild: 77. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (2173)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Forseti (JörB) [óyfirl.]:

Dagskrártill. hv. þm. Borgf. hljóðar þannig:

„Þar sem ekki liggur fyrir álit sýslunefndar Austur-Húnavatnssýslu um breyting þá á hreppaskipun, sem frv. felur í sér, en meðmæli sýslunefndar til slíkrar breytingar eru áskilin í 3. gr. sveitarstjórnarlaganna, þá tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.

Hv. þm. V.-Sk. óskar, að þessari dagskrártill. sé vísað frá, þar sem hann telur hana ekki í samræmi við anda þeirra l., sem í henni er vitnað til. Í dagskrártill. felst að vísu ekkert það, sem gerir hana óhæfa til að koma undir úrskurð deildarinnar. Rökstuðningur dagskrártillagna er yfirleitt mjög mismunandi og menn geta lagt misríka áherzlu á ýms málsatriði, sem til meðferðar eru í það og það skipti. Mitt álit er því það, þegar um slíkar till. er að ræða, svo framarlega sem þær brjóta ekki beint í bága við stjsk. eða ganga mjög á móti atriðum l. um það efni er þær fjalla um, þá sé ég ekki ástæðu til að vísa þeim frá, þannig að þær komi ekki til atkv. Í 1. gr. sveitarstjórnarl. er sagt, að sýslu- og hreppamörk skuli haldast þau, sem verið hafa, en í 2. og 3. gr. er gerður sá munur á, að sýslumörkum megi aðeins breyta með lögum, en umboðsvaldinu gefin heimild til þess að breyta hreppamörkum, ef fyrir liggi samþykki hlutaðeigandi hreppsnefnda og sýslunefndar. Það liggur þannig aðeins fyrir að því er snertir umboðsvaldið, að samþykki sýslu- og hreppsnefnda þurfi að liggja fyrir. Þegar um er að ræða að breyta hreppamörkum með l., virðist því ekki óhjákvæmilegt, að fyrir liggi yfirlýsing frá sýslu- og hreppsnefndum um að samkomulags hafi verið leitað. Á sama hátt og Alþingi getur breytt sýslumörkum með l. getur það og breytt hreppamörkum, ef ástæður eru fyrir hendi, sem þykja réttlæta þá breytingu. Hinsvegar sé ég ekki ástæðu til að vísa dagskrártill. hv. þm. Borgf. frá atkvgr., eins og farið hefir verið fram á. Það virðist hans skoðun, að undir engum kringumstæðum sé rétt að breyta hreppamörkum nema fyrir liggi álit sýslu- og hreppsnefnda áður en Alþingi ákveður slíka ráðstöfun. Um það efni geta menn haft sínar skoðanir. Mun ég því ekki vísa dagskrártill. hv. þm. Borgf. frá, og kemur hún til atkv.