02.12.1935
Efri deild: 84. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson) [óyfirl.]:

Þetta mál, sem er komið frá Nd., hefir verið til meðferðar í allshn. þessarar d. Eins og sjá má af nál. á þskj. 647, hefir n. ekki getað komið sér saman um afgreiðslu málsins. Hv. 10. landsk. hefir borið fram sérstakt nál. á þskj. 669 og vill þar afgr. málið alveg í samræmi við það, sem hann lét í ljós í n. Ég og hv. 1. þm. Skagf. leggjum til, að frv. verði samþ. óbreytt, en tveir nm., hv. 2. þm. S.-M. og hv. 1. þm. N.-M., hafa óbundin atkv. um málið.

Við, sem mælum með frv., lítum svo á, að hér sé um sanngirnismál að ræða. Eins og kunnugt er, þá er frv. um að sameina Blönduóskauptún, sem nú er skipt milli tveggja hreppa, í eitt hreppsfélag, og í grg. frv. er allýtarlega skýrt frá þeim rökum, sem liggja fyrir því, að þetta sé gert. N. hafa borizt bæði mótmæli og meðmæli með þessu frv. Mótmæli komu frá hreppsnefnd Engihlíðarhrepps, en meðmæli frá sameiningarnefnd Blönduóskauptúns. Okkur, sem mælum með frv., virtist svo skýr rök mæla með sameiningu kauptúnsins, að framhjá þeim yrði ekki gengið. Á síðari árum hefir risið upp öðrumegin árinnar starfræksla eins og kaupfélagið.

Mér er sagt, að þar sé einnig kvennaskólinn. Uppskipun og útskipun vara fer þar líka fram, og sú vinna yfirleitt, sem kauptúnsbúar mest æskja til kaupfélagsins, er úti þar. Þetta er austanmegin árinnar, í Engihlíðarhreppi. Hinsvegar er mjög lítið land tekið frá þessum hreppi, þó að sameining fari fram. Mér skilst, að aðalástæðan til þess, að þessi hreppur berst á móti sameiningunni, sé sú, að hann missi þarna goða gjaldþegna. Hinsvegar tók þetta frv. þeim breyt. í Nd., að mér skilst, að hreppsbúar Engihlíðarhrepps geti vel við unað, því að eins og frv. er nú, þá er fullkomlega ætlazt til, að hreppurinn fái bætur fyrir það tjón, sem hann kann að líða, ef þessi sameining á sér starfi, og ef hér er um að ræða verulega góða gjaldendur í Engihlíðarhreppi, þá er ekki nema sanngjarnt, að hann fái bætur fyrir.

Ég ætla ekki að svo komnu að fara út í rökfærslur um það, hversu mikil nauðsyn Blönduósi er að þessu, en það er þeirra skoðun, að það sé heppilegra og réttlátara, að kauptúnið sé sameinað í einn hrepp.

Það, sem mér skilst vera aðalástæðan hjá hv. minni hl., er það, að málið þurfi að fara heim og vera undirbúið betur þar, en ég held, að það sé í raun og veru að fara í geitarhús að leita sér ullar. Það mun vera svo mikill ágreiningur innan héraðsins um þetta mál, að það mundi sennilega ekki verða til neins góðs, þó að málinu væri vísað heim. Ég er þeirrar skoðunar, eftir upplýsingum, sem lágu fyrir n., og eftir því, sem kunnugir menn hafa upplýst, að þótt málið færi heim aftur, þá mundi það á engan hátt greiða fyrir því. Má geta þess um leið, að svipuð till. kom fram í Nd., en hún var felld með miklum atkvæðamun, 25:5 atkv., að mig minnir. Er það spegilmynd af því, hvernig Nd. lítur á þetta.

Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að fjölyrða meira um það. Legg ég svo til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.