02.12.1935
Efri deild: 84. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (2185)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Magnús Guðmundsson:

Ég ætla aðeins með örfáum orðum að lýsa minni skoðun á þessu máli, og hún er sú, að það sé óeðlilegt, að svona lítið kauptún eins og hér er um að ræða sé í 2 hreppum, og þess vegna sé sjálfsagt að sameina það. En hitt er annað mál, að ég lít svo á, að hreppurinn, sem kauptúnshlutinn er tekinn frá, eigi að fá bætur fyrir þann skaða, sem hann verður fyrir vegna þessara ráðstafana. Mér fannst hv. 10. landsk. gera lítið úr ákv. 4. gr. frv., þar sem stendur, að bætur skuli koma eftir mati fyrir missi útsvarstekna úr Blönduóskauptúni norðan Blöndu. Þetta þýðir náttúrlega það, að það á að meta skaðann, sem hreppurinn verður fyrir út af útsvarsmissi, og fá hann bættan. Og ég skal taka það fram, að ég ætlast til þess, að það komi fullar bætur fyrir þessa skerðingu, og þá sé ég ekki, hvaða sanngirni það er að setja sig á móti sameiningu kauptúnshlutanna.

Hv. 10. landsk. talaði mikið um lítinn undirbúning þessa máls. En ég hygg, að undirbúningurinn sé talsvert meiri heldur en beinlínis kemur fram í skjölum. Og hvað því viðvíkur, að Engihlíðarhreppsmenn hafi alls ekki verið heyrðir í þessu máli, þá er það kannske rétt, að þeir hafa ekki verið kvaddir umsagnar. En þeir hafa gert annað, sem er engu minna, þeir hafa sent hingað nefnd manna til þess m. a. að tala við allshn. þingsins, og hefir sú nefnd þegar verið á fundi með allshn. Ed., en ég hygg , að hv. 10. landsk. hafi þá ekki verið á fundi. Ég þekki suma þessa menn vel og hefi talað allýtarlega við þá líka utan fundar, og ég hefi ekki getað fundið annað en að þeir sættu sig sæmilega við þetta frv., svo framarlega sem svo yrði um hnútana búið, að þeir fengju bætur fyrir sinn skaða. Og viðvíkjandi því, að sýslunefndin hafi ekki getað fengið að segja sitt álit um þetta mál, þá er því til að svara, að kunnugir menn vita um flesta ef ekki alla sýslunefndarmennina, hvernig þeir muni greiða atkv. í þessu máli. En svo vil ég benda á það, að sjálfur oddviti sýslunefndar er fyrsti flm. þessa máls, og það er tæplega hægt að segja, að hann sé sýslunefndinni alveg óviðkomandi. Ég verð að viðurkenna það, að ég hefi ekki talað við neina menn úr Blönduóshreppi, en ég hefi það fyrir satt, að þar sé enginn á móti sameiningunni. Hvort þeir búast við að þurfa að borga nokkrar bætur, ef sameiningin fer fram, er mér ekki kunnugt um. En hitt er víst, að það er enginn hér, sem ætlast til þess, að sameiningin fari fram án þess að bætur komi fyrir. Hér á því ekki að gera neinum rangt til, heldur á að gera íbúum þessa tvískipta þorps hægara fyrir með því að sameina það, en þann skaða, sem af þessu verður fyrir Engihlíðarhrepp, á að bata að fullu. Ég fæ því ekki séð, að neinum sé gert rangt til, enda hygg ég, að andstaðan gegn þessu máli sé í raun og veru af öðrum ástæðum. Það er bert, að Engihlíðarhreppur verður ekki verr settur eftir sameininguna, ef hann fær þær bætur, sem ég hefi nefnt. En vinningurinn í þessu máli á þá að liggja í því aukna hagræði, sem fylgir sameiningu þessara kauptúnshluta í einn hrepp. — Annars þarf ég ekki að fjölyrða frekar um þetta mál, því hv. frsm. meiri hl. hefir tekið það fram, sem mér finnst þurfa.