26.02.1935
Sameinað þing: 2. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

1. mál, fjárlög 1936

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Hv. þm. V.-Ísf. fyrrv. fjmrh., hefir þegar sagt margt af því, sem ég vildi segja, og skal ég að minnstu leyti bæta við það. Ég skal ekki nota þennan tíma til að deila á núv. hæstv. stjórn; það mun gefast tækifæri til þess síðar. En ég gat ekki annað en undrazt þá ofurviðkvæmni hjá hæstv. fjmrh., þegar hann eyddi nokkrum tíma úr fjármálaræðu sinni — þeirri hátíðlegu fjármálaræðu — til þess að tala um nokkrar línur, sem stóðu í blaðinu Framsókn. Ég undraðist þetta því meir, þar sem rétt var skýrt frá um lánsfjárhæðina, sem átti að taka, 113/4 milljón. Ég veit ekki betur en að heimildin hafi hljóðað um 113/4 millj. og að það sé búið að taka 113/4 millj. að láni.

Það var mjög gott að fá frá hæstv. fjmrh. viðurkenningu fyrir því í ræðu hans, að ég hefði ætlað að greiða verðuppbót á kjötið af framleiðslu 1933; en viðurkenning þessi stakk nokkuð í stúf við orð sumra annara manna í stjórnarflokkunum, sérstaklega hans eigin flokki.

Ég get ekki borið neinn kinnroða fyrir það, þótt ég hafi greitt jarðræktarstyrkinn hærri en hann var áætlaður í fjárl. síðastl. árs. Ég get ekki gert við því, að bændur hafa séð sér fært að ráðast í meiri jarðabætur en það svartsýna þing 1933 gerði sér vonir um.

Ég get ekki heldur borið neinn kinnroða fyrir það, að útgjöld til kreppuráðstafana hafa numið allmikilli upphæð. Það voru útgjöld, sem allt Alþingi nær einróma samþ. og leit svo á, að óhjákvæmilegt væri að greiða. Ég nefni ekki einstakar undantekningar í Alþfl., því að þeirra gætti ekki mjög mikið. Þau útgjöld komu að vísu mjög tilfinnanlega við útkomu síðstl. árs, en í raun og veru mætti, eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði, skipta þeim útgjöldum á fleiri ár.

Sá liður, sem sérstaklega tekur til þeirrar deildar, sem ég hafði yfirstjórn á, er vegamálin, þar sem helzt hefir farið fram úr áætlun. En þá er á það að líta, að vegirnir eru lífæð atvinnuveganna í sveitinni. Þeir eru skilyrði fyrir því, að bændur geti komið afurðum á markað og geti breytt búskaparlaginu frá hinum aldagamla rányrkjubúskap í nýtízku ræktunarbúskap; því að meðan vantar samgöngur, er ekki hægt að nota aðstoðuna til nýs markaðar, sem ræktunin óhjákvæmilega þarfnast. Og þó að tími fyrrv. stj. hafi verið svört kreppuár, er þó þá sögu að segja, að vegakerfi landsins hefir aukizt ekki lítið á þeim árum. Þegar fyrrv. stj. tók við, var búið að gera bílfært frá Reykjavík til Húsavíkur, og þótti mjög mikið stórvirki. En um það bil sem fyrrv. stjórn fór frá völdum, var að verða bílfært alla leið austur á Seyðisfjörð og Reyðarfjörð. Auk þess voru gerðar afskaplega miklar og kostnaðarsamar vegaframkvæmdir á Suðurlandsundirlendinu, sérstaklega á vatnasvæði Markarfljóts og Þverár. Og ég hygg, eftir fyrri ræðum og skrifum framsóknarmanna ýmissa, að þeir harmi ekki þær framkvæmdir, þó að kostað hafi þær mikið fé; því að þeir hafa mjög hælt sér fyrir að hafa komið þeim á, þó að það væri reyndar Bændaflokksmaður, sem framkvæmdi verkið.

Þessar miklu vegaframkvæmdir hafa að vísu verið gerðar fyrir lántökur, og það var meiningin að skipta þeim kostnaði niður á fleiri ár. Er þess vegna dálítið villandi, þegar hæstv. fjmrh. tekur þetta allt á eitt ár. Um lántökur til þessara sérstöku vegaframkvæmda var þingið yfirleitt nokkurn veginn sammála og gekk þar að nokkru leyti lengra en ég fór fram á, þegar ég bar fram frv. um lánsheimild til brúargerða. Ætlaðist ég þá til, að stj. fengi heimild til þess að leggja um 60 þús. kr. á ári til nýrra brúargerða, með það sérstaklega fyrir augum að geta, þar sem svo stæði á, að í fjárl. væri veitt til að brúa eina á, brúað aðra á í nánd, til þess að spara flutninga og ferðir og geta tvínotað uppslátt og þess háttar á sömu slóðum. Þetta fyrirkomulag lækkar að sjálfsögðu heildarkostnaðinn við verkið.

En þingið breytti þessu og hækkaði lánsheimildina allmikið. Vildi Alþingi láta gera mikla viðbót fyrir lánsfé, og jafna útgjöldum til nauðsynlegra viðbóta niður á fleiri ár. Á s. l. ári hefir verið talið greitt til nýbygginga þjóðvega um 340 þús. kr., en með lánsfé 201 þús. kr. ég skal geta þess, að fyrir lá loforð um lánsfé um 50 þús. kr. í viðbót, og mun ekki falið í yfirliti hæstv. fjmrh. Hefi ég ástæðu til að ætla, að það loforð muni verða efnt, þótt síðar verði. Fjárveitingin til nýbygginga var í fjárl. fyrir 1934 210 þús. kr. Og þegar lánsféð er dregið frá. einnig það fé, sem lofað var og væntanlega kemur, þá er munurinn ekki næsta mikill. Umframgreiðsluliðirnir koma nær eingöngu á þá vegi, þar sem sérstaklega stóð á, t. d. að þyrfti að tengja saman vegarkafla eða skapa hentugri aðstöðu til markaðar, sérstaklega til þess að geta notað mjólkurbú. Skal ég nefna Dalvíkurveginn, sem gerður var til þess, að sú ágæta sveit gæti haft not af mjólkurbúi á Akureyri, enda var um mikið framlag að ræða frá sýslunni.

Ég get nefnt annan veg, sem hæstv. núv. stj. ætti ekki að kvarta yfir, að eytt hafi verið umframgreiðslu til, en það er Fjarðarheiðarvegur. vona ég a. m. k., að einn hæstv. ráðherra fyrirgefi fyrirrennurum sínum þá eyðslu.

Þá var umframneysla í Skagafirði, en með sérstöku tilliti til þess, að verið er að reisa mjólkurbú. Það var mjög aðkallandi að skapa sem flestum aðstöðu til að njóta þeirrar góðu framkvæmdar. með því að leggja þar vegarviðbót. Kemur þetta til góða einkum Blönduhlíðinni, sem er sérstaklega mikil kúasveit.

Um viðhald og umbætur þjóðvega vil ég einnig bæta nokkrum orðum við það, sem fyrrv. fjmrh. (ÁÁ) sagði. Þessar framkvæmdir hlutu óhjákvæmilega að verða alldýrar þetta síðastl. ár, og skal ég geta um nokkrar ástæður fyrir því.

Það er í fyrsta lagi, að á árinu 1932 var sparað svo sem unnt var, vegna hins þrönga fjárhags ríkissjóðs, til viðhalds þjóðvega, og varð afgangur nokkuð verulegur af þeirri upphæð, sem til viðhaldsins var ætlað. En það hefir í för með sér óhjákvæmilega, að síðar varð að bæta úr því, sem þá vantaði á.

Ennfremur vil ég minna á það, að með vegal. frá 1933 var bætt við vegakerfi landsins um 900 km., eða vegakerfið aukið um nær þriðjung. Þessir vegir hafa margir verið af vanefnum gerðir — eða aðeins ruddir — og þeim hefir ekki verið nægilega vel haldið við undanfarin ár. Þess vegna varð þegar í stað að kosta miklu til viðhalds þeirra.

Þá get ég í þriðja lagi nefnt þá ástæðu, að skemmdir af vatnavöxtum urðu sérstaklega miklar á þjóðvegakerfinu austur 1933 og í janúar og febrúar 1934: Þetta nam geysilegri upphæð, og er lágt áætlað, að það hafa verið á annað hundr. þús. Ég skal t. d. nefna Hvítárbrú efri í Árnessýslu, sem fór að nokkru leyti í flóðunum veturinn 1934. Endurbót þar kostaði milli 20 og 30 þús. kr. Þannig var sama sagan í Borgarfirði, Norðurárdal, og svo má lengi telja.

Af þessum ástæðum öllum hlaut framlag til viðhalds þjóðvega að fara allverulega fram úr áætlun. Eftir lauslega áætlun um umframeyðslu af þessum sérstöku ástæðum virðist mér, að ef þær hefðu ekki verið fyrir hendi, hefði viðhald þjóðvega ekki farið fram úr þeirri upphæð, sem áætluð var í fjárl. 1934, sem var þó miklu lægri en oft áður og nokkuð á annað hundr. þús. kr. lægri en í núv. fjárl.

Til brúagerða hefir að vísu verið varið allmiklu meira en fjárveiting var fyrir; en þar var notuð lánsheimild, sem Alþingi hafði einróma gefið fyrrv. stj. Og að það hafi verið nauðsyn á þeim brúarframkvæmdum, má glögglega sjá af þeim mikla áhuga, sem sýndi sig frá viðkomandi héruðum, bæði um að afla lánsfjár og jafnvel leggja sýslusjóðsframlag á móti, til að reisa þessar bráðnauðsynlegu brýr. Auk þess var ekki nægilega gert ráð fyrir því, að sumar elztu brýrnar, trébrýr gerðar fyrir tugum ára, voru þegar svo úr sér gengnar, að ekki varð komizt hjá endurbyggingu. Og ég get minnt á það, að jafnvel núv. stj. komst ekki hjá að taka ákvörðun um að byggja eina brú, brúna á Álftá. Því að það getur engin stj. varið að láta þær brýr hanga uppi, sem fullkomin mannhætta er að nota.

Þá skal ég geta þess, að það brast a. m. k. eitt loforð um lán til brúargerða. Hefði samsvarandi upphæð ekki verið notuð, ef ekki hefði legið fyrir loforð. Það var frá manni, sem bauð sig fram fyrir núv. stjórnarflokk; en þegar hann komst ekki að, varð minna úr því að stunda við loforðið, en það kom niður á ríkissjóði.

Hinsvegar get ég getið þess, að til sýsluvega hefir ekki verið um umframgreiðslu að ræða. Einnig get ég minnt á það, að ég gat ekki betur skilið ræðu hæstv. fjmrh. en að hann telji með greiðslu til vega þær 50—60 þús., sem eiga að ganga til malbikunar á þjóðvegarköflum. En ég veit ekki til, að farið sé að nota þær, og er líklega nokkuð óvíst, hvort nokkurn tíma verða notaðar. (Fjmrh.: Það á að leggja það í sjóð). Það á að leggja það í sjóð, en ég hygg það sé nokkur vafi á, að haldið verði áfram að leggja í hann. (Fjmrh.: Var lagt í hann þegar þm. var ráðherra?). Sjóðurinn mun reikningslega vera til. (Fjmrh.: Reikningslega!). Ég hygg, að hæstv. núv. stj. þurfi ekki að kasta skósum til fyrrv. stj. um meðferð sjóða. Ég hygg, að næstu stjórnir á undan þeirri, sem ég átti sæti í, hafi einstöku sinnum tekið lán úr sjóðum. Mun Framsfl. a. m. k. ekki græða á, að farið sé út í þær sakir.

Ég skal gera grein fyrir, hvers vegna ég taldi nokkra sérstaka ástæðu til að nota þá lánsheimild, sem Alþingi hafði einróma veitt til þess að auka vega- og brúargerðir í landinu.

Fyrst og fremst var nauðsyn héraðanna mjög knýjandi. Og sú nauðsyn kom mjög glögglega fram í áhuga héraðanna sjálfra. Í annan stað mátti eiga von á verulegum atvinnubótum í Sogsvirkjuninni, eins og nú er full vissa fyrir. Þess vegna myndi ekki á þessu ári verða eins knýjandi nauðsyn til þess að nota lánsheimild í atvinnubótaskyni eins og var s. l. ár.

Þar að auki sé ég ekki ástæðu til að harma, að lánsheimildin var notuð, ef litið er til þess, hve miklu ódýrari þessar framkvæmdir hafa orðið fyrir ríkissjóð í höndum fyrrv. stj. heldur en þær hefðu orðið í höndum núv. stj., þar eð hún hefir hækkað kaupið í vegavinnunni allverulega. Hæstv. fjmrh. kvað kauphækkun þessa af völdum fyrrv. stj. nema um 100 þús. kr., og mun það sízt vera of hátt áætlað. Og það eitt er nokkurn veginn skýr sönnun þess, að núv. stj. hefir ekki blöskrað útgjöld til vega, þar sem hún lét það verða eitt af sínum fyrstu verkum að bæta þessum útgjöldum ofan á.

Þriðja ástæðan fyrir því, að mér finnst ekki eftirsjón eftir því, að þessi lánsheimild var notuð, er sú, að í tíð fyrrv. stj. var ekki farið að æfa þá list, sem núv. stj. hefir æft í ríkum mæli, sem sé að beita slíkri hlutdrægni í úthlutun vegafjárins til einstakra heraða eins og nú er komið á daginn, bæði í afgreiðslu fjárl. fyrir þetta ár og í fjárlfrv. því, sem liggur fyrir þessu þingi.

Ég get aðeins minnzt á það, svona rétt sem dæmi, að til eins héraðs, þar sem stjórnarandstæðingur átti í hlut, var í fjárlagafrv. stj. ekki veittur nema 1/7 hluti af því, sem vegamálastjóri hafði lagt til. En í annari sýslu, sem einn ráðh. var þm. fyrir, var sjöfölduð upphæðin, sem vegamálastjóri hafði lagt til að veita þar til vega. Svo að hér ber allmikið á milli. Og að endingu má nefna, að til einnar sýslu, Dalasýslu, hafði vegamálastjóri lagt til að veita 35 þúsundir til vega, þegar samið var fjárlfrv. það, sem nú liggur fyrir; en stj. hefir gert sér hægt um hönd og strikað þá upphæð út með öllu, séu að engum eyri verði varið til vegabóta í þeirri sýslu. Þegar þessi útkoma er borin saman við aðrar sýslur, þar sem skjólstæðingar hæstv. stj. eiga í hlut, þá kemur í ljós svo bersýnileg hlutdrægni, að flestum mun blöskra. Og munu þá margir taka undir það, að ekki sé að harma, að lánsheimild hafi verið notuð á undanförnum árum, meðan reynt var að deila réttlátlega milli héraða. Þar hafa t. d. Eyjafjarðarsýsla, Þingeyjarsýslur og Múlasýslur fengið sinn fulla skerf. Og í þessum héruðum var vegabótanna hin fyllsta þörf.

Ég hefi ekki ætlað mér að fara út í önnur mál, sem ekki snerta mig sérstaklega; en það mun gefast til þess tækifæri síðar.