09.12.1935
Efri deild: 90. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Briem) [óyfirl.]:

Það er nú nokkuð liðið síðan mál þetta var rætt síðast hér í hv. d., og er ég því ekki viss um, að ég taki til greina þau mótmæli öll, sem fram komu gegn brtt. okkar hv. 1. þm. S.- M., með því að ég hefi ekki teiknað niður svo nákvæmlega það, sem á móti henni var mælt.

Út af ummælum hv. þm. S.- Þ. vil ég taka það fram, út af þessum herskatti, sem hann réttilega var að tala um að væri hætta á, að yrði lagður á kaupfélag Húnvetninga, að það er m. a. af þeirri ástæðu, af þeim ótta við þann herskatt, sem ég er á móti frv., auk þess sem undir mitt álit í þessu máli renna þær stoðir, sem ég hefi áður tilgreint, að frv. þetta sé ekki nægilega undirbúið. Og að mínum dómi er ekki forsvaranlegt að afgr. það með svo litlum undirbúningi í héraði sem það þegar hefir fengið. Vil ég því leggja áherzlu á, að eðlilegast sé að fella frv. sjálft.

Hv. 1. þm. Eyf. benti á, að það væri ekki víst, að þessi brtt. okkar hv. 2. þm. S.- M. næði tilgangi sínum, með því að ekki væri tiltekið í brtt., hver ætti að leggja úrskurð á þá reikninga, sem eftir ætti að fara, þegar reikna skyldi út bæturnar. Ég verð að líta svo á, að hér liggi fyrir viðeigandi reikningar frá síðustu 5 árum. Það liggur í hlutarins eðli, að þeir hljóti að vera nægilega sundurliðaðir, svo að eftir þeim ætti að mega reikna þetta út eins og fremur einfalt reikningsdæmi. Hinsvegar, ef ágreiningur yrði um þetta efni, teldi ég eðlilegt, að sýslunefnd, sem leggur annars úrskurð á hreppsreikninga, skæri úr, ef til ágreinings kæmi. Ég ætla, að þeir liðir, sem þyrfti að ákveða bæturnar eftir, bæði brúttótekjurnar og svo útgjöld til frádráttar þeim, hljóti að liggja það glöggt fyrir í hreppsreikningum Engihlíðarhrepps síðustu 5 árin, að ekki sé þeirra vegna ástæða til að vísa þessari brtt. frá. Hinsvegar er það svo, að ef hv. 1. þm. Eyf., sem annars tók vel í að vera með að fella þetta frv., óskar þess, að bætt verði við brtt. okkar ákvæðum um það, hvaða aðili skuli hafa úrskurðarvald, ef til ágreinings kemur í þessu efni, þá er ég fús að ganga inn á það.

Hv. 4. þm. Reykv. var að tala um, að um óvenjulega leið væri að ræða í brtt. á þskj. 703. Út af þessum ummælum hv. þm. vil ég benda honum á, að hann vildi sjálfur fara miklu óvenjulegri leið, þegar hann mælti á móti dagskrártill. minni við 2. umr. þessa máls hér í d. Hann lagði þá áherzlu á, að Alþingi dæmdi í þeim ágreiningi, sem hér kynni að verða á milli hlutaðeigandi hreppa um hreppamörkin. Það er því ekki nema eðlilegt áframhald af því, sem hann hélt fram þá, að Alþingi kveði á um skaðabæturnar, hvernig þær skuli reiknast. Hvort þær verða háar eða lágar, er ekki hægt að segja um á þessu stigi málsins.

Að endingu vil ég taka það fram, að ég tel einu leiðina til þess, að Engihlíðarhreppur fái þær bætur, sem hann getur látið sér lynda, að brtt. á þskj. 703 verði samþ. Annars legg ég höfuðáherzluna á það, að frv. verði fellt.