26.02.1935
Sameinað þing: 2. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

1. mál, fjárlög 1936

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég hefi nú ekki nema fjórðung stundar til svars öllum þeim mörgu ræðum, sem hér hafa verið fluttar, þar af tvær a. m. k. sem eldhúsumræður á núv. stj. Ég byrja á að víkja nokkrum orðum að því, sem fyrrv. fjmrh., hv þm. V.-Ísf., sagði. Hann kvað sig enga hvöt hafa haft til þess, þegar hann var fjmrh., að reyna að draga sundur uppgerð ársins 1931 til að finna út, hvað væri sér að kenna og hvað öðrum af því, sem gert hafði verið. Þetta getur nú ef til vill verið rétt; en það skiptir allt öðru máli þá eða nú. Nú stendur svo, að stj. tók við af samsteypustjórn, sem var studd af höfuðandstæðingum núv. stj. Og þegar núv. stj. sætir stöðugt aðkasti frá þessum sömu andstæðingum og er sökuð um að fara verr með fé en sú fyrrv., þá er ekkert einkennilegt, þó að núv. stj. sé það áhugamál að draga upp rétta mynd af því fyrir landsmönnum, hvernig hvor stj. um sig hagaði sér.

Það er rétt hjá fyrrv. fjmrh., að það er erfitt í einstökum atriðum að gera þessu skil; en þó er hægt að gera það svo greinilega í heild, að ekki skakki verulega.

Í sambandi við það, sem ég sagði um kostnað við landhelgisgæzlu og strandgæzlu, sem fór fram úr áætlun þann hlutann, sem núv. stj. starfaði, vil ég benda á það, að þeir, sem gengu frá fjárl. á sínum tíma og skipulögðu framkvæmdirnar í byrjun ársins, t. d. áætlun strandferðaskipanna. Þeir bera höfuðábyrgðina á því, hvernig reynsla ársins kemur heim við áætlun fjárl. Ég segi ekki, að fyrrv. stj. hafi komizt hjá sumum greiðslum, sem fóru fram úr áætlun. En ég bendi á, að þessar greiðslur eru hærri en gert var ráð fyrir í afgreiðslu fjárl. á sínum tíma, og þær áætlanir hefir núv. stj. ekki gert.

Ég hefi tekið út úr sérstaklega þær greiðslur, sem núv. stj. ber ábyrgð á og fram hafa farið síðan hún tók við völdum, til þess að fá það út, hvernig allt hefði litið út, ef þessi stj. hefði ekki tekið við, og þá er markinu náð.

Ég gerði grein fyrir öllum umframgreiðslum eins samvizkusamlega og ég get, og þess vegna kom mér það undarlega fyrir sjónir, að fyrrv. ráðh. skyldi fara að gera nánar grein fyrir þeim, eins og ég hefði alls ekkert á þetta minnzt.

Mig furðaði á ræðu hv. 10. landsk. Hann talaði eins og ég hefði ráðizt sérstaklega freklega á hann fyrir hverja þá greiðslu, sem hann hefði látið fram fara, meðan hann var í stj. En hafi nokkur verið hér að álasa honum, þá er það hans eigin samvizka, hans vonda samvizka. Ég var ekkert að ásaka hann, ég las aðeins upp tölur. Ég var ekki að ámæla honum fyrir framlag hans til vegabóta, heldur fyrir það, að hann skyldi ekki hafa séð fyrir tekjum til að standast það framlag. (ÞBr: Á atvmrh. að skaffa tekjurnar?). Hann átti að fylgjast með í stj., að ekki væri eytt meiru en tekjur voru til fyrir. Það verða allir atvmrh. að gera. Það er ekki heldur skipt svo störfum milli ráðh., að einn eigi ekkert að vita um, hvað annar gerir. Ég vil benda á, að þessi ráðh. hefir ekki tekið þetta framlag til vegabóta af tekjum ríkisins, heldur tók hann lán. Þessar framkvæmdir voru því gerðar á kostnað þeirra möguleika, sem nú eru fyrir bendi til verklegra framkvæmda. Það eru 140000 kr., sem verður nú að draga úr verklegum framkvæmdum ríkisins vegna þess, að ríkið lét gera þetta fyrir lánsfé. Það lítur vel út og getur hljómað vel í eyrum sumra, að þetta og þetta hérað sjái ekki eftir, að þessi lánsheimild var notuð, en allir hljóta að sjá, að þetta kemur á kostnað verklegra framkvæmda nú, af því hvernig þessu máli var háttað í stjórnartíð þessa fyrrv. ráðh.

Hann var að tala um, að það vari einkennilegt, að öll þessi upphæð væri færð á landsreikning. Hann hefir undarlegar hugmyndir um bókfærslu. Hann ætti að vita, að ef lán er tekið, þá verður það að farast á næsta rekstrarreikning; annars sýnir reikningurinn ekki rétta útkomu. Það skiptir engu máli, hvort tekið er lán til einhverra framkvæmda eða það er tekið af rekstrartekjum ársins, ef um rekstrarútgjöld er að ræða, þá verður það að færast á sinn stað.

Þá vil ég minnast á ræðu hv. 1. þm. Reykv., en það verður að vera miklu lauslegar en ég hefði óskað, sökum tímaskorts. Hann sagði, að ég hefði misnotað ræðutíma minn með því að minnast á Morgunblaðið. Ég vil ekki viðurkenna, að ég, hafi í neinn hátt misnotað ræðutíma minn, en ég tel hann hafi misnotað sinn ræðutíma með því að tala um allt annað efni en fjárlfrv., sem hér liggur nú fyrir. Hann fór að tala um afurðasölumálin, svo sem kjöt- og mjólkurmálið, væri sannarlega gott, ef maður hefði tíma til að tala um það við hann, þó að ekki væri til annars en að segja frá því, hvernig Sjálfstfl. er nú að reyna að koma af stað mjólkurverkfalli í bænum og notar blöð sín til þess eftir mætti, þó að líti út fyrir, að það ætli ekki að takast, því að menn láta ekki hlaupa með sig í gönur.

Það, sem mest vakti eftirtekt mína í ræðu hv. þm., var það, þegar hann fór enn á ný að tala um þessi gífurlegu fjárlfrv., sem stj. beri fram. En hvað er það í sambandi við upphæðirnar á landsreikningnum, 15 millj. 1933 og 17 millj. 1934? Þá var ekki hugsað um að draga úr þessu. Þá voru þm., sem stóðu að þessum frv., að tala um, að æskilegt væri, ef kaupgetan gæti aukizt með því að hafa útgjöldin svona há.

Það kemur dálítið einkennilega fyrir, þegar þessi hv. þm. er að tala um þær lækkanir, sem hans flokkur hefði komið með í fyrra. Það vita hvort sem er allir, að ef till. stjórnarandstæðinga hefðu verið samþ., þá hefði fjárlfrv. verið afgr. með 4800 þús. kr. tekjuhalla. Þeir beittu sér á móti svo að segja öllum skatta- og tollahækkunum og báru þar að auki fram till. um stórfelld framlög til einstakra héraða og til Skuldaskilasjóðs, svo að útkoman hefði orðið þessi, ef þessar till. þeirra hefðu allar verið samþ.

Þá vil ég benda á eitt enn, en það er afstaða flokks hans til fjármála Reykjavíkurbæjar, sem hefir vitanlega mikil áhrif á fjármál ríkisins alls. Sjálfstfl., sem hefir hér meiri hluta, gerir nú ráð fyrir, að útsvör í bænum hækki um 33%. Ef við ættum að fylgja hér sömu pólitík og þar sem þeir ráða, þá ætti að hækka ríkistekjurnar upp í rúmlega 18 millj. kr. Þannig er sparnaðurinn þar, sem þessi flokkur ræður. Ef hann meinar nokkuð með því, að kaupgetan ætti að bæta greiðslujöfnuðinn, þá mundi flokkurinn beita sér fyrir því að lækka t. d. laun hjá starfsmönnum bæjarins, sem hafa sumir um eða yfir 20000 kr., til þess að þar kæmi ekki fram óeðlileg eftirspurn eftir erlendum vörum, en ekki hefir bólað á neinum slíkum till. hér í bænum, þar sem sjálfstæðismenn ráða lögum og lofum. Hér er borguð 40% dýrtíðaruppbót á öll laun, en ríkið hefir tekið upp það ráð, undir stjórn þessara óguðlegu manna að hans dómi, að lækka dýrtíðaruppbótina verulega og fella hana alveg niður af hæstu launum. Þannig er samanburðurinn á því raunverulega í stefnu flokksins og þess, sem þeir vilji vera láta á mannfundum og í útvarpi.

Hann sagðist vilja leiða hjá sér að tala um þá uppgerð fyrir árið 1934, sem hér liggur fyrir, og get ég vel skilið það. En það verður hann að vita. sá góði maður, þó að hann óski að leiða það hjá sér, að hans flokkur hefir staðið að fjárl. þessa árs og verið með þeim frv., sem hafa haft í för með sér þau útgjöld, sem koma á landsreikninginn 1934. Kemur það ekki vel heim við þær ásakanir hans og hans flokksmanna, að núv. stj. vilji afgr. 14 millj. kr. fjárl. Það er því ekki heil brú í þessum ásökunum þeirra, því að þeir eru samábyrgir fyrir þessum útgjöldum frá því, þegar þeir fóru með völd.

Þá minntist hv. þm. á það, að nú gengju miklar sögur um það í bænum, að stj. hefði orðið að gefa niðurlægjandi yfirlýsingar í sambandi við þá lántöku, sem nú fór fram. Mér skildist, að hann vildi ímynda sér, að þessi orðrómur hefði við rök að styðjast. Ég veit, að sá orðrómur gengur í bænum, að því hefði verið lýst yfir af stj., að fleiri lán yrðu ekki tekin nema með samþykki Englendinga. Þetta er vitanlega tilhæfulaust. Hitt er annað mál, og það get ég sagt, fyrst farið er að ræða hér um þetta atriði, að þeir, sem með þessi mál fara úti í Englandi, þeir, sem veita leyfi til þess, að þar megi bjóða út lán, hafa haft áhuga fyrir að kynna sér, hvort það væri ekki ætlun þeirra, sem nú færu með völdin, að bæta úr því ófremdarástandi, sem nú er á gjaldeyrismálunum. Þeir hafa haft áhuga á að kynna sér, hvort ætti að halda áfram á þeirri braut, sem undanfarið hefir verið gengin, að flytja árlega miklu meira til landsins en hægt er að borga, og stofna þannig til stórfelldra skuldbindinga á hverju einasta ári, og í sambandi við þær athuganir að kynna sér, hvort það væri meiningin að halda áfram þessari skuldastofnanastefnu. Fengu þeir að vita það, að það væri fullkomlega ætlun allra þeirra, sem standa að núv. stjórnarmeirihl. hér, að reyna að bæta úr þessu ófremdarástandi, eins og oft hefir verið lýst yfir í ræðum, sem um þetta hafa verið haldnar.

Ég veit ekki, hvort hv. 1. þm. Reykv. þykir nokkuð niðrandi í því, þó að það komi í fram í sambandi við lánsumleitanir, að það sé fyrirhugað að ætla að hætta að safna eyðsluskuldum við útlönd, eins og gert hefir verið m. a. fyrir samþ. Sjálfstfl. Það sýnir ekki annað en að menn hafi opin augun fyrir þeim voða, sem þjóðinni er búinn af skuldasöfnun og þeim takmörkunum, sem gerðar hafa verið og er verið að gera í aðalmarkaðslöndum okkar. Það er vitanlega af þeim takmörkunum, eins og oft hefir verið komið inn á í sambandi við þessi mál, að þjóðin þarf að sýna miklu meiri sjálfsafneitun en verið hefir, og verður að taka þessi mál öðrum tökum en gert hefir verið undanfarið, þegar stjórnarandstæðingar, sem þessi hv. þm. talar fyrir, hafa haft sína aðstöðu til þess að hafa áhrif á þessi mál. (ÓTh: Hefir Framsfl. ekki farið með völd 3 undanfarin ár?). Það er rétt, Framsfl. bar líka ábyrgð á stjórnarstörfum þessi ár. En ástæðan til þess, að ég legg svo mikla áherzlu á, að stjórnarandstæðingar hafi líka borið ábyrgð á þessu, er sú, að þeir vilja skella allri ábyrgðinni á núv. stj. fyrir afleiðingar þess, sem gert var, þegar þeir voru meðábyrgir um stjórn landsins.