09.12.1935
Efri deild: 90. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (2200)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Magnús Guðmundsson:

Ég vildi aðeins taka það fram, að ég er ekki samþykkur brtt. á þskj. 703, því að mér skilst, að hún muni binda of mjög hendur þeirra manna, sem eiga að meta bæturnar til Engihlíðarhrepps. Með brtt. þessari eru matsmönnunum bundnar of þröngar reglur. Hinsvegar skal ég taka það fram, að ég ætlast til, að Engihlíðarhreppur fái fullar bætur fyrir þann tekjumissi, sem hann kann að verða fyrir, að athuguðum öllum kringumstæðum.

Þegar mál þetta var síðast hér til umr., for hv. þm. S.-Þ. nokkuð sögulega út í það, og þá sérstaklega að því er snertir byggingu Blönduóskauptúns. Sakir þess, að mér fannst ekki rétt með allt farið hjá hv. þm., vildi ég leyfa mér að gera lítilsháttar leiðréttingu. Það er þá fyrst, að mjög mikill efi er á því, hvort kauptún hefði nokkurntíma myndazt sunnan Blöndu, ef brú hefði verið komin á hana þegar fyrstu verzlunarhúsin voru reist þar, því að verzlunarstaðurinn myndaðist upphaflega sunnan Blöndu vegna þeirra héraða, sem liggja sunnan og vestan árinnar. Þetta vildi ég taka fram, án þess ég viti nokkuð um það, hvort kaupfélaginu hafi verið neitað um pláss sunnan Blöndu, eins og hv. þm. vildi vera láta. Annars virðist mér, að það hafi verið alveg rétt hjá kaupfélaginu að byggja norðan árinnar, þar sem það byggði ekki hús sín fyrr en eftir að brúin á Blöndu var gerð, en hún var byggð 1897, ef ég man rétt.