09.12.1935
Efri deild: 90. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (2201)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Briem) [óyfirl.]:

Hv. 4. þm. Reykv. vildi ekkert fara út í umr. um málið. Hann taldi, að fyrir því hefðu verið færð full rök áður. Skal ég því ekki gera honum þann óleik að fara neitt út í hinar fyrri röksemdafærslur hans um þetta mál.

Hv. 1. þm. N.- M. mælti og á móti brtt. á þskj. 703, taldi, að sá grundvöllur, sem þar er lagður um skaðabótagreiðslu vegna þessarar hreppaskiptingar, myndi ekki koma réttlátlega niður. Ég hefi orðið var við, að það vekti fyrir sumum andstæðingum þessarar brtt., að réttast myndi að miða bæturnar við ágizkanir um það, hvað verða muni framvegis, frekar en hitt, hvað gerzt hefir í þessu efni á undanförnum árum. Að sjálfsögðu mætti miða við þetta, ef við yfirleitt sjáum fram í tímann, en ég held, að við gerum það ekki svo mjög, að slíkt verði ekki valtur grundvöllur til þess að byggja á, og því verði ekki annað fyrir hendi en að miða við fortíðina, og út á það gengur brtt. okkar hv-. 2. þm. S.-M. á þskj. 703. Að miða við ágizkanir um það, hvort fjölga muni eða fækka hreppsómögum, eða hitt, hvort fjölga muni eða fækka barnsfæðingum í þessum hluta Engihlíðarhrepps, sem nú er deilt um, verður áreiðanlega vafasamur grundvöllur til þess að byggja útreikning á.

Hv. 1. þm. Skagf. tók það fram, að hann vildi, að Engihlíðarhreppur fengi fullar bætur fyrir þann tekjumissi, sem hann kann að bíða vegna þessarar skiptingar á hreppnum. Út af þessum ummælum vil ég segja honum það, og það með fullri vissu, að Engihlíðarhreppur mun ekki telja sig fá fullar bætur fyrir tjón það, sem hann í þessu tilfelli mun verða fyrir, nema þær verði miðaðar við það, sem lagt er til í brtt. okkar, og hreppurinn er sannarlega nógum rangindum beittur, þó að hann aldrei nema fái þetta. — Þar sem ég átti aðeins eftir stutta aths., mun ég ekki hafa þessi orð mín fleiri.