09.12.1935
Efri deild: 90. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (2205)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Bernharð Stefánsson:

Ég nenni ekki að vera að karpa um þetta við hv. 2. þm. S.-M. Ég hefi ekki sannfærzt af hans seinustu ræðu, og í stað þess að svara honum, sem ég hefi líka tæpast rétt til samkv. þingsköpum, vildi ég gera fyrirspurn til hv. 2. þm. S.-M. og hv. 10. landsk., flm. till. á þskj. 703, þess efnis, hvernig eigi eftir niðurlagi till. að ákveða um fátækraframfærið, hvað af því hafi stafað af þeim hreppshluta, sem ætlazt er til, að verði sameinaður Blönduóshreppi. Hvort þeir hafi það í höfðinu alveg skýrt og tvímælalaust, eftir hvaða reglum það eigi að gera. Þar sem hv. 2. þm. S.-M. hefir eftir því sem hann upplýsti, verið 35 ár hreppsnefndarmaður og oddviti, má ætla, að það sé skýrt í hans höfði, þó að það hafi ekki komið fram í d., hvernig hann hugsar sér þetta. Vildi ég þá gjarnan spyrja hann líka, hvort hann hafi aldrei orðið var við það í þessari 35 ára reynslu, að það léku tvímæli á því um suma þurfalinga hvar þeir ættu sveitfesti. Ef hann hefir orðið var við þetta á þessum langa starfstíma við sveitarstjórnarmál, vildi ég spyrja bann að því, hvort hann gæti hugsað sér, að orkað gæti tvímælis um einhvern þurfamanninn þarna, hvort sveitfesti hans í Engihlíðarhreppi stafaði af dvöl hans í þeim hluta, sem á að vera Engihlíðarhreppur áfram, eða þessum nýja hluta.

Hv. 2. þm. S.-M. sagði, að það væri mitt og hv. 1. þm. N.-M. að laga þessa brtt., svo hún yrði frambærileg. Ég get ekki séð það. Ég vil láta fella brtt., og reyndar frv. allt, og sé því ekki ástæðu til að vera að bera fram brtt. Mér finnst, að það sé þeirra, sem till. hafa smíðað, að gera hana þannig úr garði, ef þeim er annt um, að hún verði samþ. eða tekin alvarlega, að hún verði frambærileg. Eins og till. er nú, eins og ég sýndi fram á og hv. þm. hafa ekki hrakið, leiddi samþykkt hennar eingöngu til þess, að allt þetta mál kæmist í sjálfheldu. Þegar búið væri að taka þennan hreppshluta af Engihlíðarhreppi og steypa honum saman við Blönduós, yrði áreiðanlega ágreiningur um niðurstöðu hreppsreikninganna — ekki hvað fátækraframfærið væri mikið í heild, heldur hvernig bæri að skipta því, eins og ég hefi áður getið. Um það er enginn til að úrskurða, því að það er ekki verk sýslunefndarinnar, þá að hún eigi að úrskurða hreppsreikningana í heild. — Nei, ég held að þessi hv. þm. ættu að fara heim og læra betur, m. ö. o.: Þeir ættu að laga þessa till. ef þeim er annt um, að sú hugsun, sem liggur til grundvallar fyrir henni, verði viðurkennd. Eins og till. liggur fyrir er hún ekki frambærileg, og þótt hv. 2. þm. S.-M. segi mér og öðrum hv. þm. að búa hana betur út, þá get ég ekki verið að því nú á elleftu stundu. Mér finnst það vera flm. að gera það.