19.11.1935
Efri deild: 73. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (2215)

167. mál, Kreppulánasjóður

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Ég sá ekki ástæðu til að gefa út sérstakt nál. um þetta mál, þótt ég sé því andvígur að mestu. En þó vil ég nokkuð ítreka það, sem ég sagði við 1. umr.

Hæstv. atvmrh. hafði hugsað sér sérstaka meðferð á því fé, er afgangs kynni að verða, er kreppulánasjóður hætti störfum, á þann hátt að verja honum til betri skipunar á fjárreiðum bæjarfélaga utan Rvíkur. Eftir lauslega áætlun lítur út fyrir, að með þeim hætti mætti fá föst lán í stað hengingarlánanna.

Það er auðsætt, að ekki verður hjá því komizt, að ríkissjóður hlaupi á einhvern hátt undir bagga með bæjarfélögunum, enda hefir hann þegar gert það á ýmsan hátt. En heildarlöggjöf er hinsvegar engin til um þetta efni, og slíka löggjöf er ekki hægt að setja fyrr en ýtarleg rannsókn hefir farið fram. En árangur slíkrar rannsóknar ætti að geta legið fyrir næsta þingi. Að mínu áliti yrði afganginum af kreppulánasjóði ekki betur varið á annan hátt en þann, að létta byrðar bæjarfélaganna.

Í þessu frv. er farið fram á 750 þús. kr. til þess að losa ábyrgðarmenn úr kreppunni af lánum bænda, sem hafa verið látin standa. Ég veit, að allharkalega hefir verið farið með þess menn, því að þeir hafa ekki getað borið hönd fyrir höfuð sér á skilafundum. En þótt þörf væri á að geta rétt hlut þessara manna, er þó meira um hitt vert, að geta lagað fjárhag kaupstaðanna.

Mér er ekki kunnugt um, hve mikið er eftir í sjóðnum. Að líkindum er það nálægt einni milljón króna, en vitanlega nægir sú upphæð ekki ein til þessa.

Ég veit, að hæstv. atvmrh. hefir mikinn hug á að rannsaka fjárhag og hjálparþörf kaupstaðanna eins og unnt er áður en þetta mál verður afgreitt.

Ég get ekki greitt atkv. með frv. eins og það er, en hefi þó ekki komið með brtt., en fari málið til 3. umr., er hægt að koma þeim að þá, enda ættu þá að geta legið fyrir upplýsingar um vandræði kaupstaðanna, þótt þær verði ef til vill eigi nákvæmar reikningslega.