19.11.1935
Efri deild: 73. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

167. mál, Kreppulánasjóður

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Hv. 4. landsk. tæpti á því við 1. umr., að hann væri andvígur frv., og sagði, að hæstv. atvmrh. hefði hugsað sér aðra skipun á þessum málum.

Ég mun hafa minnzt á það við 1. umr., en get bent hv. þm. á það aftur, að þegar kreppulánasjóður var stofnaður með því að gefa út ákveðna upphæð skuldabréfa, þá var sú upphæð ætluð til þess að greiða fyrir skuldauppgerð bænda. Það er því þannig, að þó 1/2 mill. kr. sé ráðstafað samkv. þessu frv., þá er það aðeins í beinu áframhaldi og fullu samræmi við það, sem þessi bréf voru ætluð til í fyrstu. Aftur á móti, ef farið vari að verja þeim til að gera upp skuldir bæjarfélaga, væri komið inn á nýtt atriði, sem ekki kom til orða, þegar verið var að setja kreppulánasjóð á laggirnar. Með því er ég þó ekki að segja það, að ekki gæti komið til mála að verja einhverjum afgangi af bréfunum í þessu skyni, þegar búið væri að fullnægja þeim þörfum, sem fyrir hendi væru að því er þann upprunalega tilgang snerti. En það, sem er aðalatriðið fyrir mér í þessu máli, er það, eins og ég tók skýrt fram við 1. umr., að ég álít þjóðfélaginu bera blátt áfram siðferðisleg skylda til þess að létta eitthvað undir með ábyrgðarmönnum lántakenda úr kreppulánasjóði, vegna þess, hvernig það gekk frá kreppulánasjóðslögunum. Í kreppulánasjóði hafa menn fengið, eins og kunnugt er, svokallaðar eftirgjafir skulda á allháum upphæðum, en þessar eftirgjafir eru á þann veg, að þeim er varpað yfir á ábyrgðarmennina, sem margir eru ekkert betur settir heldur en þeir, sem skulduðu. Þetta verður því bara til þess að aðrir bændur flosna upp, og ég sé ekki, hvað er unnið við það. En eins og ég vék að áðan, þá má búast við því, að þessar svo kölluðu eftirgjafir verði fjölda manna með öllu gagnslausar, því sem betur fer eru flestir bændur þeir drengir, að þeir verjast því í lengstu lög, að aðrir verði að taka á sig þungar byrðar þeirra vegna. Þar af leiðandi reyna þeir til hins ýtrasta að borga vexti og einhverjar afborganir af þessum skuldum, sem kallað er, að hafi verið þeim eftir gefnar, til þess að þar falli ekki á ábyrgðarmennina. Ég tel, að með þessum ráðstöfunum kreppulánasjóðslaganna hafi skapazt siðferðisleg skylda fyrir þjóðfélagið að inna af hendi gagnvart þessum mönnum, sem alls ekki er forsvaranlegt að ríkisvaldið skjóti sér undan. Það er allt annað mál, hvað ríkisvaldið sér sér fært að hlaupa undir bagga með mönnum, sem eiga erfitt af ástæðum, sem það á enga sök á, eða að það gerir eitthvað til þess að létta undir með þeim mönnum, sem verða hart úti vegna ráðstafana, sem ríkið sjálft hefir gert.

Hv. 4. landsk. játaði það nú, að það hefði verið farið harkalega með ábyrgðarmenn í þessu efni, en hitt væri þó meira um vert, sagði hann, að gera upp skuldir bæjarfélaganna. Það er nú eins og það er tekið, en ég álít hið gagnstæða. Mér finnst það beri enn meiri skylda til þess að sjá um, að þessir menn verði ekki féfléttir og verði gjaldþrota, auk þess, sem ég nefndi í upphafi, að frv. fer ekki fram á annað en að halda áfram að verja kreppulánasjóði og skuldabréfum hans í sama tilgangi og hann var upprunalega ætlaður til.

Hv. 4. landsk. talaði um, að hér væri um stóra fjárhæð að ræða, en ég ætla að benda hv. þm. á, að hún er ekki stærri en svo, að gert er ráð fyrir, að a. m. k. eins há upphæð komi á lánsstofnanir sem töp og önnur eins komi á ábyrgðarmenn. Það er ekki farið fram á annað en að leggja fram svipaða upphæð eins og ábyrgðarmennirnir verða að taka á sig, og mér finnst sannarlega, þegar litið er á þeirra viðhorf gagnvart ríkisvaldinu, að ríkið geti ekki tekið minni þátt í þessu en gert er ráð fyrir samkv. frv.

Hv. 4. landsk. óskaði þess, að frv. yrði ekki látið ganga út úr d. fyrr en það væri athugað nánar. Ég verð þvert á móti að óska þess eindregið, að frv. verði ekki einasta látið ganga út úr d., heldur gert að l. á þessu þingi, hvað sem líður þörfum bæjarfélaganna til þess að fá uppgerðar sinar skuldir. Þar verður að mínu áliti að finna aðra leið heldur en þá, að taka af kreppulánasjóði að svo miklu leyti, sem á honum þarf að halda í þeim tilgangi, sem hann upprunalega var stofnaður til. En það sem ekki þyrfti að nota í því skyni, mætti taka bæjarfélögunum til hjálpar.