19.11.1935
Efri deild: 73. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (2219)

167. mál, Kreppulánasjóður

Magnús Guðmundsson:

Ég vildi minna á það, sem ég held, að hafi ekki komið fram við umr. áður, að þegar löggjöfin um kreppulánasjóð var sett, þá var gengið út frá því, að það myndi þurfa nýja löggjöf vegna ábyrgða þeirra lána. Það var strax séð fyrir, að ábyrgðarmenn yrðu aðþrengdir vegna ábyrgðanna. En því var samt slegið frá að setja löggjöf um þetta, því að óseð var, hvað mikil brögð yrðu að því, að menn risu ekki undir ábyrgðunum, og var hugsað sem svo, að taka mætti þessi mál til meðferðar síðar, þegar séð væri, hvað mikil brögð yrðu að ábyrgðunum. Og nú hefir það komið í ljós, að þau urðu miklu meiri en menn hafði grunað áður, og er því meiri ástæða en áður að taka málið til meðferðar. Ég vildi aðallega benda á, að þetta er ekki nýtt mál, heldur var gengið út frá því strax í byrjun, að hér þyrfti viðbótarákvæði.

Þessi hugsun er ekki önnur en sú, sem liggur í l., er samþykkt voru á þinginu í fyrra. Það er bara haldið áfram á sömu braut til þess að koma málinu alveg í höfn. Það er því ekki rétt hjá hv. 4. landsk., að hér sé tekin upp ný stefna, heldur er það bara áframhald þeirrar stefnu, sem tekin var upp með frv. í byrjun.

Ég held hv. 4. landsk. hafi misskilið það, sem hv. 2. þm. Rang. sagði, þegar hann talaði um greiðslur ábyrgðarmannanna. Hann hélt, að þessi l. myndu ekki fyrirbyggja, að gera yrði lántakendurna upp aftur, því þeir hafi tekið að sér að nýju skuldbindingarnar. En þetta er misskilningur. Þessar skuldir eiga að falla alveg úr sögunni. Frv. fyrirbyggir þessa hættu. Kröfurnar falla niður og koma því ekki sem byrði á þá menn, er upphaflega tóku þátt í þeim. En það var aldrei meiningin, að ábyrgðarmennirnir kæmust alveg undan skuldbindingunum. En það er ríkt í bændum að standa við sinar skuldir og þeim þykir leitt, ef nágrannarnir verða að láta úti fé fyrir þá. Því leiðast margir lántakendur út í, til að fyrirbyggja þetta, að kljúfa þrítugan hamarinn til að borga þær skuldir, sem á ábyrgðarmennina fellu annars. Og ef kreppuhjálpin á að koma að haldi, þá verður að fyrirbyggja, að þetta geti átt sér stað.

Þau ummæli hv. 4. landsk., að það renni sterkar stoðir undir hjálp til bæjarfélaganna í þessu máli, fæ ég ekki skilið, að öðru leyti en því, að það er alltaf þörf að hjálpa hverjum, sem bágt á í þjóðfélaginu. En það er engin meining í því að taka frá þeim, sem upphaflegi tilgangurinn var að hjálpa með þessum logum, og láta til annara.

Hv. þm. hélt því fram, viðvíkjandi 3. gr. frv., að ákvæði laganna nái til þeirra krafna einna, sem hafa sætt afslætti í kreppulánasjóði, síðan hann tók til starfa og þangað til hann hætti að veita lánin, og geti ekki átt við yngri kröfur. Það má vel vera, að skilja megi greinina á aðra leið, en þegar litið er á 1. gr. frv., þá er ekki heldur hægt að skilja 3. gr. öðruvísi en svo.

Ég mun greiða atkv. með frv. Ég tel það ekki fela annað í sér en gengið var út frá í byrjun, að myndi þurfa að gera. Þegar kreppulánalöggjöfin var upphaflega til meðferðar, þá þótti mönnum rétt að bíða og sjá, hver brögð yrðu að vandkvæðum af ábyrgðunum. Nú er komið í ljós, að mikil brögð eru að þeim. Og hér er fundin leið til að komast heppilega að því marki, sem upphaflega átti að ná.