29.11.1935
Neðri deild: 86. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (2228)

167. mál, Kreppulánasjóður

Frsm. (Jón Pálmason):

Landbn. hefir athugað þetta frv., sem er komið frá hv. Ed., og mælir með, að það verði samþ. Einn nm., hv. þm. Hafnf., hefir þó óbundnar hendur um endanlega afgreiðslu frv.

Frv. þetta fer fram á, að tillag það, sem samþ. var á síðasta þingi til þess að styrkja þá menn, sem stæðu í ábyrgðum fyrir lántakendur úr kreppulánasjóði, verði hækkað úr 250 þús. kr. upp í 750 þús. kr., og sú upphæð, sem við bætist, greiðist í kreppulánasjóðsbréfum. Þetta styðst m. a. við það, að frá því í fyrra, er frv. var samþ., hefir komið í ljós, að ábyrgðirnar, sem hér er um að ræða, eru miklu hærri en þá var gert ráð fyrir. Þá var búizt við, að þær mundu ytra nálægt 1 millj. kr., og þær verða nokkuð á 3. millj., en er þó ekki fyllilega uppgert.

Nú er það svo, að fjöldi manna er í ábyrgðum fyrir aðila, sem tóku lán í kreppulánasjóði, og tapa stórfé, ef að þeim er gengið. Getur það orsakað, að þeir komist í greiðsluþrot, þó þeir vegna eigin skulda hafi ekki talið sér nauðsynlegt eða ekki haft skap til að taka lán í kreppulánasjóði. En eigi lántakendur sjálfir að standa straum af þeim skuldum, leiðir af því vanskil til kreppulánasjóðs. Það er því fullkomlega rík áherzla á það leggjandi, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, verði samþ. á þessu þingi. Þá eru líkur til, að bjarga megi þessum málum við með samningum við lánsstofnanir. Að vísu er ekki hægt að fullyrða um það, en hitt sjá allir, að það er stór munur að ná þeim samningum, ef þetta frv. verður samþ., eða með því fé, sem fyrir hendi var samkv. frv., sem afgr. var á síðasta þingi.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um málið, en aðeins skjóta því til hæstv. forseta, hvort ekki væri ástæða til að fresta atkvgr. um málið, þar sem hv. þm. Hafnf. er fjarstaddur.