09.12.1935
Neðri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (2236)

167. mál, Kreppulánasjóður

Emil Jónsson:

Mig langar til að fara nokkrum orðum um þetta frv., vegna þess, að ég gat ekki att fulla samleið með hv. samnm. mínum í landbn. um afgreiðslu þess. Tilgangurinn með kreppulánalöggjöfinni var sá, að létta skuldabyrðinni af bændum landsins eða þeim, sem landbúnað stunda, að meira eða minna leyti. Eftir lögunum átti þetta að vinnast á tvennan hátt. Fyrst með því að lækka rentufótinn, þ. e. a. s. konvertera lánum bænda til ódýrari lána og breyta háum vöxtum í lága, í öðru lagi að strika út eða lækka skuldakröfur á hendur bændum. Nokkuð af þessum útstrikuðu kröfum voru ábyrgðarkröfur. Það, sem hér er farið fram á í þessu frv., er, að þeim, sem í ábyrgðunum stöðu, sé gefinn kostur á að fá þessar kröfur greiddar að nokkru eða miklu leyti. Það má náttúrlega ræða þetta mál frá ýmsum hliðum, en svo virðist, að með því að samþ. það, sé nokkrum kröfuhöfum gert hærra undir höfði en öðrum. Frv. gerir ekki ráð fyrir því, að þeim sé gefið neitt eftir, sem orðið hafa fyrir mestum skaða, svo sem verzlunarfyrirtæki, sem hafa átt stórfé hjá bændum, heldur er hér tekinn út úr hópur manna, ábyrgðarmennirnir, og þeim gefinn kostur á að fá bætt sín skakkaföll að verulegu leyti.

Frá því fyrsta að farið var að tala um kreppulánin hefir því verið haldið fram, að þau ættu að vera lán til bænda, en hér er komið inn á nýja leið, að gefa þessum mönnum 3/4 millj. kr. Er það höfuðmunurinn, að hér er talað um að gefa stórupphæðir úr ríkissjóði í stað þess að áður var lánað. Og upphæðin, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, að gefin verði, er 200 þús. kr. í peningum og 500 þús. kr. í kreppubréfum. Það má vera, að allsterkar líkur séu fyrir því, að nokkuð af kreppulánunum lendi fyrr eða síðar á ríkissjóðnum, enda er með þessu frv. beinlínis viðurkennt, að svo eigi að vera. Við Alþýðuflokksmenn munum því ekki fylgja þessu frv. Hefði hér verið um lán að ræða á sama hátt og kreppulán, þá var það öðru máli að gegna, en svo er ekki, eins og ég hefi þegar tekið fram. Þess vegna munum við Alþýðuflokksmenn greiða atkv. gegn frv., því við viljum ekki, að þessi háttur verði upp tekinn. Ég tel óþarft að hafa um þetta fleiri orð nema ný tilefni gefist.