09.12.1935
Neðri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (2238)

167. mál, Kreppulánasjóður

Emil Jónsson:

Hv. þm. A.- Húnv. taldi einn alvarlegasta galla kreppulánasjóðslaganna afhögginn með samþykkt þessa frv. Ég skal ekki um það deila, hvort alvarlegir gallar eru á kreppulánasjóðslögunum eða ekki, eða hvort þeir eru þá af skornir með þessu frv., en mér finnst koma fram nokkur óréttur gagnvart þeim mönnum, sem átt hafa hjá bændum og orðið hafa að gefa eftir af því, miðað við þá menn, sem í ábyrgðum hafa staðið og nú eiga ekki að tapa nema 1/3 af þeim upphæðum, sem gefið hefir verið eftir af ábyrgðarkröfunum, auk þess sem enginn greinarmunur er á því gerður, hvort ábyrgðarmennirnir eru bændur eða ekki bændur. Annars voru kreppulögin sett til þess að hjálpa bændum eða þeim, sem stunda landbúnað sem aðalatvinnu. En hvað ábyrgðarmennina snertir, er það ekkert atriði nú, hvort þeir væru í kaupstað eða í sveit, hvort það eru efnalitlir menn eða ríkir. Ég gæti fallizt á það sem neyðarráðstöfun, að fátækum mönnum væri gefið eftir, sem annars mundu komast á vonarvöl. En að gefa úr ríkissjóðnum 3/4 millj. kr. án þess að tillit sé tekið til efnahags manna, það get ég ekki fallizt á. Hv. þm. sagði, að ábyrgðarkröfurnar væru að upphæð 2—21/2 millj. kr. Mun það láta nærri, enda hefi ég fengið þá tölu annarsstaðar að. Ef skipta á jafnt í þriðjunga ábyrgðarkröfunum, þá á ríkissjóðstillagið fyrst að koma upp í einn þriðjunginn, einn þriðjunginn greiði ábyrgðarmenn og hinn síðasti verði gefinn eftir af lánsstofnunum. Það má náttúrlega lengi um það deila, hvort annmarkar eru á þessum l. eða öðrum, en ef þeir eru á kreppulögunum, þá býst ég við, að þeir haldi áfram að vera til eftir sem áður, þrátt fyrir það þó þetta frv. verði samþ., en út í það skal ég ekki fara. En það veit hv. þm. A.-Húnv., að til landbn. hafa komið sendinefndir bænda utan af landi, til þess að tjá n., að þeir geti ekki eða umbjóðendur þeirra greitt vexti og afborganir til kreppulánasjóðs. Þetta liggur fyrir sem óleyst mál. En verði farið að gefa eftir af ábyrgðarkröfunum, þá er það öldungis víst, að þessir menn telja sig ekki síður geta búizt við að fá hjálp eða eftirgjafir. Og ég er í engum vafa um það, að 3/4 millj. kr. úr ríkissjóði í ábyrgðarkröfurnar beinlínis ýta á hina að reyna að fá hjálp og standa ekki í skilum við kreppulánasjóð. Frv. eykur því þessa hættu til stórmikilla muna. Ég veit ekki, hvort hv. flm. frv. og hv. þm. A.- Húnv. eru hér vitandi vits að gefa undir fótinn í þessu efni um það, að ríkið taki að sér skuldbindingar manna við kreppulánasjóð að meira eða minna leyti. En ég get fullvissað þá um, að ef Alþingi réttir fram litlafingurinn, þá verður það að gera meira. Ástandið er erfitt nú, og sendinefndir eru þegar komnar og geta komið fleiri. Það er því ábyggilegt, að hættan er þegar til staðar, og ég vil ekki láta hjá líða að benda á hana.

Aftur á móti gæti ég verið með því, að ábyrgðarmönnum yrði veitt kreppulán, þ. e. a. s. þeim, sem landbúnað stunda, því höfuðrök gegn þessu frv. eru þau, að hér á að gefa ábyrgðarmönnunum eftir, hvort sem það eru bændur eða ekki.

Ef ég er ábyrgðarmaður fyrir einhvern, sem tekið hefir lán í kreppulánasjóði, og bý í Hafnarfirði, þá á ég jafnmikinn rétt til að fá þessa hjálp eins og hver annar ábyrgðarmaður. Það er sem sé ekkert bundið við það að hjálpa mönnum, sem stunda landbúnað, en það var þó það atriðið, sem lögð var ríkust áherzla á í frv. í upphafi. Ég teldi því rétt fyrir allra hluta sakir, að þetta verði athugað betur áður en það er lögfest.