09.12.1935
Neðri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (2243)

167. mál, Kreppulánasjóður

Frsm. (Jón Pálmason):

Ég skal ekki fara mikið út fyrir grundvöll þessa máls, en það eru þó nokkur atriði, sem ég má til að víkja að. Það er þá fyrst, að ég vil mótmæla því, sem fram kom hjá hv. 2. þm. N.-M. og hv. þm. Borgf., að það væri meiningin að gera allavega upp á milli manna eftir efnahag hvað styrkinn snertir. Um það er ekkert í frumv., og á ekki að vera. Þessi styrkur á ekki að fara eftir reglum fátækralaganna eða neinu slíku, heldur er hann til þess ætlaður að leiðrétta að nokkru það ranglæti, sem ábyrgðarmennirnir hafa orðið fyrir að tilhlutun löggjafanna, alveg án tillits til þess, hvort þeir sjálfir eru fátækir eða ekki. Styrkurinn á sem sé að ganga jafnt yfir hjá öllum ábyrgðarmönnum. Því lýsi ég hiklaust yfir fyrir nefndarinnar hönd. Annað væri líka mjög örðugt í framkvæmd og gæti freistað til margvíslegrar hlutdrægni. Þetta skildi hv. þm. Hafnf. líka eins og það er.

Viðvíkjandi því, sem hv. síðasti ræðumaður var að tala um, að breyt. hefir orðið á í þessu efni frá því kreppulánal. voru sett og til þessa tíma, þá er það rétt, að í kreppulánalöggjöfinni er gert ráð fyrir, að þessi hjálp nái aðeins til bænda, en hér í þessu frv. er ekki gerð skilgreining á því. Mér þykir nú undarlegt, ef hv. þm. telur það galla, að t. d. verkamenn í kaupstöðum eða aðrir þar, sem staðið hafa í ábyrgðum fyrir bændur, eiga að fá nokkurn styrk til að standast skellina, sem Alþingi með kreppulögunum hefir yfir þá leitt.

Viðvíkjandi því, sem hv. ræðumaður talaði um, að það væri ákaflega óeðlilegt að gera upp á milli þeirra manna, sem annarsvegar lánuðu fé, og hinsvegar þeirra, sem gengju í ábyrgð fyrir menn, þá vil ég segja það, að mér finnst það afareðlilegur hugsunarháttur, að þeir menn, sem gerðir hafa verið upp, leggi meira kapp á að borga ábyrgðarskuldir en hinar. þetta er hugsunargangur, sem hlýtur að eiga sér stað hjá þeim mönnum, sem hér um ræðir, því að það er talsverður eðlismunur á því, hvort maður hefir fengið skell af því, að hann hefir treyst hlutaðeigandi manni og gengið í ábyrgð fyrir hann, ellegar hitt, að einhver verzlun hefir lánað honum svo og svo mikið af vörum og hann er kominn í mikla skuld, t. d. við kaupfélag eða kaupmann. Það getur að vísu verið, að maðurinn hafi fengið lán hjá einstökum manni, og gegnir þá sama máli um það, en þess eru tiltölulega mjög fá dæmi, að þær skuldir séu tryggingarlausar.

Um það, sem hv. síðasti ræðumaður var að tala um, að hann hefði aldrei heyrt, að það væri svo há upphæð, sem ætti að láta úr ríkissjóði í þessu skyni, skal ég taka fram, ef menn ekki vita það, að eftir að þessi stofnun, kreppulánasjóður, hefir verið gerð upp, þá hefir komið í ljós, að hún hefir lánað lægri upphæð en búizt var við í upphafi, einmitt af því, að færri bændur hafa notað þetta heldur en búizt hafði verið við.

Að lokum vil ég mælast til þess, að þetta frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.