03.12.1935
Sameinað þing: 24. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

1. mál, fjárlög 1936

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) óyfirl.:

Í þeim umr., sem þegar hafa farið fram, hefir fremur lítið verið sveigt að mér eða því ráðuneyti, sem ég veiti forstöðu. Ég býst því ekki við að þurfa að nota minn tíma að fullu til þess að svara því, sem að mér hefir verið beint.

Mun ég nota tímann til þess að upplýsa hlustendur utan veggja um ástand og horfur atvinnulífsins yfirleitt. Er það nauðsynlegt, svo að menn geti lagt réttan dóm á störf þeirra, sem vinna að stjórn landsins og lagasetningu.

Ég mun ekki svara þeim stóryrðum og fúkyrðum, sem hv. þm. G.-K. lét falla í garð hv. 2. landsk. Þau sýna aðeins, að geðsmunir mannsins eru ekki í svo góðu lagi sem æskilegt væri. En ég get skilið, að það hafi valdið hv. þm. vonbrigðum, að hv. 2. lansdk. skuli hjá stj.flokkunum lið til þess að koma fram góðum málum. Ég hefði talið sanngjarnt, að hæstv. forseti leyfði þessum hv. þm. að bera af sér sakir.

því er ekki að leyna, að fjárlagafrv. og þær brtt., sem við það hafa verið gerðar, bera svip af því erfiða ástandi, sem við eigum við að búa. Sama er að segja um aðra löggjöf, sem liggur fyrir og stendur í sambandi við fjárl. og afgreiðslu þeirra.

Menn munu sjálfsagt spyrja, við hvaða erfiðleika sé sérstaklega að eiga, ekki sízt þeir, sem hafa fest í minni orð hv. þm. G.-K., sem fullyrti, að ekki hefði verið um neina nýja söluerfiðleika að ræða í ár. Það væri því ekki ástæða af ræðu hans að kenna utanaðkomandi áhrifum um fjárhagsörðugleikana. Í stuttu máli eru erfiðleikarnir því að kenna, fyrst og fremst — ef ekki eingöngu —, að við erum bundnir við ákveðið sölumagn afurðanna og þá einkum á fiskinum.

Því er ekki að neita, að á þessu ári hefir komið í ljós sú óheillastefna, sem viðskiptaþjóðir okkar hafa tekið upp, smá getur orðið okkur hættuleg.

Ég skal nú reyna í stuttum dráttum að gefa yfirlit yfir, hvernig viðskiptin við útlönd standa og hvers við megum vænta í framtíðinni.

Það er tvennt, sem óhjákvæmilegt er fyrir hverja ríkisstj. að vinna að. Annað er að ná jöfnuði á viðskiptin við aðrar þjóðir, og hitt er að skila fjárhag þjóðarinnar í sæmilegu lagi.

Síðustu ár hefir hallazt mjög á Íslendinga, og síðasta ár vantaði 11 millj. til þess að við greiddum að fullu viðskipti okkar við aðrar þjóðir. Þetta vantar til þess, að afurðirnar hrökkvi fyrir því, sem við þurfum til nauðsynlegrar greiðslu. Það liggur því í augum uppi, að ekki er hægt að halda þannig áfram, að safna skuldum til óarðbærra fyrirtækja eða til eyðslu. Lán er því ekki hægt að taka nema til arðvænlegra fyrirtækja, sem annaðhvort skila fénu aftur til útlendra lánardrottna í auknum gjaldeyri, eða beinlínis spara innkaup.

Á þessu ári hefir nokkuð færzt í rétt horf, en ekki nóg. Í lok októbermánaðar lét nærri, að inn- og útflutningur stæðist á. Af þeim innflutningi var um 700 þús. kr. til Sogsins, sem voru fengnar með sérstakri lántöku erlendis, enda á það fyrirtæki að skapa aukna atvinnumöguleika og spara gjaldeyri.

Síðan hefir hlutfallið lítið breytzt. Má gera ráð fyrir, að innfl. sé orðinn um 40 millj. Sennilega hefir ekki versnað, því jafnaðarlega er nóv. heldur skárri mánuður.

En þó maður leyfði sér þá bjartsýni að gera ráð fyrir, að útflutningur hrykki fyrir innflutningi, vantar þó um 7 millj. til þess að greiðslujöfnuður náist. Þetta þýðir, að með óbreyttum útflutningi er sýnilegt, að skera verður niður innflutninginn. En af því leiðir óhjákvæmilega, að innflutningsgjöld hækka að sama skapi.

Þá skal ég fara nokkrum orðum um sölu íslenzku afurðanna. Það sýnir sig, að verðlag hefir fremur hækkað og sala gengið greiðlega með þær allar, nema fiskinn. En fiskurinn, og þá aðallega saltfiskurinn, hefir verið og er okkar meginútflutningsvara, og sem fært hefir okkur langmestan gjaldeyri, og má því segja að afkoma okkar sé undir sölu á honum komin. En þar hafa erfiðleikarnir steðjað að. Stafar það að miklu leyti af því, að önnur lönd standa betur að vígi um að bjóða jafnvirðiskaup í vörum. Þau geta boðið fiskinn til sölu á Ítalíu, Spáni og Portúgal gegn því að kaupa vörur fyrir hvern eyri af andvirði fiskjarins. Það liggur því í augum uppi, að það er ómögulegt að halda óskertum innflutningi til þessara landa. Því við getum ekki með nokkru móti keypt svipað því, er nemur andvirði fyrir fiskinn, jafnvel þó beint sé kaupum til þessara landa meira en gott þykir. Þó búið sé að kaupa frá þessum löndum fyrir á 5. millj. á þessu ári, til þess að tryggja sölumöguleika á fiskinum, þá er það ekki nema lítill hluti af fiskverðinu.

Til þess að sýna, hverju fiskútflutningurinn hefir numið á undanförnum árum, skal ég t. d. nefna Spán. Þangað var selt:

1933 ....................... 33 þús. tn.

1934 ........................ 21 — —

1935 ........................ 14 — —

fram að þessum tíma. Er það 20 þús. tn. minna en 1933 og 7 þús. tn. minna en í fyrra.

Það er því nokkuð stórt mælt, að ekki hafi verið neinir nýir erfiðleikar á um sölu, þar sem þetta er stærsta landið, sem kaupir af okkur fisk. Þetta eru því meiri vonbrigði, að við gerðum okkur von um svipaða sölu þar og í fyrra, en það ætlar því miður ekki að rætast.

Á Ítalíu var salan:

1933 ........................ 16 þús. tn.

1934 ........................ 20 — —

1935 ........................ 10 — —

ekki fullkomlega þó, eftir þeirri skýrslu, sem fyrir liggur.

Til Portúgal hefir salan heldur aukizt, og er útlit fyrir, að hún komist upp í 20 þús. tn. í ár. Hefir þá orðið aukning, er nemur 1—2 þús. tn. frá í fyrra. En því miður eru það staðreyndir, að við höfum mætt á þessu ári meiri örðugleikum, einkum í viðskiptum við Spán, en menn gerðu sér í hugarlund. En því er ekki heldur að neita, að það hafa opnazt ýmsir nýir möguleikar um greiðari sölu en áður, sem vega þar dálítið upp á móti.

Landbúnaðarafurðir hafa yfirleitt hækkað í verði, eins og ég hefi áður minnzt á.

Þá vil ég ennfremur benda á nýbreytni í verkun á harðfiski, sem búið er að selja fyrir á 2. hundrað þús. kr.

Af þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið, virðist auðveldara að selja harðfiskinn en saltfiskinn, og verðið ekki verra. Hefir hann verið seldur til 12 landa, og ættu að vera vaxandi möguleikar fyrir sölu á honum á næsta ári. Einnig hefir á þessu ári verið sent til Suður-Ameríku gagngert til þess að selja freðfisk. Er þegar búið að selja þangað 20 þús. kassa. Alls mun vera selt í Argentínu og Brasilíu um 12 þús. tn. Þá hefir einnig verið leitað markaða á Kúbu og í Bandaríkjunum, en ekki er hægt ennþá er að segja um, hvað af því sprettur. Þá hefir sala á fiski aukizt nokkuð í Englandi og Danmörku. Þessa hefir mér þótt rétt að geta, svo menn viti, hvernig ástandið er.

En hvað fram undan er, er spurning, sem ekki verður svarað nú. Þó verður ekki annað sagt en horfurnar í þeim löndum, sem við skiptum við, séu ólæsilegar. Við getum ekki keypt fyrir nema lítinn hluta af fiskinum þar, sem við þurfum að selja hann, en jafnvirðisviðskipti er krafa þjóðanna.

Í öðru lagi er yfirleitt stefnt að því, að þjóðirnar búi sem mest að sínu, og stutt að því með ýmsum ráðum sem síst eru veigaminni, m. a. styrkja þær úthald fiskiskipa með tollfrelsi m. fl. til þess að auka fiskframleiðsluna og þurfa sem minnst að kaupa af öðrum. Yfirleitt er stefnan þessi: að gera kröfu til jafnvirðisviðskipta og styðja aukna fiskframleiðslu í löndunum sjálfum. Þetta er sú hætta, sem að okkur steðjar. Verður því að telja það hreinasta gáleysi að loka augunum fyrir því. Að svo sæmilega hefir úr rætzt sem raun hefir á orðið, er því að þakka, að sala á fiski hefir aukizt til Portúgal, og allmikið vestur um haf, og sala annara afurða gengið greiðlega.

Þau löndin, sem mest munar um, Portúgal og Ameríka, hafa keypt fyrir um 10 millj. kr. meira en við höfum keypt af þeim.

Þá hafa einnig færzt í nokkuð réttara horf viðskiptin við Bretland og Danmörku. Nú kaupa þeir af okkur fyrir nálega helming af því, sem við kaupum af þeim. Þó kaupum við enn af þeim fyrir um 81/2 millj. kr. meira en þeir af okkur. Þó hefir af knýjandi nauðsyn orðið að beina viðskiptunum til Suðurlanda og Þýzkalands, jafnvel meira en hagfellt hefir verið. Er búið að kaupa þaðan vörur fyrir 5,2 millj. kr., að verulegu leyti fyrir aðgerðir ríkisstj. og gjaldeyrisnefndar.

Hefir ríkisstj. þannig tekizt að skapa sölumöguleika í Þýzkalandi fyrir mikið af íslenzkum afurðum, sem væru torseljanlegar eða óseljanlegar annarsstaðar.

Að öllu þessu athuguðu hefir ríkisstj. orðið nokkurnveginn sammála um, að ekki sé varlegt að gera ráð fyrir meiri innflutningi á næsta ári en 38 millj. Það er varla ráð fyrir gerandi, að útflutningurinn hrökkvi meira en til þess að borga það auk annara greiðslna. En af þessu leiðir óhjákvæmilega, að tekjustofnar ríkissjóðs dragast saman og tekjurnar minnka.

Annað atriði, sem ríkisstj. þarf að hafa hugfast. er að reyna að jafna svo fjárlögin, að tekjur og gjöld standist á. Þó skildist mér á hv. þm. G.-K., að hann teldi slíkt skaðræðisstefnu, en það mun hafa verið ofmælt og í flýti, því engin rök fylgja.

Er það vitanlega ófær leið að safna skuldum á hverju ári, nema eins og ég sagði áðan til fyrirtækja, sem standa undir lánunum sjálf, spara gjaldeyri eða skapa atvinnu í landinu.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að taka fram. að stj.flokkarnir bera og eiga að bera ábyrgð á afgreiðslu fjárl. Þar sem þeir hafa meirihlutaráð á þingi, eiga þeir að sjálfsögðu að standa eða falla á sínum verkum. Án þess því að bera andstæðingana sökum, verð ég að segja, að ég teldi það barnalegt oftraust að búast við, að þeir styðji flokk, sem þeir vantreysta og vilja fella. Það er að ætlast til meiri hollustu af stj.andstæðingum en mér þykir ástæða til.

Einnig verður að gera stj.flokkana og ríkisstj. ábyrga fyrir þeim lagasetningum, sem ganga fram undir þeirra stjórn.

Ég sagði áðan, að þau frv., sem nú liggja fyrir þinginu, bæru á sér svip þeirra erfiðleika, sem við eigum nú við að búa.

Hver er þá þungamiðja þess, sem um er deilt, í sambandi við fjárlögin? Það viðurkenna allir, að tímarnir eru erfiðir. Sjálfstæðismenn í fjvn. viðurkenna þetta hispurslaust, en þeir telja leiðina út úr erfiðleikunum að spara, létta af sköttum og skera niður útgjöld. En af skiljanlegum ástæðum þykir það ekki heppilegt orðaval fyrir eldhúshlustendur. Hitt lætur betur í eyrum fólksins og þykja góðar borgaralegur dyggðir, að spara og minnka útgjöldin. En þegar komið er að því að skera niður, þykir þeim sömu hv. þm. ógerlegt að tæpa á, hvar það eigi að vera. Þá er farið að tefla vinsældum hlustendanna í meiri tvísýnu en ráðlegt þykir.

Hv. þm. G.-K. lét þau orð falla, að stj. skorti manndóm til þess að skera niður og taka á sig þær óvinsældir, sem því fylgja. En flokkur hv. þm. hefir átakanlega sýnt, að hann skortir manndóm til þess að skera niður þar, sem helzt skyldi. Þeir vilja ekki segja neitt um þetta nú. Þeir vilja spara, en fráleitt neitt, sem er nauðsynlegt og gott að spara; þess vegna draga þeir í lengstu lög að segja, hvað þeir vilja spara. En það er ekkert leyndarmál, hvað þeir vilja spara. Þeir vilja spara framkvæmdir. Þeir vilja spara ólögbundin gjöld. Þeir vilja spara framlög til atvinnubóta, framlög til verkamannabústaða, uppbætur til verkamanna, framlög til verklegra framkvæmda, framlög til samvinnubyggða og framlög til alþýðutrygginga.

Þungamiðjan í deilunni er eins og ég sagði áðan: Hvernig á að mæta kreppunni, hvernig á að yfirstíga örðugleikana? Á að mæta örðugleikunum eins og sjálfstæðismenn vilja, með því að skera niður verklegar framkvæmdir? Á að bæta atvinnuleysið í landinu með því að draga úr atvinnu? Á að bæta úr vandræðum fólksins, sem er efnalaust og sjúkt, með því að skera niður alla styrki, sem veittir voru til þess að létta undir með því? Á að bjarga landinu út úr vandræðunum með því að spara fjárframlög til skuldaskilasjóðs, svo að vélbátaeigendur fái ekki uppgerð á skuldum sínum? Hv. sjálfstæðismenn telja þetta líklegustu leiðina til bjargar. Ég tel ekki rétt að orða það eins og hv. sjálfstæðismenn orða það, að vegna kreppunnar þurfi að draga úr framkvæmdum. Ég vil orða það þannig, að einmitt vegna kreppunnar sé alveg óhjákvæmilegt og brýn nauðsyn að auka til hina ítrasta framlög til slíkra hluta. Einmitt vegna kreppunnar, vegna fjárhagsörðugleikanna, vegna óvissunnar um sölu afurðanna. vegna atvinnuleysisins, og vegna vandræðanna, sem landsmenn hafa við að búa, er það óhjákvæmileg skylda að nota til ýtrasta þær leiðir, sem ríkisvaldið hefir yfir að ráða til þess að auka atvinnu í landinu, hjálpa þeim, sem eru fjárhagslega aðþrengdir, sjúkum og lasburða, tryggja þessu fólki sæmilega afkomu þrátt fyrir örðugleikana. Hvenær ber þjóðfélaginu skylda til að létta hlut þeirra, sem lakast eru settir, ef ekki þegar mest mæðir á? Þetta er þungamiðjan í deilunni: Á að mæta örðugleikunum með því að draga úr styrkjum, sem hið opinbera veitir, og þar með að auka erfiðleikana, eða á að bæta úr örðugleikunum með því að létta lífskjör þeirra, sem lakast eru settir í lífsbaráttunni? Um þetta greinir flokkana í raun og veru á. Um þetta eru átökin.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að víkja að ummælum hv. þm. G.-K. um það, að ríkisstj. og hennar flokkar hafi herfilega svikið sín loforð síðan hún tók við völdum. Hv. þm. sagði, að þeir hefðu lofað að útrýma atvinnuleysinu í landinu, en nú sýndu óyggjandi skýrslur, að atvinnuleysið hefði aukizt. Þetta sagði hv. þm., að væru hrein og bein svik, svo þeir væru svikarar á sín loforð. Þetta útmálaði hv. þm. með óvægum orðum.

Út af þessu vildi ég segja það, að það er uppspuni einn, að stj. hafi lofað að útrýma atvinnuleysinu í landinu. En hinu lofuðu þeir flokkar, sem að henni standa, að haga sínum aðgerðum í stjórnarframkvæmdum og lagasetningum með það markmið fyrir augum að útrýma atvinnuleysinu. Ég vil fullyrða, að það hefir mikið verið unnið að þessu af núv. stj., og einmitt fjárlögin og sú lagasetning, sem er í sambandi við þau, bera þess vott, að stj. gerir það, sem í hennar valdi stendur, til þess að efna þetta loforð. Hv. þm. sagði. að atvinnuleysið hefði aukizt í landinu, sumpart fyrir aðgerðir ríkisstj., en ekki nema sumpart þó, og það vegna þess, að atvinnurekendunum hefði verið íþyngt svo mikið, að þeir væru ekki þess megnugir að halda uppi atvinnurekstri. Ég vil nú segja, að það sé ofmælt, að atvinnuleysið hafi aukizt í landinu, þó að því fari fjarri, að það hafi áunnizt svo mikið til útrýmingar atvinnuleysinu eins og ég hefði óskað. Það er að vísu rétt, að á sumum tímum ársins, en ekki nema sumum, hafa tölurnar sýnt nokkru meiri fjölda atvinnuleysingja, en það stafar að nokkru leyti af því, að nú fást gleggri skýrslur en áður og sumpart vegna þess, að betra skipulag er á þessum málum vegna vinnumiðlunarskrifstofunnar og annara opinberra aðgerða. Sumpart er það vegna aukinnar atvinnubótavinnu. Láta menn því heldur skrá sig heldur en þegar það þoldi ekki neitt að láta skrá sig, af því að svo lítið fé var veitt til atvinnubóta. Ég skal einnig geta þess, að fyrir utan hækkunina til verklegra framkvæmda og atvinnubóta, sem á síðasta þingi nam um 750 þús. kr. umfram það, sem var á næsta ári á undan, hafa margvíslegar till. verið gerðar til þess að auka atvinnuna. Má t. d. nefna síldarbræðslustöð, karfaveiðar og ufsaherðingu, sem allt er gert að tilhlutun ríkisstj. og stofnana, sem hún hefir ítök í. Það er enginn vafi á því, að þetta hefir aukið að verulegu leyti, frá því sem ella hefði orðið, atvinnu í landinu, og þar með virðist einnig opnir möguleikar til frambúðaratvinnu. Ég vil bæta því við, að fyrir ábyrgð ríkissjóðs og tilstilli var Sogslánið fengið og byrjað á kirkjunni, sem veitt hefir hundruðum manna atvinnu mikinn hluta sumars, og veitir ennþá.

Ég veit, að þegar hv. þm. G.-K. var ráðh., þó skamma stund væri, sýndi hann glöggt og greinilega, hvernig hann taldi, að ætti að bæta úr atvinnuleysinu, hvernig ætti að mæta vandræðum þeirra sem byggju við atvinnuleysi og skort. Það var í fyrsta lagi á þann hátt að lækka um 1/3 kaupgjald þeirra, sem unnu í atvinnubótavinnunni. Að vísu var það ekki með ráðherra úrskurði þessa hv. þm., heldur með samþ. meiri hl. bæjarstj. í Reykjavík, sem fylgir sama flokki og þessi hv. þm. Það átti ennfremur að bæta atvinnuleysið með því að gera mjög svo myndarlega tilraun til þess að stofna ríkislögreglu, búna vopnum og öðrum nauðsynlegum tækjum, til þess að halda í skefjum þeim mönnum, sem báðu um atvinnubótavinnu, en fengu ekki. Til þessarar atvinnubótavinnu taldi þessi hv. þm. rétt að verja 400 þús. kr.

Fyrsta verk núv. ríkisstj. var að létta af þessari atvinnubótavinnu og verja þessu fé, sem eytt var í ríkislögregluna, til þess að auka atvinnuna í landinu. Þetta hefir borið þann árangur, góðu heilli, að síðan hefir enginn maður ymprað á því, að þörf væri að stofna ríkislögreglu á ný.

Þetta sýnir mjög glöggt, á hvern veg flokkar hyggjast að mæta atvinnuleysinu. Ég sé engin skynsamleg ráð gegn því önnur en þau, að leggja fram til hins ýtrasta, eftir því sem geta þjóðarinnar leyfir, fé til þess að styrkja atvinnuvegina, styrkja nýjar atvinnugreinar, efla skuldaskilasjóð, hjálpa bændum, styrkja nýbýlastofnun, styrkja samvinnubyggðir, sem nú eru ætlaðar til 200 þús. kr., og auk þess að grípa til atvinnubótavinnu til þess að bæta úr brýnustu nauðsyn þeirra manna, sem ekki komast að þessum fyrirtækjum.

Sjálfstæðismenn líta rammskakkt á þetta. Þeir segja, að nú eigi einmitt að spara, ráðið sé að stofna ríkislögreglu með nauðsynlegum bareflum og áhöldum til þess að halda fólkinu í skefjum.

Þetta er það, sem um er deilt. Hvernig á að mæta örðugleikunum? Á að mæta þeim með allri orku, einbeittri að því að bæta kjör fólksins, eða á að mæta þeim með bareflum? Á að mæta þeim með því að sitja í trássi við vilja fólksins eða með því að bæta kjör þess? Það er hér, sem skilur.

Ég vildi spyrja hv. þm. og aðra áheyrendur. Dettur þeim í hug, ef sjálfstæðismenn hefðu farið með völdin, að. þá hefði frekar verið unnið gegn atvinnuleysinu en nú? Mér dettur ekki í hug að halda það. Þeir hefðu fellt niður allar opinberar framkvæmdir, lækkað ríkisstyrkinn, en hækkað framlag til ríkislögreglu.

Hv. þm. vek að því áðan, að aðbúnaðurinn við aðra en verkamenn, og þá sérstaklega atvinnurekendurna við sjóinn, væri þannig, að enginn maður þyrði að hætta fé sinn í nokkurt nýtt fyrirtæki. Þetta er gaspur eitt í sambandi við frv. Það, er hér liggur fyrir þinginu um tekjuöflun til ríkissjóðs. Sú skattahækkun, sem gert er ráð fyrir, að verði, snertir á engan hátt útgerðina. Eins og kunnugt er, hafa útgerðarfélög yfirleitt ekki borgað tekjuskatt á síðari árum, og eru engar líkur til — því miður — að það breytist svo á næstu árum, að um verulegan skatt verði að ræða. Af því leiðir, að þessi tekjuskattsauki lendir alls ekki á þessum atvinnuvegi, að undanteknum fáeinum forstjórum og kannske nokkrum skipstjórum, sem eru vel launaðir. Sama er að segja um aðflutningsgjaldið, að það er ekki á neinum framleiðsluvörum til lands og sjávar eða brýnustu lífsnauðsynjum. Auk þess er það ofmælt hjá þessum hv. þm., að enginn þori að ráðast í að stofna ný fyrirtæki, hvort sem það er af ótta við ríkisstj. eða af öðrum ástæðum. Ég veit að vísu, að það er fullyrt hér í bænum, og ég hygg að það sé rétt, að félag það, sem hv. þm. veitir forstöðu. hafi sagt upp sínum föstu starfsmönnum og hendir það óneitanlega til þess, að þeim lítist þunglega á, og skal ég út af fyrir sig ekki ámæla neinum fyrir það. En sem betur fer, eru ekki allir sama sinnis í því efni og hv. þm. og hans félag. Mér er kunnugt um, að einmitt í dag er verið að veita innflutningsleyfi fyrir einum nýjum togara hingað til landsins, stærsta togaranum, sem hingað hefir verið keyptur, um 700 smálestir. Í honum eru nýtísku tæki til að vinna mjöl úr úrgangsfiski og ennfremur til þess að vinna úr lifrinni. Mér er kunnugt, að það eru engir óráðsangurgapar eða flón, sem standa að þessum kaupum, heldur eru það einhverjir duglegustu mennirnir, sem við þessar veiðar hafa fengizt. Mér er sönn ánægja að segja frá þessu í sambandi við yfirlýsingu hv. þm., því að ég veit, að hún hefir ekki við rök að styðjast. Það er að vísu óglæsilegt framundan með sölu á fiski, en það er ekki af þeim rökum ástæða til að leggja hendur í skaut og fljóta sofandi að feigðarósi. Við verðum að berjast til þrautar og gefast ekki upp. Þetta dæmi sýnir, að ekki svo fáir menn hafa hug á að berjast til þrautar, og ekki vonlaust um sæmilegan árangur.

Í þeim samningum, sem gerðir voru, þegar núv. stj. tók við völdum, milli þeirra flokka, sem að henni standa, var samið um lausn ákveðinna mála á ákveðnum grundvelli. Það er tvímælalaust rétt, að þessi stjórn, eins og hver önnur, verður að sjálfsögðu dæmd eftir gerðum sínum — verður að standa með þeim eða falla. Hún verður dæmd eftir því, hvort hún hefir efnt sín loforð, sem hún gaf þjóðinni, og hverja viðleitni hún hefir sýnt til þess að efna þau. hafi þau verið framkvæmanleg.

Mér þykir rétt, eftir þennan 11/2 árs búskap, að gera nokkura grein fyrir því, hversu efndunum er komið í þeim málum, sem um var samið.

Fyrsta atriðið var það, að skipuð skyldi nefnd til þess að rannsaka ástand atvinnu og fjármála í landinu, með það fyrir augum að koma með heilsteyptar till. til umbóta í þeim efnum. Það varð og, að þessi n. var skipuð og hefir starfað síðan. Gengur hún almennt undir nafninu „Ruðka“, sem ég get mjög vel unað handa henni. Ég vil geta þess, að á næsta vetri geri ég ráð fyrir, að gengið verði frá till. frá þessari n. um heildaraðgerðir til þess að koma betra skipulagi á okkar fjárhag og atvinnulíf. Þetta hefir verið hennar meginverkefni og kostað mikla rannsókn og tíma, en ég vona sem sagt, að á næsta vetri komi heildarskýrslur og till. frá n. um þessi efni, auk hinna einstöku mála, sem komið hafa frá henni og verið lögð fyrir þingið.

Í þessu sambandi vil ég geta þess, að ég vona, að samvinna geti tekizt milli þeirra flokka, sem standa að ríkisstj., um lausn þeirra mála, sem þar verður hreyft við, á þeim grundvelli, sem flokkarnir geta báðir sætt sig við.

Annar liður samkomulagsins var sá, að afla ríkissjóði sérstakra tekna með því að leggja skatta á þá, sem breiðust hefðu bókin, ef svo mætti segja. Þetta er að fullu efnt. Á þinginu síðasta var tekju- og eignarskatturinn hækkaður sem nam milli 60 og 70%, auk þess, sem hann er innheimtur með 10% viðauka. Á þinginu, sem nú situr, er frv. um að bæta við tekjuskattinn eins og fært þykir, og láta helming þeirrar aukningar renna til hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfélags, auk þess er gert ráð fyrir að taka af þessu sama til myndunar lífeyrissjóðs fyrir almenning í landinu. Hefir því stj. gert það, sem hún hefir álitið fært, í því að leita tekna á þessum stoðum. Ennfremur var um það samið, að til viðbótar skyldi tekna aflað með því, að stj. tæki í sínar hendur arðbær verzlunarfyrirtæki. Þetta var að nokkru gert á síðasta þingi, en nú hefir ekki náðst samkomulag milli Alþfl. og Framsfl. um að ganga lengra í þessu efni. Var þá sú leið farin, að leggja viðskiptagjald á nokkrar vörutegundir, til þess að fá fé til nauðsynlegra framkvæmda. Þriðja atriðið var að stofna sérstaka verzlunarskrifstofu til þess að hafa yfirstjórn utanríkisverzlunarinnar. Af þessu hefir ennþá ekkert orðið. Þá var samið um löggjöf um sölu á kjöti og mjólk, eins og kunnugt er, var þessi löggjöf samin, og verður sjálfsagt nokkuð rætt um árangur hennar meira en orðið er á þessum eldhúsdegi.

Þá var samið um, að verkamenn í opinberri vinnu skyldu fá rétt til þess að semja við ríkisstj. á sama hátt og verkalýðsfélögin semja við atvinnurekendur, og kaup vegavinnumanna skyldi hækkað og samræmt. Þetta var gert, sem kunnugt er.

Þá var samið um, að útflutningsgjald af síld skyldi fært niður. Þá var ennfremur samið um að afnema ríkislögregluna, sem var eitthvert fyrsta verk stj., og varð af því hinn stærsti sparnaður, sem hún hefir framkvæmt. Þá var samið um, að alþýðutryggingarnar gengju fram fyrir árið 1936, og það verður væntanlega efnt með því frv., sem hér liggur fyrir þinginu.

Þá var samið um löggjöf um samvinnubyggðir og nýbýli. Um það liggur frv. fyrir þessu þingi, sem ég geri ráð fyrir, að verði samþ. og að fjárframlag fáist til.

Þá var samið um að hætta sölu þjóðjarða, en í því hafa framsóknarmenn brugðizt með samþykkt löggjafarinnar um óðalsrétt.

Ennfremur var samið um endurskoðun réttarfarslöggjafarinnar, og liggur fyrsti árangurinn af því starfi fyrir þessu þingi.

Ég hefi nú vikið að þeim þrettán atriðum, sem samið var um, og sýnt fram á, að þau hafa öll verið efnd nema tvo, þjóðjarðasalan og skrifstofa til að hafa yfirstjórn utanríkisverzlunarinnar.

Það liggur í hlutarins eðli, þegar tveir flokkar standa saman að stjórn, sem hafa á ýmsan veg mjög ólíkar stefnuskrár og greinir á í ýmsum höfuðatriðum, að þá er óhugsandi annað en að sigla verði nokkuð bil beggja. Hvorugur flokkurinn getur búizt við því að fá fram allt, sem hann vill, heldur verður hvor að taka tillit til annars. Hjá því verður ekki heldur komizt, að allmikil átök geti orðið milli þeirra flokka um, hvernig leysa eigi hin einstöku mál, þó að í þeim málum, sem næst liggja, geti að lokum fengizt samkomulag. Það er ekki heldur því að leyna, að í sambandi við afgreiðslu fjárl. og þeirra mála, sem í sambandi við þau standa, hefir talsvert reynt á í flokkunum áður en fullt samkomulag náðist. Ég skal ekki fara langt út í það, en þykir þó rétt að gera nokkra grein fyrir því og kostnaðinum, sem af þeim málum leiðir.

Í höfuðatriðum hefir verið samið um, að þau mál nái fram að ganga, sem ég nú tel upp: Alþýðutryggingar, sem gera ráð fyrir 300—330 þús. kr. framlagi til viðbótar því, sem áður hefir verið varið til þessara hluta.

Framlag til skuldaskilasjóðs, 100 þús. kr. samkv. lögum frá síðasta þingi. Samvinnubyggðir og nýbýli, 200 þús. kr. Til kartöfluræktar og verðlauna 30 þús. kr. Styrkur til að greiða vaxtahluta fyrir bændur, 15 þús. kr.

Til frystihúsa og mjólkurbúa 65—70 þús. kr. Þetta eru höfuðmálin. Um leið og samkomulag er orðið hjá þessum flokkum um að hrinda þessum málum í framkvæmd, verða þeir líka að taka á sig að afla fjár til þess, að þessi lög verði meira en pappírsgagn.

Það er engum manni að liði, að sett séu lög, ef ekki er tryggt, að þau fríðindi, sem hið opinbera veitir samkv. lögunum, verði veitt og fé verði fyrir hendi til þess.

Þessi nýmæli, sem ég hér hefi getið um, er gert ráð fyrir, að kosti ný útgjöld umfram það, sem er í fjárl., fast að 1 millj. króna. Það er því óhjákvæmilegt fyrir þá flokka, sem setja þessi lög, að sjá fyrir tekjum til þess að mæta þessum útgjöldum, því að stjórnarflokkunum og ríkisstj. er það vel ljóst, að það verður að beita ýtrustu orku til þess, að ekki verði tekjuhalli á fjárl. Um að leggja á tekjuskatt í því formi, og svo langt sem gengið er í því, eins og í frv. segir, var mjög gott samkomulag milli beggja stjórnarflokkanna. Um það, hvernig afla ætti hinna teknanna, varð ágreiningur ekki allóverulegur. Við lítum svo á, Alþýðuflokksmenn, að ýmislegt af þeim vörum, sem fellu undir þessi nýju gjöld, væri ekki rétt að leggja skatt á, við töldum eðlilegri leið í þessu efni, að ríkið tæki í sínar hendur meira af utanríkisverzluninni, jafnvel mikinn hluta hennar, og aflaði sér þar með tekna. Þó var þetta ekki eingöngu miðað við þá nauðsyn að afla ríkissjóði tekna, heldur og jafnframt hitt, að fá vald á innkaupunum og skapa ríkisstjórninni, að okkar hyggju, möguleika til þess að bæta meira en nú er hægt söluskilyrði fyrir okkar eigin vörur. Að vísu getur innflutnings- og gjaldeyrisnefndin — og gerir að nokkru leyti — gert ráðstafanir til þess að beina innkaupunum í ákveðna átt, en það er miklu örðugra og áhrifaminna í framkvæmdinni heldur en ef innkaupin væru í höndum einnar stofnunar. Við teljum, að með því ynnist tvennt í einu, eða þó þrennt: Í fyrsta lagi betri innkaup, þegar um svo stórfelld viðskipti væri að ræða. Í öðru lagi sköpuðust möguleikar til þess að afla tekna án þess að vörurnar þurfi af þeim sökum að hækka, og í þriðja lagi sköpuðust möguleikar fyrir því, að með kaupum á ákveðnum vorum frá ákveðnum löndum mætti bæta sölumöguleika fyrir okkar afurðir á þeim stöðum umfram það, sem gert er og reynt verður með ráðstöfunum innflutnings- og gjaldeyrisnefndar. Um þetta varð ekkert samkomulag. Var sú leið farin, til þess að stöðva ekki framgang þessara mála, að fallast á innflutningsgjaldið. En af því að mér er kunnugt, að mjög er gert mikið úr því, hvernig þetta gjald kemur niður, þykir mér rétt að drepa á það nokkrum orðum.

Af áætluðum innflutningi til landsins, sem er 38 millj., er gert ráð fyrir, að 17300 þús. séu skattfrjálsar með öllu, en það eru allar framleiðsluvörur til lands og sjávar og brýnustu nauðsynjar. Þá kemur annar vöruflokkur upp á 13,6 millj. kr. Í honum er mikið af vörum, sem ómögulegt er að vera án, og á þennan flokk er lagt 2% gjald, og er það reiknað af innkaupsverði, en ekki af vörunum komnum á höfn. Ég játa það, að mér var þetta ekki geðfellt, en það, sem vannst við þetta aftur á móti, er mikils virði.

Þá eru 7 millj. kr., sem eru í hærri tollflokkum. 3,7 millj. eru í 5% tolli, hitt er í 10—25% tolli. Í 5% tollinum er kaffi og sykur, sem við Alþýðuflokksmenn höfum ekki viljað tolla hærra. Hefir mjög verið látið af því, að með þessu sé Alþfl. að svíkja sín loforð, og ég játa, að þetta er á móti því, sem við hingað til höfum barizt fyrir í þessu efni. En ástæðan fyrir þessu er sú, sem ég hefi áður tekið fram, að tryggja framgang mála eins og alþýðutrygginga, nýbýla og skuldaskilasjóðs. En ég vil gera mönnum grein fyrir því, að þetta er ekki sá voðaskattur, sem mikið munar um. Innkaupsverð á sykri mun vera innan við 20 aurar á kg.; 5% gjald af því er þá tæplega 1 eyrir. Það er því tæplega einn eyrir, sem hvert kg. af sykri þarf að hækka af þessari ástæðu. Innkaupsverð á kaffi er um 80 aurar kg. Það, sem kaffi hakkaði þá fyrir þetta gjald, væri 4 aurar kg. Ég vænti, að ýmsir, sem vex þessi hækkun í augum og ráða yfir álagningunni á þessar vörur, en það eru þeir, sem verzla með þær, sýni þá það eðallyndi, að bæta ekki tolli ofan á þetta. Þá þarf sykurinn ekki að hækka um meira en 1 eyri og kaffið um 4 aura kg.

Ég vil ennfremur benda á það, að gera má ráð fyrir, að næsta ár verði heildarinnflutningsgjald minna en undanfarin ár vegna minnkandi innflutnings. Það er 300—400 þús. kr., sem gera má ráð fyrir, að þetta lækki. Vörutollur og verðtollur voru árið 1934 3400 þús. kr. Nú er aftur á móti ekki gert ráð fyrir, að vörut., verðt. og þetta nýja viðskiptagjald verði meiri en 3050 þús. kr., og ástæðan er sú, að gert er ráð fyrir því, að innflutningurinn minnki. En að það er mögulegt að minnka innflutninginn niður í 38 millj., byggist á því, að fyrir aðgerðir hins opinbera, og mest fyrir aðgerðir þess í sambandi við innflutning til landsins, hefir skapazt í landinu nú á síðustu árum, mér liggur við að segja ótrúlega mikill iðnaður, og einmitt þessi iðnaður, sem nýtur verndar innflutningshaftanna, hefir orðið drýgstur til þess að bæta úr því atvinnuleysi, sem ella hefði verið óhjákvæmilegt. Hann hefir ekki aðeins tekið við allri þeirri aukningu, sem stafar af fólksfjölgun í landinu, heldur einnig bætt það upp að verulegu leyti, sem atvinnurekstur einstakra fyrirtækja hefir dregizt saman. En í skjóli innflutningshaftanna hefir iðnaðurinn komizt upp, og þar með auknir möguleikar til að bjarga sér, og skapað möguleika á ný til að draga úr innflutningnum, og er þar með komizt nær fullum jöfnuði.

Tími minn er úti, og vil ég ljúka máli mínu með því að segja, að loforð þeirra flokka, sem nú fara með völdin, voru til almennings í landinu, að beina orku og getu þjóðar og ríkis til að jafna kjör manna, auka atvinnumöguleika í landinu, taka af þeim, sem betur eru megnugir í kreppuvandræðunum og minnst mæðir á, til þess að tryggja þá, sem lakast eru ættir. Og ég tel, að þrátt fyrir allt, þá hafi þessi viðleitni nú þegar borið mikinn árangur. Og afgreiðsla fjárl. og annara helztu mála, sem nú liggja fyrir, sýnir, að þessari viðleitni er haldið einbeittlega áfram.