14.12.1935
Efri deild: 95. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (2295)

91. mál, fávitahæli

Guðrún Lárusdóttir:

Ég finn mér skylt að þakka hv. Nd. fyrir góða meðferð á þessu máli, og geri ég það bæði í mínu nafni og eigi síður í nafni þeirra, sem eiga að njóta góðs af þessari stofnun. Þetta frv. hefir tekið lítilsháttar breyt. í hv. Nd., og er sú breyt. í bráðabirgðaákvæði, sem er aftan við 9. gr. og er um það, að á meðan ekki eru samþ. lög um framfærslu sjúkra manna og örkumla, þá greiði ríkissjóður lítilsháttar meir en gert var ráð fyrir í frv. þetta skiptir í raun og veru ekki miklu máli, en er þó í samræmi við frv. það, sem er á ferðinni um framfærslu sjúkra manna og örkumla.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Ég vil aðeins endurtaka það, að mér þykir vænt um, að málið er komið svona langt, og ég vænti þess, að hv. Ed. vilji enn sýna því velvilja og samþ. það eins og það liggur hér fyrir.