03.12.1935
Sameinað þing: 24. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

1. mál, fjárlög 1936

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) óyfirl.:

Herra forseti og aðrir hlustendur!

Á þeim stutta tíma, sem ég hef, mun ég aðallega snúa mér að höfuðatriðunum, en minna skipta mér af smærri atriðunum, en geyma til morguns að minnast á þau. Ég geri það með vilja, til þess að ekki slitni of mikið í sundur sú grg., sem nauðsynlegt er, að komi af minni hálfu um fjármálin í þessari ræðu. Vil ég biðja hæstv. forseta að draga frá mínum tíma á morgun, ef ég nota í kvöld meiri tíma en mér er ætlaður. Vil ég að mér sé það leyfilegt, til þess að slíta málið ekki of mikið í sundur.

Það, sem ég hefi kosið að svara fyrst, er sú ádeila, sem hér hefir verið hafin á stj. fyrir það, hvernig stj. hafi framkvæmt innflutningshöftin og hvernig hafi tekizt að leiðrétta viðskiptin við útlönd á þessu ári.

Til þess að mönnum verði þetta mál ljóst, verða þeir þegar í upphafi að gera sér grein fyrir því að árið 1934 var 11 millj. kr. greiðsluhalli við útlönd. Þessi halli stafaði m. a. af því, að árið 1934 missti sú stj., sem þá sat, tökin á þessu máli, og ég segi það — og ætlast til þess, að sjálfstæðisfl. ræði um það síðar, ef hann vill — að þá hafði Sjálfstfl. aðstöðu til þess að ráða þessum málum. Fyrrv. fjmrh. skýrði frá því, að hann vildi fá að stemma stigu fyrir hinum mikla innflutningi, en því var neitað af Sjálfstfl. Ég verð því að álíta, að það sé Sjálfstfl. sem fyrst og fremst ber ábyrgð á þeim stóra halla, sem var í viðskiptunum við útlönd árið 1934, og það er hann, sem raunverulega ber ábyrgðina á því, hversu erfitt er að fást við þessi mál nú á því erfiðasta útflutningsári, sem komið hefir nú um langan tíma. Það er rétt, að stj. hefir haldið því fram, að eitt aðalatriðið væri að kippa þessu í lag, og þetta er eitt af því helzta, sem hún hefir beitt sér fyrir. Hitt er rangt, að komið hafi fram um þetta ein eða önnur fullyrðing, að þessu skyldi komið í framkvæmd á einhverjum vissum tíma. Um þetta hefir ekkert verið fullyrt og engar líkur verið færðar að því, enda er það ómögulegt, eins og hverjum má vera ljóst, því að það veit enginn fyrirfram, hvernig þessum málum reiðir af.

Þá er búið að framkvæma þetta í 10 mánuði samkv. l., sem voru sett 1934, og eftir þessa 10 mánuði er hv. þm. G.-K. tilbúinn að fella þann dóm, að framkvæmdin hafi farið í svo miklu ólagi, að ég ætti fyrir það að víkja úr ráðherrasæti. Þetta leyfir hann sér að segja 10 mánuðum eftir að þetta hefir komizt í framkvæmd, og þrátt fyrir það, að þetta ár er það versta, sem komið hefir langan tíma, og þrátt fyrir það, að orðið hefir að leyfa óvenjumikinn innflutning á útgerðarvörum, af því að á þessu ári hefir stærri floti verið gerður út til síldveiða en áður, og þrátt fyrir sívaxandi kaup á vörum frá útlöndum, sem vel væri hægt að vera án, ef viðskiptaástæður okkar gerðu okkur ekki skylduga til að kaupa þær, og þrátt fyrir það, að á þessum 10 mánuðum hefir orðið að fullnægja fjölda innflutningsleyfa frá fyrra ári, þegar núv. l. um þetta efni voru ekki komin, og útkoman hafi fyrir það orðið miklu, óhagstæðari. En hver er þá útkoman á þessum 10 mánuðum? Hún er sú, að á þessum 10 mánuðum er þegar fyrsta áfanganum í þessu máli náð, sem sé, að eftir þeim skýrslum, sem nú liggja fyrir, hefir nú náðst verzlunarjöfnuður, en lokaáfanganum, greiðslujöfnuðinum, er ekki náð enn, en fyrsta áfanganum, verzlunarjöfnuðinum, er náð, þrátt fyrir það, þó útflutningurinn sé 2 millj. kr. lægri en á sama tíma í fyrra. Á þessum 10 mánuðum hefir tekizt að lækka innflutninginn um 21/2 millj., þó aðallega á síðustu mánuðunum, af því að nauðsynjavöruinnflutningur var meiri fyrstu mánuðina, og þá gætti meira gömlu innflutningsleyfanna frá fyrra ári.

Fyrsta áfanganum í þessu máli hefir verið náð, en við það verður ekki numið staðar. Það verður haldið áfram, þangað til lokatakmarkinu er náð, sem sé greiðslujöfnuðinum.

Hv. þm. talaði um það áðan, að yfirfærslur væru stöðvaðar og ástandið væri þar verra en nokkru sinni áður. Það er rétt hjá honum, að bankarnir hafa orðið að láta það vera að afgr. ýmsar innheimtur, sem til þeirra hafa borizt, en þetta er ekki fyrst og fremst, þótt það sé að nokkru leyti, vegna þess, að ekki er kominn fullkominn greiðslujöfnuður, sem enginn vitiborinn maður gat látið sér detta í hug, að hægt væri eftir 10 mánuði, heldur hafa ýms af okkar viðskiptalöndum við samskonar örðugleika að stríða, og hafa yfirfærslur frá þeim dregizt meira en nokkru sinni áður. Hv. þm. blés sig mikið út með það, og kvað á með miklum stóryrðum um það, að ef nokkur mannræna væri í mér, þá ætti ég að segja af mér störfum. Ég get sagt honum það, að meðan viðskiptajöfnuðurinn við útlönd fer batnandi með hverjum mánuði, sem líður, eins og hefir gerzt á undanförnum mánuðum, þá sé ég ekki ástæðu til að hnika mér úr sæti af þessari ástæðu.

Annars er fróðlegt fyrir menn, þegar menn hlusta á blástur hv. þm. G.-K., að hugleiða. hvernig þessum málum mundi hafa verið komið, ef núv. stj. hefði ekki farið með völd, heldur þeir, sem nú eru í stjórnarandstöðu. Þykir mönnum það líklegt eftir þeirri framkomu, sem ég lýsti áðan, að Sjálfstfl. hefði sýnt Ásgeiri Ásgeirssyni 1934, sem þá var fjmrh., þykir mönnum það líklegt, þegar þeir hugsa um þá pressu, sem liggur á þeim flokki af hálfu kaupmanna, að hann hefði á þessu erfiðleikaári séð þessum málum borgið, eins og núv. stj. hefir nú séð þeim borgið? Ég held, að engum óvitlausum manni detti það í hug, heldur eru fyllstu líkur til þess, að þessi flokkur væri búinn að sigla þessum málum í algert strand. Leiði ég það af fyrri framkomu þeirra í þessu máli. Þeir hafa ekki flokkslega aðstöðu til þess að skipa þessum málum eins og þarf.

Annars verð ég að segja það, að mér finnst hv. þm. G.-R. koma heldur illa upp um sig í þessari ræðu sinni. Það kom nefnil. greinilega fram hjá honum, hver ástæðan er til þessarar bræði, sem hefir nú gripið hann venju fremur, þó að hann sé maður mjög óstilltur. Það var eitt atriði, sem gægðist í gegn, og það var, að fjárhagur ríkissjóðs væri ekki kominn í vandræði. Það væru of miklir peningar í ríkissjóði. Hann sagði, að ríkissjóður væri sá eini aðili, sem hefði nokkur peningaráð. Af hálfu formanns andstöðuflokks þykir mér þetta mikið hrós á eldhúsdegi, að það skuli koma upp úr dúrnum, að ríkissjóður sé eini aðilinn, sem hefir nokkur peningaráð. Það er því miður ekki svo, að hagur ríkissjóðs sé eins góður og vera þyrfti, en ég veit, að mikill hluti af heift hv. þm. stafar af því, að hagur ríkissjóðs er þó betri en hann hafði gert sér von um, að hann væri. Það er sönnu næst, að hagur ríkissjóðs er ekki eins góður og hann þyrfti að vera, en ég vona, ef áfram miðar í framtíðinni smátt og smátt í sömu átt og hefir miðað þetta ár um afkomu ríkissjóðs, þá geti menn orðið ánægðir eftir næsta ár. Ég skal ekki segja, hvernig þetta fer, en ef miðar áfram næsta ár eins og miðað hefir áfram þetta ár, miðað við árið 1934, þá sé ekki ástæða til þess að verða óánægður. Það kann að vera, að síðar komi fram ákaflega sterk gagnrýni á afkomu ríkissjóðs, og þá er gott að minnast þess, sem hv. þm. sagði nú. Þá mun því verða haldið fram, að ekki sé nóg, að hagur ríkissjóðs batni, heldur verði hann að vera eins góður og bezt verði á kosið, ekki nóg, að greiðsluhallinn minnki, hann megi enginn vera, og eru þar gerðar meiri kröfur til mín en nokkurs annars manns. Get ég verið ánægður með það, því að það sýnir, að andstæðingarnir vilja þó, að eitthvað miði í áttina til hins betra.

Ég ætla þá ekki að eyða meiri tíma í að ræða um viðskiptin við útlönd og orð hv. þm. G.-K. í því sambandi. Ég hefi svarað með rökum þeim stóryrðum, sem þar komu fram.

Þá vil ég minnast á afgreiðslu fjárl., þó að ég hafi til þess minni tíma en ég hefði kosið. Annað aðalatriðið í ræðu hv. þm. var að deila á stjórnarflokkana fyrir afgreiðslu fjárl. eins og hún lítur út fyrir að verða. Ég verð um leið og er svara hv. þm. að gefa heildarupplýsingar um málið, til þess það lendi ekki á dreif, og felst þá um leið í því svar mitt til hv. þm.

Í fjárlfrv. því, er nú liggur fyrir, er gert ráð fyrir um 14 millj. kr. útgjöldum. Er það hærri upphæð en hingað til hefir verið í fjárlfrv. Ég hefi áður skýrt frá því og rökstutt það, að þessi hækkun er mest vegna þess, að áætlunarupphæðir hafa verið hækkaðar frá því, sem áður hefir verið, og þetta er rétt. Þessi breyt., sem gerð hefir verið á frv., var miðuð við þá stefnu, að það ætti að komast í það horf, að greiðslur á fjárl. og áætlanir væru í sem beztu samræmi við landsreikningana, þegar þeir kæmu út. Þessi fyrsta tilraun mun takast þannig, að mismunurinn minnkar allmikið frá því, sem áður hefir verið, þó að hann hverfi ekki að fullu, því að það er aldrei hægt að láta hann hverfa til fullnustu. Það kemur í ljós, ef miðað er við greiðslurnar eins og nær verða líklega þetta ár, og gert ráð fyrir í fjárlfrv. nálægt því sömu útgjöldum og 1935, þá verða útgjöldin sem næst 15 millj. kr., í staðinn fyrir 14 millj. kr., sem er í frv. nú.

Nú liggur einnig fyrir, eins og hefir komið hér fram áður, að ef haldið verður áfram að færa innflutninginn saman, þá er ekki hægt að reikna með því, að tekjur af núv. tekjustofnum fari svo nokkru nemi fram úr 14 millj. kr. á næsta ári, ef varlega á að fara. Þetta þýðir það, ef fjárl. eru færð til samræmis við reynsluna, þá er hér einnar millj. kr. mismunur. Framsfl. hélt því fram og fékk því framgengt, að þessum mismun ætti að mæta með niðurfærslu á útgjöldum fjárl. Þetta verður gert. Útgjöld fjárl. verða færð niður um sem næst einni millj. kr. Auðvitað er það, að þegar um svo verulega niðurfærslu er að ræða, þá verður að nema burt eða lækka ýmsa liði, sem stjórnarflokkarnir hefðu viljað, að hefðu staðið óbreyttir, en í það er ekki hægt að horfa vegna þess, hvernig fjárhagsástæðurnar eru. En auðvitað eigum við eftir að fá ýmsar svívirðingar frá andstæðingum okkar fyrir það, að hafa fært niður þá liði, sem við höfum gert, þótt þeir vilji láta í það skína, að niðurfærslan sé of lítil og meira eigi að spara, — en þannig er þeirra málfærsla.

Þá er og það, að á fyrri hluta þessa þings voru borin fram mál, sem höfðu í för með sér útgjöld úr ríkissjóði. voru það ýms mál, sem stjórnarflokkarnir komu sér saman um að framkvæma, þegar þeir hófu samvinnu sína. Það lá fyrir, að þessi mál mundu hafa í för með sér nálegu einnar millj. kr. útgjöld á næsta ári. Það var því ekki nóg, þó að þessum einnar millj. kr. mismun væri mætt með sparnaðinum. Það varð líka að mæta þessum einnar millj. kr. útgjöldum, sem hér varð að taka á ríkissjóð vegna þessara nauðsynlegu framkvæmda. Og þegar farið var að athuga fjárl. enn á ný, til þess að sjá, hvort enn væri hægt að færa niður á þeim, þá kom í ljós, að ef átti að færa þar niður um þessa einu millj., þá varð að ganga svo að segja eingöngu á þau fjárframlög, sem ganga áttu til verklegra framkvæmda eða atvinnuveganna, einkum landbúnaðarins. Stj.fl. þótti því ekki fært að ganga lengra á niðurskurðarbrautinni en þeir höfðu gert. Þá var ákveðið að afla tekna til þess að standast greiðslurnar vegna þessara nýju umbótamála.

Afgreiðsla fjárl. verður því í stórum dráttum þannig, að gömlu tekjustofnarnir verða látnir mæta gömlu útgjöldunum, þó niðurfærðum um eina millj. Nýju tekjustofnarnir eiga að mæta greiðslum þeim, er hinar nýju framkvæmdir hafa í för með sér.

Það eru þess vegna svo fjarri sanni öll þau stóryrði, sem hv. þm. G.-K. lét hér falla um það, að stjórnarliðið og ríkisstj., og þó einkum Framsfl., sæi enga leið nema að hækka skatta og önnur gjöld. Það er svo fjarri sanni, að þvert á móti hefir verið farinn meðalvegur, sem liggur í því, að þegar þarf að mæta 2 millj. kr. mismun á greiðslum fjárl. og nýjum fjárframlögum annarsvegar og tekjuvonum hinsvegar, þá er önnur milljónin tekin með nýjum sköttum, en hinni milljóninni er mætt með sparnaði.

Þá vil ég víkja nokkuð að þeim nýju tekjustofnum, sem hefir verið horfið að í sambandi við afgreiðslu fjárl. Annarsvegar er þar um að ræða hátekjuskatt, sem kemur á þær skattskyldar tekjur, sem nema 6000 kr. eða þar yfir, en það svarar til þess, að þeir hlutaðeigendur, sem verða fyrir þessari skattaálagningu, verða að hafa milli 7000 og 8000 kr. hreinar atvinnutekjur, ef um einhleypan er að ræða. Skatturinn er því sannnefndur hátekjuskattur, og hann kemur ekkert við allan almenning í landinu. Framsfl. hafði þá sérstöðu um þennan skatt, að hann vildi láta hann allan renna í ríkissjóð, en það vildi Alþfl. ekki ganga inn á, heldur vildi hann láta helming þessa skatts renna til hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélaga, sem þýddi ekkert nema bæjarfélögin, því að þessi skattur nær ekki til nokkurs manns í sveit. Inn á þetta gekk þó Framsfl. til samkomulags, en það þýddi það, að þá varð að fara þeim mun meira aðrar tekjuöflunarleiðir, og það var gert með því að leggja gjald á innfluttar vörur. Hinsvegar stakk Alþfl. upp á því, eins og hæstv. atvmrh. gat um, að tekin væri í hendur ríkisins verzlun á ýmsum vorum, sem ríkið verzlar ekki með nú, en inn á það gat Framsfl. ekki gengið. Þannig varð þessi tollaálagning nokkurs konar millileið milli þess, sem flokkarnir lögðu til hvor um sig.

Þegar hátekjuskattinum sleppir og það sýndi sig, að ekki var hægt að afla með honum, ef helmingurinn fór til sveitar- og bæjarfélaga, meiri tekna en 200 þús. kr. samtals, þá var svipazt um eftir öðrum leiðum. Og þar sem Framsfl. gat ekki gengið inn á frekari einkasölur en áður, og þar sem Alþfl. gaf ekki gengið inn á, að hátekjuskatturinn rynni allur til ríkissjóðs, þá var hallazt að þeirri leið, að leggja gjald á innfluttar vörur, eins og áður hefir verið lýst.

Þá kom til álita önnur leið, sem farin hefir verið erlendis af stjórnmálaflokkum, sem eru hliðstæðir þeim flokkum, sem fara með völdin hér að þessu sinni, en það er að leggja gjald á alla vörusölu verzlana. Þessi leið hefir t. d. verið farin í Noregi er sem kunnugt er vinstrimanna stjórn, sem vildi og vill halda uppi verklegum framkvæmdum og framlagi til smáframleiðenda, en þar er þegar búið að fara svo langt í álagningu beinna skatta, að ekki mun hafa þótt tækilegt að fara lengra á þeirri braut. Þessa leið þótti ekki fært að fara hér, m. a. af þeirri ástæðu, að þá hlaut gjald þetta að koma niður á allar vörur, sem seldar voru í búðum, ef framkvæmdin hefði ekki átt að verða allt of flókin, og þá vitanlega jafnt á allar vörur, hvort sem þær voru útlendar eða innlendar, nauðsynlegar eða ónauðsynlegar. Ennfremur tóku flokkarnir ekki þessa leið af því, að þeir töldu ekki rétt t. d. að leggja gjald þetta á vörur, sem framleiðslan þarf til sinna nota, en það er vitanlega stefna flokkanna að hlífa henni sem mest við útgjöldum. Var því sú leið farin að taka gjaldið aðeins af innfluttum vörum, og hafa það jafnframt misjafnt á vörunum, eftir því hve nauðsynlegar þær eru. Þannig er það minnst á þeim vörum, sem telja verður almenningi nauðsynlegar, og er það yfirleitt ekki nema 2% á þeim vörum, ef þær eru þá ekki alveg undanþegnar.

Þá hafa komið fram fullyrðingar um það, að með álagningu þessara gjalda væri verið að íþyngja atvinnuvegunum, væri verið að slá allar stoðir undan framleiðslu landsmanna. Vegna þess að þetta er þung ásökun, og jafnframt er hér um að ræða aðalatriði þessa máls, þá mun ég fara um það nokkrum orðum og reyna að bregða ljósi yfir þessi atriði, sem sýnir það ljóslega, að gjöld þessi lenda síður en svo á framleiðslunni, heldur eru miklu frekar til þess að létta undir með henni.

Hvað snertir hátekjuskattinn, þá er það víst, að hann hittir alls ekki smáframleiðendur. Hitt kann að vera, að hann nái til einstaka stórframleiðenda, en þá ber þess að gæta, að fyrir atbeina minn komust inn í lögin, sem sett voru í fyrra, ákvæði um það, að framleiðendur megi draga töp sín á framleiðslunni síðastliðin tvö ár frá gróðanum. Þetta ákvæði núgildandi skattalaga kemur því alveg í veg fyrir, að skattur þessi lendi þungt á framleiðslunni.

Þá kem ég að viðskiptagjaldinu. Við álagningu þess gjalds er sérstaklega gætt hagsmuna framleiðendanna með því að láta gjaldið ekki ná til þeirra vara, sem notaðar eru við framleiðsluna. Nær gjald þetta þó sérstaklega ekki til bænda eða iðnaðarmanna. Þvert á móti gerir það aðstöðuna hvað innlendu vörurnar snertir mun betri; það eykur möguleikana fyrir notkun þeirra í landinu sjálfu. Af þessu er það sýnt, að við álagningu þessa skatts er sneitt framhjá því að gera afkomu framleiðslunnar verri eða erfiðari en hún er nú.

Með þessu er þó ekki nema hálfsögð sagan hvað snertir álagningu þessara nýju skatta. Meiri hluti þeirra, eða um 610 þús., á að renna beint til framleiðslunnar sjálfrar. Þannig eiga t. d. 200 þús. að ganga til nýbýlamyndunar, 160 þús. til skuldaskilasjóðs útvegsmanna. Ennfremur eigu stórar upphæðir að ganga til fóðurtrygginga, kartöfluverðlauna, greiðslu vaxta af fasteignalánum bænda, mjólkurbúa og frystihúsa. Það, sem þá er eftir, eða um 300 þús. kr., á að ganga til alþýðutrygginga, og má segja, að það gangi að nokkru leyti til smáframleiðenda líka. Með þessu hefi ég sýnt fram á, til hvers þetta fé á að renna, að það á að ganga til smáframleiðendanna og atvinnuveganna, sumpart til þess að gera ungum mönnum kleift að komast inn í framleiðslu landbúnaðarins, og ennfremur að létta undir með framleiðendum og auka atvinnu. Það er því langt frá, að verið sé að íþyngja atvinnuvegunum með þessum sköttum, eins og sjálfstæðismenn vilja vera láta, eða eins og sjálfstæðismenn segja, öllum til bölvunar.

Nú kann einhver að segja, að þetta sé gott og blessað, en sjálfstæðismenn hafi nú bent á aðra leið, sem sé þá, að færa niður útgjaldaliði fjárl. umfram það, sem fjvn. hefir gert. Þessu er því að svara, að ef fjárl. eru athuguð, þá liggur það skýrt fyrir, að næst því, sem stjórnarflokkarnir leggja til að fært sé niður, getur ekki verið um niðurfærslu á öðru að ræða en því, sem beint er veitt til atvinnuveganna sjálfra, og það eru einmitt þau útgjöld, sem sjálfstæðismenn vilja spara.

Þá má vel vera, að einhver kunni að benda á það, sem hv. þm. G.-K. var að tæpa á, að hinir nýju skattar eigi ekki að ganga allir til framleiðslunnar, heldur eigi nokkur hluti þeirra að ganga til alþýðutrygginga, en þá vil ég bara segja það, að það er engum ofgott að taka á sig ábyrgðina á því að telja slíkt eftir, og ég mun ekki gera það. Annars er það svo, að frá sjónarmiði Framsfl. er þetta talið sjálfsagt mál. og verður ekki talið eftir af honum. Hann verður að hafa samvinnu við jafnaðarmenn til þess að vinna að hagsbótum smáframleiðendanna, sem hann sérstaklega hefir umboð fyrir, og telur því ekki nema eðlilegt, að jafnaðarmenn geri eitthvað fyrir verkamennina, sem þeir eru umbjóðendur fyrir.

Að síðustu vil ég taka það fram, að þrátt fyrir allar fullyrðingar sjálfstæðismanna um það, að fjármálastefna stjórnarflokkanna sé eyðileggjandi fyrir þjóðina í heild, þá munu þeir samt verða að horfa upp á það, að smátt og smátt þokast í áttina til þess að bæta hag ríkissjóðsins frá því, sem hann var, og sömuleiðis fjárhagsástand þjóðarinnar út á við, þrátt fyrir erfitt árferði á mörgum sviðum.

Það má vel vera, að einhver vanstilltur stjórnarandstæðingur fyllist reiði og ofsa yfir því, en við því verður ekki gert. Það kann að vera mannlegt, en karlmannlegt er það ekki.