11.12.1935
Efri deild: 92. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (2314)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bernharð Stefánsson:

Ég hefi borið hér fram ofurlitla brtt. við þetta frv. Svo er mál vaxið, að í f-lið 10. gr. l. um tekjuskatt og eignarskatt, sem nú gilda, er ekki heimilað að telja með vöxtum til frádráttar tekjum dráttarvexti af sköttum og útsvari. Legg ég til með þessari brtt. á þskj. 762, að þetta bann verði afnumið. Skal þess getið, að ég hefi fengið bendingu um þetta atriði frá skattstjóra hér í Rvík, og ég fellst alveg á, að þetta sé rétt. Vitanlega mun það oft vera svo, að þegar það dregst fyrir mönnum að borga útsvör eða skatt, þá er það fyrir getuleysi. En samt sem áður er mönnum nú refsað með því að leggja á þetta dráttarvexti. En þá sýnist nokkuð langt gengið, að refsa þeim í annað sinn með því, að þeir megi ekki telja þessa dráttarvexti til annara útgjalda, sem dragast eiga frá tekjum í skattaframtali. Eftir að ég fékk bendingu um þetta og mér hugkvæmdist það sjálfum, hefi ég ekki átt kost á að minnast á þetta í fjhn., og hefi þess vegna hlaupið fram fyrir skjöldu og borið fram þessa brtt., án þess að bera þetta undir n. En mér virðist þetta svo einfalt mál og sjálfsagt atriði, að ég hygg, að það þurfi ekki að koma að sök. Ef einhver hv. þm. áttar sig ekki á þessu og vill bera þetta saman við l., þá hefi ég þau hér sérprentuð fyrir framan mig, og geta hv. þm. athugað þau, ef þeir óska.