07.11.1935
Neðri deild: 67. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (2338)

164. mál, skipun barnakennara

Flm. (Bjarni Bjarnason):

Lög um skipun barnakennara og laun þeirra tryggja ekki réttindi barnakennarastéttarinnar eins og æskilegt er, og þess vegna er frv. þetta fram komið. Skal ég í sem fæstum orðum gera grein fyrir þeim atriðum, sem frv. er ætlað að bæta úr.

Það er þá fyrst, að eins og sakir standa er mönnum leyft að reka einkaskóla, þar með taldir ungbarnaskólar, án þess að þeir hafi þau réttindi, sem viðurkennd eru í l. um skipun barnakennara og laun þeirra. En þegar lítið er til þess, hvað aðrar menntaþjóðir leggja mikið upp úr því, að þeir, sem taka að sér byrjunarkennslu barna, séu vel undir það starf búnir, virðist fyllsta ástæða til, að við setjum hér skýlaus ákvæði um, að slíkir kennarar skuli einnig hafa kennarapróf. Úr þessu bætir fullkomlega 1. málsgr. 1. gr. frv., og ennfremur er það áréttað í 2. gr. frv., sem er við 4. gr. l., þar sem getið er um, að skólanefndir og skólastjórar einkaskóla skuli skyldir að tilkynna fræðslumálastjóra, hverjir eiga að starfa við skóla þeirra, svo hann geti litið eftir, að lögin séu ekki brotin í þessu efni.

Þá er ákvæði um það í 1. gr. núgildandi l., að menn, sem kennt hafa í 3 ár, geti fengið kennararéttindi án þess að þeir hafi lokið kennaraprófi. Þetta er fellt niður með frv., ef að l. verður. Það virðist ekki ósanngjarnt, þó þeir menn, sem fengið hafa kennararéttindi fyrir að hafa kennt þrjú ár fyrir einum 16 árum síðan, en þó ekki enn verið skipaðir kennarar, geti ekki hér eftir farið að vekja þann rétt upp sér til handa. Auk þess er óréttlátt að gera svo misjafnar kröfur til manna, þar sem kröfurnar fara sívaxandi um menntun kennara yfirleitt.

Annað atriði, sem hér er um að ræða, er réttur stúdenta til kennslustarfa. Um leið og viðurkennt er, að gott er, að kennarar séu sem bezt menntir, þá er ekki rétt, að menn geti komið úr öðrum skólum og tekið próf aðeins í uppeldisfræði og þar með fengið sömu réttindi og þeir, sem lokið hafa kennaraprófi í öllum greinum, sem kenndar eru í kennaraskóla. Nú þurfa stúdentar eigi annað en lesa uppeldisfræðina yfir og ljúka sæmilegu prófi í henni til þess að fá full réttindi. Hér er gert ráð fyrir, að þeir þurfi að stunda nám í uppeldis- og kennslufræði a. m. k. eitt ár. Þó er ekki ætlazt til, að þeir þurfi að sitja á bekkjum kennaraskólans heilan vetur, heldur að þeir stundi nám í þessum fræðum heilan vetur, og ættu þeir að geta það samhliða menntaskólanámi. Þá er einnig gert ráð fyrir, að stúdentar stundi nám í öðrum greinum, sem kenndar eru eða kenndar kunna að verða í kennaraskólanum, en ekki eru kenndar í menntaskólanum.

Hvað snertir handavinnu-, matreiðslu- og íþróttakennara, þá er það um íþróttakennarana að segja, að um þá gilda sérstök l. frá 1932, þar sem ákveðið er, að þeir, sem hafa lokið prófi samkv. þeim l., skuli hafa rétt til að kenna við ríkisskólana, þó þeir hafi ekki kennarapróf í öðrum greinum; hið sama er ætlazt til, að gangi fram um handavinnu- og matreiðslukennara, að þeir fái kennsluréttindi í sínum greinum, ef þeir hafa aflað sér í þeim nægilegrar menntunar, að dómi fræðslumálastjóra, og lokið prófi í uppeldis- og kennslufræði við kennaraskólann.

Það, sem ég nú hefi getið um, eru meginatriði þeirra breyt., sem farið er fram á með þessu frv. við áðurgreind lög. 2. gr. er svo ljós, að ekki þarf að skýra hana. Um 3. gr. frv., sem ætlazt er til, að komi aftan við 15. gr. l., vil ég aðeins geta þess, að hún er til þess að fyrirbyggja allar deilur um rétt þeirra kennara, sem þegar eru skipaðir samkv. l. um skipun barnakennara og laun þeirra, án þess að þeir hafi kennarapróf.

Að lokum skal ég geta þess, að fulltrúafundur barnakennara í vor samþ. till. í sömu átt og þetta frv. gengur. Ennfremur hefir stjórn sambands Ísl. barnakennara fallizt á þessar breytingar. Ég vil því vænta, að frv. verði vel tekið hér í hv. d. og vísað til menntmn. og 2. umr. að lokinni þessari umr.