04.12.1935
Sameinað þing: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

1. mál, fjárlög 1936

Forsrh. (Hermann Jónasson) óyfirl.:

Herra forseti og góðir hlustendur! Ég verð að byrja ræðu mína með því að víkja nokkrum orðum að hv. þm. V.-Sk. Ég verð að segja, að það er í mesta máta óviðeigandi, að hv. þm. skuli standa hér upp með gleiðgosalegt níð og útdreifa því um þá, sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér hér á hv. Alþingi. Það er vægast sagt mjög óviðeigandi að nota þinghelgina til slíkra verka. Þetta er svo lítilfjörlegt, að það nálgast jafnvel það, sem kom fram hjá hv. Þm. G.-K. í umr. hér í gærkvöldi. Enda þótt hv. þm. V.-Sk. hafi getað sýnt þá lítilmennsku að ráðast hér á hv. 2. landsk., sem ekki gat borið vörn fyrir sig, þar sem honum var ekki ætlað að taka þátt í þessum útvarpsumr., þá ætla ég samt að vona, að þessi hv. þm. V.-Sk. hafi þó það mikinn drengskap til að bera, að hann hafi djörfung til þess að endurtaka þessi ummæli sín utan þings, svo að hann geti fengið makleg málagjöld.

Að öðru leyti en því, sem nú var nefnt, þarf ekki að eyða miklum tíma til þess að svara ræðu þessa hv. þm. Ræðan var almennar fullyrðingar út í bláinn, eins og hans ræður eru yfirleitt. M. a. minntist hann á það, að verðjöfnunursvæðið væri fyllt hér af kjöti, og vítti hann Framsfl. og sérstaklega S. Í. S. fyrir þær aðgerðir. Slíkar röksemdaleiðslur sæma þessum sýslumanni. Í öðru orðinu er því haldið fram, að 10 aura verðjöfnunargjald fyrir að fá að selja kjöt á innlendum markaði sé allt of hátt, en í hinu orðinu er sagt, að Reykjavíkurmarkaðurinn sé yfirfullur af kjöti, þannig að þeir, sem vilja selja hingað, geti það ekki og verði að selja til útlanda. Þessi rök stangast alveg á sama hátt og þegar því er haldið fram, að það hafi verið Framsfl. að kenna, að sumarslátrun byrjaði ekki nógu snemma. Vegna hvers? Af því að of miklar birgðir voru á markaðinum. En hvernig hefði þetta orðið, ef farið hefði verið eftir ráði þeirra manna, sem halda því fram, að verðlagið ætti að vera hærra en það var sett? Þetta sýnir greinilega, að þeir menn, sem fóru með þessi mál, höfðu miklu betra vit á því heldur en hv. þm. V.-Sk. og hans skoðanabræður, að stilla verðlaginu í hóf, og mátti þó ekki lengra fara en gert var í ár, vegna tregðu á erlendum markaði. Af því stafaði það, að ekki var hægt að slátra nægilega snemma í sumar.

Hv. þm. minntist á tilboð bakaranna, en hann minntist ekki á það, hvers vegna við eigum að flýja á náðir bakaranna, sem undanfarið höfðu tekið 8 aura fyrir mjólkurlítrann, sem þeir seldu fyrir bændur í mjólkurbúðum sínum. Hann minntist ekki á það, að bak við þetta tilboð kynni að hafa legið það sama og stundum liggur á bak við tilboð í Ameríku, þegar eitt járnbrautarfélagið keppir við annað, til þess að koma því á kné, þ. e. að ná yfirráðum yfir mjólkursölunni, til þess að geta sett sömu kjör og áður. Við erum búnir að reyna það, að í Hafnarfirði ætluðu þeir að „stræka“ í haust, af því að þeir fengu ekki nógu hátt verð fyrir mjólkina í búðum sínum. Það var hægt að ráða við það, vegna þess að Hafnarfjörður er lítill kaupstaður, en það yrði erfitt hér í Reykjavík. Það er undarlegt, að hv. stjórnarandstæðingar hér á þingi skuli koma fram með það sem aðaládeilu á mig og stj., að ég skyldi ekki ofurselja þeim mönnum mjólkursöluna, sem undanfarið hafa tekið þetta háa verð fyrir að selja mjólk fyrir íslenzka bændur.

Þá kem ég að því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði. Hann var eitthvað að tala um sigraða menn og sagðist hafa talað við einn bónda austan af landi um sigraða menn, og áttu það víst að vera framsóknarmenn. Ég held, að þessi bóndi hafi verið að gera gys að hv. þm. Hann hefir átt við annan flokk, því að ef hægt er að tala um sigraða menn, þá eru það áreiðanlega flokksmenn þessa hv. þm. hér á þingi, fyrst og fremst.

Þá var hv. þm. með einstaka sparðatíning. T. d. minntist hann á það, að Steingrímur Steinþórsson, núv. búnaðarmálastjóri, hefði tekið laun til 1. okt. í haust fyrir skólastjórastarf á Hólum, en skólastjórinn, sem nú er þar, hefði tekið laun frá 1. júlí. Sannleikurinn er sá, að skólaárinu hefir verið breytt. Það var frá 1. okt. til 1. okt. meðan Steingrímur Steinþórsson var skólastjóri, en svo hefir skólaárinu verið breytt, af því að það var hagkvæmara af þeim ástæðum, að það er búið við skólann, og þá var betra, að skólastjórinn tæki við 1. júlí.

Þá kem ég að meginádeilunni í ræðu hv. þm.; hún var sú, að mjólkurlækkunin hefði verið framkvæmd, eins og hv. þm. orðaði það, á þann hátt, að jafnaðarmenn hefðu skattlagt bændur í gegnum mjólkursöluna. Þessari fullyrðingu hefir verið svarað hvað eftir annað, og byggist hún á því, að jafnaðarmenn hafa meiri hlutann af búðunum; þeir selja brauð í meiri hluta mjólkursölubúðanna, sem mjólkursamsalan hefir. Þeir hafa rúman helming búðanna, og bakararnir hitt. En hvers vegna fengu þeir aðstöðu til þess að selja brauð í meiri hluta sölubúða samsölunnar? Það var sökum þess — ég vil biðja hv. þdm. að taka vel eftir —, að þeir fengu þessa aðstöðu með frjálsu útboði. Sósíalistar buðu hæst fyrir að fá að selja brauð í mjólkurbúðunum, og þess vegna fengu þeir þetta með frjálsri samkeppni. Bökurunum var líka boðið að senda brauð til sölu, en þeir fengust ekki til að gera öðruvísi tilboð en þannig, að þeirra tilboð kom ekki fyrr en eftir að jafnaðarmenn voru búnir að gera lægst tilboð, og svo buðust þeir til þess að senda brauð til sölu í mjólkurbúðirnar fyrir það sama, sem áður hafði tíðkazt. Þeir neituðu að bjóða í brauðsöluna á annan hátt en þennan. Í þessu efni hefir því ekkert verið gert annað viðvíkjandi mjólkursölunni en það, að tekið hefir verið bezta tilboðinu viðvíkjandi brauðsölunni. Forstöðumaður fyrir brauðgerð jafnaðarmanna var það hyggnari kaupmaður en bakararnir, að hann sá, að með þessu móti gafst honum betri aðstaða viðvíkjandi brauðsölunni en bakararnir höfðu. Bakararnir mega því sjálfum sér um kenna, að þeir urðu undir í frjálsri samkeppni, því að það hefir ekkert annað skeð í þessu efni en það, að bezta tilboðið var tekið. Þetta er skjallega sannanlegt og hefir oft verið sannað. Þá minntist hv. þm. á það, að þetta háa kjötverð á erlendum markaði 1933 hafi skapað verðlagið á markaðinum 1934, og þess vegna bæri í raun og veru alls ekki að þakka kjötlögunum fyrir þann mikla hagnað, sem bændur höfðu af kjötsölulögunum 1934, miðað við árið 1933. Þetta er vitanlega alveg rangt, vegna þess að þegar verður að selja sem mest af kjötinu á innlendum markaði, seint á haustin, þá vita menn, hvernig eftirspurnin er eftir kjötinu erlendis og hvernig verðlagið er þar, og þetta kemur greinilega í ljós í því, að einmitt 1934 treysti verðlagsnefnd sér ekki til þess að hækka kjötverðið nægilega fyrir frystikostnaðinum, vegna þess að verðið á erlenda markaðinum var svo lágt og sölutregðan var svo mikil. Það var einmitt vegna þess, að ekki fékkst sú hækkun, sem mest var deilt um, sú hækkun, sem sýnir sig á sölutregðunni allt fram á sumar hér innanlands, sem sýnir sig í því, að kjötverðlagsnefnd ratar meðalhófið, sem er bezt fyrir íslenzka bændur, enda var það engin furða, þar sem í n. voru menn, sem eru manna kunnugastir þessum málum. Annars er einkennilegt að heyra hv. 10. landsk. og hv. þm. V.-Húnv. deila á þetta fyrirkomulag kjötsölunnar á síðasta ári, þar sem þessir hv. þm. hafa viðurkennt, að formaðurinn, sem framkvæmdi þetta, Jón Ívarsson kaupfélagsstjóri, hafi verið sérstaklega vel valinn af landbrh. En svo er deilt á landbrh. fyrir það, hvernig þetta verk hafi verið framkvæmt. Slík röksemdaleiðsla er þessum tveim hv. þm. samboðin. Þá minntist hv. þm. V.-Húnv. á það sem ádeiluatriði, að ekki hafi verið hægt að fá gefið upp hjá kjötverðlagsnefnd í haust, hversu mikið hún ætlaði að hækka kjötið fyrir frystikostnaðinum í vetur, og þess vegna hafi orðið að ákveða verðlagið lægra en annars hefði verið gert af Sláturfél. Suðurlands. Þetta er vitanlega í samræmi við það, sem verður að gera í þessu máli, vegna þess að nefndin þurfti að sjá betur en hún gat séð fyrir í haust, hvernig eftirspurnin yrði erlendis, hvernig verðlagið yrði þar, hve miklar birgðir væru til innanlands, og þegar útlitið hefir sýnt sig að vera eins og það er nú, þá hefir hún treyst sér til þess að hækka verðið um 15 aura á fyrsta flokki, í staðinn fyrir 7 aura í fyrra, og 25 aura fyrir annan flokk, í stað 17 aura í fyrra. Það skiptir bændur á Suðurlandi litlu máli, hvort þeir fá útborgað í haust og uppbót seinna eða útborgað allt verðið í haust.

Þá minntist hv. þm. á það, að ekki hefði verið tekið tillit til þeirrar n., sem Bf. Ísl. skipaði til þess að rannsaka framleiðslukostnað á íslenzku kjöti, og þetta átti að vera ádeiluatriði. En sannleikurinn í þessu máli er nú sá, að þessi n. hafði aðeins yfir að ráða 10 búreikningum — takið eftir, áheyrendur góðir — og 19 skýrslum og ekki úr nærri öllum héruðum landsins. Framleiðslukostnaðurinn var ákaflega misjafn, svo misjafn, að það er hreint og beint broslegt að heyra þá útkomu, sem nefndin fékk út úr þessum fáu skýrslum. Í þessari n. var, eins og kunnugt er, hv. 7. landsk., Jón Sigurðsson frá Reynistað, og hann skrifaði grein, sem hann varð frægur fyrir og hefir síðan verið nefndur 40-aura-Jón af sumum, því að hann áleit 40 aura verð hæfilegt fyrir 1 kg. af kjöti. Þessi sami maður lætur skipa sig í n. í búnaðarfélaginu og telur, þegar núv. ríkistj. situr við völd, að það þurfi að borga bændum 1,27 kr. fyrir kg. af kjöti. Þetta er nákvæmlega sami leikurinn eins og hv. 10. landsk. leikur, þegar hann gerir kröfur nú, eftir að hann er orðinn að heita má valdalaus hér í þinginu, en aftur á móti gat hann og gerði lítið sem ekkert í þessu efni, þegar hann var sjálfur í stj. og hafði aðstöðu til þess að láta eitthvað að sér kveða. Í sambandi við þessar skýrslur, sem voru vitanlega undir engum kringumstæðum nægilegar, enda aðallega ætlaðar sem „agitations“-efni handa þeim, sem voru á móti stj., ætla ég að upplýsa svolítið annað, sem er kannske öllu merkara en kenningar hv. 7. landsk. um kjötverð handa bændum. Ég ætla að leyfa mér að biðja hv. þdm. að taka vel eftir því, sem ég ætla að lesa upp, vegna þess að ekkert sýnir betur bardagaaðferð þeirra, sem nú eru á móti stj. í þessu máli, en það. Það kom fram í hv. Ed. 1933 útaf till. frá Páli Hermannssyni, sem fór fram á það, að notuð yrði heimild í fjárl. til þess að bæta upp verðlagið á útfluttu kjöti. Núv. hv. 10. landsk., en þáv. atvmrh., svaraði þessu þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Það mun mega telja víst, að bændur fái a. m. k. 72 aura fyrir kg. af kjöti; dreg ég það í efa, að þessi heimild í fjárlögum, sem samþ. var á þinginu í fyrra, hefði náð fram að ganga, a. m. k. að því er frysta kjötið snertir, ef menn hefðu vitað þessi tíðindi fyrir“ — sem hann kallar á öðrum stað gleðitíðindi. M. ö. o. er því slegið föstu af ráðh., sem þá var, en er nú hv. 10. landsk., að hann segist ekki geta fengið það samþ. og ekki álíta rétt að bæta upp kjöt, sem flutt er til útlanda og 72 aurar fást fyrir. Hvernig lízt mönnum á slíkan málflutning og slíka rökfærslu? Það er alveg vitanlegt, að það hefði aldrei verið neitt gert af þessum mönnum, hv. 10. landsk. og hv. þm. V.-Húnv., í kjötsölumálinu. Það eina, sem gert var í því máli, var það, að hv. 10. landsk. skipaði hv. þm. V.-Húnv. í nefnd til þess að undirbúa þessi mál, og það eina, sem hann gerði, var það, að hann lá á þessu máli í hálft ár, þangað til ég tveim dögum eftir að ég tók við völdum sagði, að ef nál. viðvíkjandi kjöt- og mjólkursölumálinu yrði ekki skilað innan mánaðar, þá taki ég málið af n. og setti aðra menn í það.

Hv. þm. V-Húnv. gerði það að umtalsefni, að núv. ráðh. Framsfl. og Framsóknarfl. hefðu svikið sín loforð. Þetta er náttúrlega ekkert annað en venjulegur sónn, sem maður heyrir oft hér í þinginu; stundum er talað um það í Ed. að Jafnaðarmenn svíki allt, sem þeir hafa lofað — það er hlutverk sumra bæjarþm. til þess að reyna að ná fylgi úr bænum —, og svo er stundum talað um það hér í Nd., að við framsóknarmenn svíkjum okkar loforð, og verður þá oft að loka hurðinni á milli, svo að ekki slái saman. Þetta er nákvæmlega sama aðferðin og þegar það birtist sama dag í Vísi, að jafnaðarmenn séu búnir að svíkja öll sín loforð, og í Morgunblaðinu eða Ísafold, að framsóknarmenn svíki allt, sem þeir lofa. En við framsóknarmenn vitum það mætavel, og það er reynsla okkar, að kjósendurnir láta ekki blekkjast af slíku, heldur rannsaka þeir málin, sem um er að ræða. Ég ætla að minnast á nokkuð af því, sem lofað var, þegar núv. stj. tók við völdum, og hvernig það hefir verið efnt. Ég ætla að minna á kjötsölumálið, sem við tókum við í algerðu öngþveiti úr höndum þáv. atvmrh., en komum í fast horf með aðstoð beztu manna. Sama er að segja um mjólkurmálið. Því var líka komið á fastan grundvöll, þrátt fyrir ýmsa aðsteðjandi örðugleika, sem m. a. voru fólgnir í því, að báðir andstöðuflokkarnir voru á móti málinu og gerðu allt, sem í þeirra valdi stóð, til þess að koma í veg fyrir framgang þess, svo að það hefir orðið til stórtjóns fyrir þá, sem hér eiga hlut að máli. Við lofuðum að leysa nýbýlamálið, og það erum við að leysa núna um þessar mundir. Við lofuðum að leysa erfðafestumálið, og það er þegar búið að leysa. Framfærslulöggjafarmálið lofuðum við að leysa, og það er nú verið að gera það. Málið viðvíkjandi vöxtum landbúnaðarins, sem við lofuðum einnig að leysa, er nú þegar búið að leysa:

Þau mál, sem lofað var að leysa í samningum milli stj.flokkanna, er ýmist búið að leysa eða verið að leysa. Þrátt fyrir þessa örðugu tíma, sem þjóðin á nú við að búa, hefir stj. beitt sér fyrir því að hrinda af stað ýmsum merkilegum málum á þessu þingi, enda þótt ekki sé gert ráð fyrir því í samningi þeim, sem ég nefndi áðan. Má þar til nefna fóðurtryggingar; einnig er verið að ganga frá frv. um verðlaun fyrir kartöfluframleiðslu og skipulagningu á framleiðslu og sölu á kartöflum í landinu, sem er afarþýðingarmikið mál í atvinnuleysinu, og auk þess gjaldeyrismál. Það er því þýðingarlaust fyrir hv. þm. V.-Húnv. að ætla að halda því að landslýðnum, að Framsfl. hafi ekki á þessum erfiðu tímum staðið í ístaðinu, eftir því sem föng og efni þjóðarinnar frekast hafa staðið til, svo að hægt væri að framkvæma þýðingarmikil mál fyrir þjóðina.

Í þessum útvarpsumr. hefir verið deilt harðlega á stj.fl. fyrir það, að fjárl. séu há. En það er aldrei nægilega greinilega tekið fram, að þessi fjárl., sem við erum nú að ganga frá á þessu þingi, eru meira en nokkurn tíma fyrr fjárl., sem gera ráð fyrir millifærslum milli atvinnuvega og stétta í landinn. Þess vegna hefir aldrei verið gert eins mikið og á þessu þingi að því að færa niður þá útgjaldaliði fjárl., sem fyrst og fremst fara til þess að annast rekstur þjóðarbúsins. En umfram allt verður að kappkosta að halda þeim útgjaldaliðum, sem fara til styrktar atvinnuvegunum í landinu, og þá ekki síður landbúnaðinum heldur en öðrum atvinnuvegum.

Það, sem mestu máli skiptir, þegar deilt er um þessi mál við hinn svokallaða Bændafl., er í raun og veru það, að þær tekjuöflunarleiðir, sem farnar eru á þessu þingi, væru gersamlega óframkvæmanlegar af sjálfstæðismönnum, sem Bændafl. ætlaði sér að vinna með. En tekjuöflunin hefir öll gengið, eins og tekið hefir verið fram í þá átt, að hún kæmi sem allra minnst niður á framleiðslu landsmanna, og útgjaldaliðirnir ganga, eins og ég hefi tekið fram, eingöngu í þá átt að styrkja framleiðslu landsmanna, þ. e. a. s. að því er snertir þá aukningu, sem gerð hefir verið á útgjaldaliðum fjárl. Í þessu sambandi er vert að benda á það, að það hefir verið borið fram á þessu þingi frv. um að breyta nokkuð jarðræktarlögunum frá því, sem verið hefir. Þetta er nákvæmlega sami skollaleikurinn eins og rekinn hefir verið og rekinn er af andstöðuflokkunum, sem nú eiga í höggi við ríkisstj. Það veit vitanlega hver einasti maður, að Bændafl. gat undir engum kringumstæðum fengið tekjur til þess að annast útgjöld, sem af þessu leiddi. Það er sannast að segja dálítið einkennilegt, þegar maður á í höggi við Bændafl. svonefnda, að maður skuli næstum undantekningarlaust þurfa að slást við það sama aftur og aftur, og það eru þessar skrumauglýsingar um útgjöld til landbúnaðarins, án þess að nokkurn tíma sé bent á möguleika til þess að afla tekna fyrir því, að hægt sé að framkvæma það, sem verið er að auglýsa. Það er þetta svo að segja undantekningarlaust, sem stj.fl. eiga í höggi við viðvíkjandi Bændafl. Og það sýnir sig bezt, hve ríkt þetta er, að þegar við tökum við völdum, þá er búið að lofa með bréfum, sem send hafa verið hingað og þangað út um land, styrk til ýmsra manna fyrir kosningar, og nú er farið fram á, að greitt verði, enda þótt skilið hafi verið við ríkissjóðinn tóman, og án þess að horft sé fram á, að nokkur möguleiki sé til tekna, og þegar við svo öflum tekna til þess að standa við þessi bréflegu loforð Bændafl., þá er ráðizt á okkur fyrir það, að við séum að auka álögur á landsmönnum. Þetta er bardagaaðferðin, sem Bændafl. notar, og við þessa bardagaaðferð eigum við aðallega að stríða, þegar barizt er við þennan flokk, ef flokk skyldi kalla; það eru þessar skrumauglýsingar hans fyrst og fremst, sem við eigum í höggi við.