29.11.1935
Neðri deild: 86. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (2345)

164. mál, skipun barnakennara

Eiríkur Einarsson [óyfirl.]:

Eins og nál. meiri hl. menntmn. ber með sér, hafa tveir nm. ekki verið til staðar þegar málið var tekið fyrir í n., og hafa því óbundnar hendur um atkv. Þar sem ég er annar þessara nm., ásamt hv. 5. þm. Reykv., sem ekki er viðstaddur, en ætlaði að láta skoðun sína í ljós um málið, vil ég fara um það örfáum orðum og gera grein fyrir minni afstöðu.

Eins og sjá má af frv., er það aðallega tvennt, sem farið er fram á að breyta frá því, sem er í gildandi lögum. Annað atriðið er, að þrengdur er réttur manna til að hafa á hendi kennslu, þannig, að heimtað er kennarapróf bæði fyrir smábarna- og einkaskóla. Hitt atriðið miðar líka að því að einskorða við kennarapróf frá kennaraskóla Íslands. Munurinn á l. frá 1919 um þetta er sá, að þar var aðeins áskilið kennarapróf miðað við ákveðna menntun, en hér á að einskorða prófið við kennaraskóla Íslands.

Þessari stefnu er ég ekki samþ. En ég skal taka það fram, til þess að fyrirbyggja misskilning, að það er ekki fyrir vantraust á kennarastéttinni, því ég þekki marga kennara, sem eru starfi sínu prýðilega vaxnir og foreldrum happ að koma börnum til þeirra. En í þeirri stétt er vitanlega eins og annarsstaðar misjafn sauður í mörgu fé.

Ef litið er á okkar þjóðmenningu, hefir reynslan sýnt, að margur unglingur, sem farið hefir varhluta af skólagöngu, en notið annarar kennslu, hefir orðið prýðilega að sér, Einnig hafa einkaskólar með nokkrum hóp barna víða gefizt prýðilega. En hins þarf auðvitað að gæta, að l. veiti það aðhald, að börnin fari ekki á mis við kennsluna af vanrækslu eða vegna þess, að fátæk heimili geta ekki látið hana í té. Þá þarf að koma til aðstoð þess opinbera, sem stuðlar að því, að ekkert barn fari varhluta af kennslunni, en hvert þeirra verði hennar aðnjótandi.

Þegar á allt er litið, finnst mér því þessu atriði í hóf stillt eins og l. eru nú. En ég get vel skilið þetta frá sjónarmiði kennaraskólanemenda. Það er ekki nema mannlegt og sízt að lasta, þó menn óski eftir starfi að námi loknu, og að það sé launað svo, að það veiti sæmileg lífsskilyrði.

Ég vil skjóta því inn í þessu sambandi, hv. þm. til athugunar, að fyrir nokkrum árum var stofnaður hér annar menntaskóli, sem aldrei skyldi verið hafa. Ég nefni þetta sem dæmi, því mér finnst kenna hér ósamræmis. Í stað þess ætti að reyna að þrengja menntamannahringinn, svo ekki útskrifuðust fleiri sérfræðingar en þörf er fyrir.

Mér þykir hér of langt gengið, að einskorða við kennaraskólann menntun kennara, sem teknir eru á heimili eða í einkaskóla.

Þetta getur líka komið á daginn, hvaða stétt sem um er að ræða hér á landi, og ekki sízt Þær stéttir, sem hafa haft með höndum menningu landsmanna í hvert skipti, að sú stétt þyki ekki frá sjónarmiði tiltölulega margra manna fullnægja skyldu sinni. Ég segi þetta ekki með neinu álasi til kennarastéttarinnar, heldur segi ég þetta almennt. Má þar t. d. benda á þá stétt, sem hafði áður með höndum kennslu barna hér á landi, en það var prestastéttin. Hún hefir átt í tölu sinni marga ágætismenn, en samt sem áður hafa oft þau tímabil komið, að landslýður hefir kvartað og sagt sem svo: „Þessi stétt hefir farið með okkar uppeldismál og ekki verið þar eins vakandi og víðsýn og æskilegt væri.“ Þetta og þvílíkt hefir m. a. orðið til þess, að þessum málum hefir verið kippt úr höndum þeirra, sem áður fóru með þau. Þeim, sem fara að hafa með höndum menningarmál, vill oft — ekki síður en öðrum — til að verða ráðríkir og sérgóðir um starf sitt. Þannig er reynslan með prestana í þessu máli, og alveg það sama getur komið fyrir með kennarana. Af þessum ástæðum vil ég ekki einskorða þetta eins mikið og hér er gert í frv., svo að þeir, sem vilja og geta aflað sér góðrar fræðslu fyrir utan allar sérkreddur, ef þær koma yfir, þeir hafi frjálsræði til þess að stunda kennslu, þó að þeir hafi ekki próf frá kennaraskólanum.

Ég er samþykkur því, að sett séu ákvæði, sem stuðla að því, að þeir, sem hafa prívatskóla eða smábarnaskóla eða hverja aðra skóla, séu sínu starfi vel vaxnir. Ég álít það sjálfsagðan hlut. En ef á að fara að setja þeim fastari skorður en svo, að þessir menn séu það vel hæfir til starfs síns, að börnin líði ekki við það, þá þykir mér of langt farið.

Af þessum höfuðástæðum er það, að ég sé mér ekki fært að fylgja frv., þó að ég viti að vísu, að það er flutt hér inn á þing af góðum hug, og sennilega hefir hv. flm. þar haft það fyrir augum, hvað margir góðir menn séu innan kennarastéttarinnar, eins og segja má með sönnu. En með tilliti til þess, sem ég hefi sagt, þá er þó allur varinn góður, og því þykir mér of langt gengið í frv. og get ekki greitt því atkv.