29.11.1935
Neðri deild: 86. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (2349)

164. mál, skipun barnakennara

Guðbrandur Ísberg [óyfirl.]:

Ég get byrjað á því, að láta í ljós ánægju mína yfir því, að hæstv. atvmrh. sýndi það með ræðu sinni hér í d., að hann hefir opin augu fyrir göllunum á þessu frv., sumum að minnsta kosti.

Hv. 2. þm. Árn. sagði, að það væri mjög eðlilegt, að barnakennarar gerðu kröfur fyrir sig um verksvið og launakjör stéttarinnar. Já, þeir gera kröfur, það vantar ekki; svipaðar og verkamannafélögin í Reykjavík; enda hafa þeir þar fyrirmyndina, um að enginn megi fá vinnu, nema hann sé í verkamannafélagi. En munurinn er þó sá, að ákvarðanir verkamannafélaganna gilda aðeins innan bæjarfélagsins, en kennararnir vilja leggja undir sig allt landið. Hv. 2. þm. Árn. sagði, að kennarastarfið væri hið allra vandasamasta starf í þjóðfélaginu, og að kennarar þyrftu mikinn undirbúning til þess að inna það vel af hendi. Því verður ekki neitað, að það er ákaflega mikilsvert. En þrátt fyrir það, að þjóðin hefir nú um nálega mannsaldursbil átt við að búa barnakennarastétt, sem gengið hefir á kennaraskóla, þá er það, samt sem áður, álit margra glöggskyggnra manna, að alþýðufræðslan í landinu sé ekki betri nú en hún var áður en kennaraskólamennirnir komu til sögunnar. Hv. 2. þm. Árn. sagði, að fyrir örfáum árum hefði kennarastéttin verið í mestu niðurlægingu. Þó hefir sami kennaraskólinn undirbúið þá stétt í tvo til þrjá áratugi. Og það er langt síðan þeirri kröfu var ungað út, fyrir munn kennarastéttarinnar, að kennarar frá kennaraskólanum skuli hafa með höndum alla barnakennslu í landinu. Það hefir ekki beinlínis verið sagt ennþá, að engir aðrir megi kenna börnum að stafa, háskólagengnum mönnum er máske ekki bannað það, en þeir mega ekki fá aðra til þess en sérmenntaða kennara með kennaraprófi. Stúdentar og gagnfræðingar mega ekki koma nærri barnakennslu. Stúdentamenntun nægir ekki; fyrst verða stúdentar að bæta við sig einu ári á kennaraskólanum og taka þar próf. Gagnfræðingar koma ekki til mála, þó að ganga megi út frá, að þeir hafi sízt fengið minni menntun en kennaraskólanemendur. Þó að gagnfræðingar bættu við sig hellu ári í þessari ágætu menntastofnun kennara, þá nægir það ekki. Ég undrast það ekki svo mjög, þó að kennarar frá kennaraskólanum kunni að gera kröfur fyrir sig, en mig furðar hitt, að þeir skuli gera jafnfíflslegar kröfur og raun ber vitni um. Þeir ættu að athuga það betur, að með þessum hóflausu kröfum sínum eru þeir að egna þjóðina upp á móti sér, Svo að það gagn, sem þeir þykjast vilja gera almenningi, kemur ekki að neinum notum. Þegar þeir beita þjóðina þessum þrælatökum, þá espa þeir almenning upp á móti sér.

Hæstv. atvmrh. benti á, að menn með kennaramenntun frá kennaraskólanum fengjust oft ekki til barnakennslu í fræðsluhéruðum af því að þeim þætti kennslan svo illa launuð. Og áður en það þykir takandi í mál að ráða til barnakennslu menn, sem ekki hafa kennarapróf, þá á að knékrjúpa hverjum ræfli, sem kann að vera í kennarafélaginu og hefir þeirra fína próf !

Kennarastéttin íslenzka er ekki ein um það að gera hóflausar kröfur fyrir sig. Í Noregi, Danmörku og Þýzkalandi hafa hinar hálfmenntuðu stéttir í þeim löndum skapað sér þann mesta álitshnekki vegna þess, að innan vébanda þeirra er fjöldi vandræðamanna og ræfla, sem ættu ekki að koma nálægt störfum, eins og t. d. kennslu, eða öðru því, sem hver stétt fyrir sig hefir að aðalstarfi. Að vísu eru margar heiðarlegar undantekningar frá þessu; en sú stétt, sem fær sínum hóflausu kröfum fullnægt, frelsast jafnan til að halda sinni verndarhendi yfir hinum lélegri félagssystkinum, sem á henni hanga.

Ég vil sem sjálfstæðismaður benda á, að það er svo sem ekkert aðlaðandi, að þessi útungunarstofnun barnakennara hér á landi, Kennaraskólinn, skuli sérstaklega hæna að sér mjög radikala nemendur, eða helzt af öllum kommúnista. Enda virðist skólinn mjög hafa sveigt í þá átt, einkum á síðustu árum.

Ég vil að síðustu beina þeirri fyrirspurn til hv. 2. þm. Árn., og biðja hann með fullri vinsemd að athuga það vel, hvort honum sé það ekki ljóst, hvað kennarastéttin er að gera með þessu hóflausa framferði sinu. Hvort hann skilji það ekki, að hún er blátt áfram að safna glóðum elds að höfði sér, með því að spana upp á móti sér andúð mikils meiri hluta þjóðarinnar.

Það er vitanlega hægt að gera kröfur, og er ekki nema eðlilegt, að kennararnir geri það eins og ýmsar aðrar stéttir, en þeir verða jafnframt að kunna að stilla þeim í hóf.