29.11.1935
Neðri deild: 86. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (2354)

164. mál, skipun barnakennara

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls við þessa umr. En við 1. umr. hreyfði ég aths. við frv., en n. hefir ekki séð sér fært að taka þær til greina, heldur hefir hún þvert á móti hert sum atriðin, sem ég gerði aths. við. Ég álít, að menn vinni ekki því málefni, sem þeir eru að öðru leyti hlynntir, gagn með því að berja höfðinu við steininn og vilja ekki hlýða á mál manna.

Ég vil taka það fram út af því, sem sagt hefir verið hér í garð kennarastéttarinnar, að mér finnst þar kenna nokkuð mikilla harðyrða, og get ég ekki fallizt á, að þau hafi við rök að styðjast. Mér finnst, að samtök og samvinna kennarastéttarinnar sé eðlileg og eigi fullan rétt á sér, Það er alls ekki þar með sagt, að hún ætli að rísa upp til árása á aðrar stéttir, heldur mun hún halda þeim innan þeirra takmarka, að vinna saman að áhugamálum sínum, sem menn innan þeirrar stéttar eru færastir að vinna að sjálfir og dæma um, hvað rétt er. Það er svo þeirra, sem fyrir utan standa, að segja til, ef farið er út fyrir þau takmörk, sem stéttarsamtökin krefjast.

Viðvíkjandi því, sem sagt hefir verið til árása á kennarastéttina, og hina pólitísku afskiptasemi hennar, þá finnst mér, að þessi pólitíska barátta í skólunum sé aðeins barnasjúkdómur, sem eigi eftir að læknast. En ef einhverju er ábótavant í þessu efni, þá eru það ekki kennararnir, sem á að ásaka. Það á að taka á kýlinu sjálfu, og þá skilst mér, að ástæðuna fyrir þessu pólitísku brölti kennaranna sé helzt að finna hjá kennaraliði kennaraskólans sjálfs. Og það er full ástæða til þess að hafa augun opin, og láta þá ekki starfa þar á þeim vettvangi, sem er á móti því, sem heilbrigð skynsemi segir til. Það er nokkur ástæða til þess að efast um, að öllum hafi tekizt að þræða hina mjóu braut í því efni. Ég get minnt á það, að einn af kennurum skólans skrifaði ritdóm um bók, sem kennari einn norður á Vatnsnesi skrifaði, og í þeim ritdómi koma fram sterk rök fyrir því, að allt sé ekki með felldu í starfsháttum kennaranna við kennaraskólann, og finnst mér, að þar sé fengin skýring á því, sem ungu kennararnir eru ásakaðir um. Þessi kennari, sem er hv. 9. landsk., lét orð falla á þá leið, að hann óttaðist um framtíð þessa kennara, úr því hann hefði farið norður í kjördæmi Hannesar Jónssonar. Ég get sagt það til skemmtunar, að ég hefi heyrt, að í handritinu hafi staðið kjördæmi Jóns Pálmasonar, og er það varla afsakanlegt, að kennari við kennaraskólann skuli ekki vita, hvar Vatnsnes er. En hvað liggur á bak við þessi ummæli kennarans? Ekki getur það verið sagt af því, að hann viti með sanni, að börn í Húnavatnssýslu séu verr gefin en börn annarsstaðar, svo að þessi kennari hafi ekki nægileg skilyrði til þess að njóta starfskrafta sinna þar. Ég býst við, að börn þar séu alveg eins fær um að taka kennslu og börn hvar sem er annarsstaðar á landinu. Er þetta einskonar yfirlýsing um það frá hv. 9. landsk., að starfssvið kennarans liggi ekki í því að fræða börn, heldur í pólitískri starfsemi barnakennaranna? Hann hefir búizt við, að í pólitískri útbreiðslustarfsemi yrði honum lítið ágengt á þessum slóðum, og fundizt, að ef hann yrði þar áfram, þá myndi hann engu áorka í því, sem hv. 9. landsk. vill láta hann vinna að. Ef þessi hugsunarháttur er almennt ríkjandi hjá kennurum kennaraskólans, þá má búast við, að eitthvað sé ábótavant við kennsluna þar. Það má því ekki kenna nemendunum um þann misbrest, sem kann að vera á framkomu þeirra í þessu efni, því á honum eiga þeir enga sök. Og ég vona, að þó þeir hafi orðið fyrir miður hollum áhrifum í skólanum og þeirra kunni að gæta eftir að þeir hafa yfirgefið skólann, þá verði þau ekki viðloðandi, heldur sjái þeir, að þeim hefir verið bent inn á rangar leiðir, og að þeir muni þá yfirgefa hina fyrri lærimeistara. Það er atriði, sem ekki má loka augunum fyrir, að þjóðfélaginu ber skylda til að útvega ungmennunum þau skilyrði við námið, að starfskröftum þeirra sé beint í rétta átt, en þeim sé ekki villt sýn um það, hvað sé aðalverkefni þeirra í þjóðfélaginu.

Ég skal svo láta þetta vera nóg. Þetta er ekki sagt af því, að ég hafi fyllzt gremju til hv. 9. landsk., því ég hafði svo lítinn áhuga fyrir því, sem hann sagði, að ég hafði ekki fyrir því að fletta upp í blaðinu, sem greinin var í, heldur leitaði ég véfrétta hjá honum núna áðan um það, hvað hefði staðið í greininni. En þetta, sem ég nú hefi sagt, vildi ég segja út af miður réttmætum árásum frá hv. þm. Ak., og vildi ég, að hann og aðrir, sem látið hafa andúð sína í ljós gegn kennarastéttinni, beindu geirum sínum þangað, sem meiri ástæða er til að beina þeim.