29.11.1935
Neðri deild: 86. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (2356)

164. mál, skipun barnakennara

Sigurður Einarsson [óyfirl.]:

Mér þykir verst, að hv. þm. V.- Húnv. er ekki staddur hér til þess að heyra mál mitt, af því að það var sérstaklega vegna hans orða, að ég kvaddi mér hljóðs.

Hann vildi sérstaklega veitast að mér og beina á mínar hendur grunsemdum um það, að ég væri einhver skaðsemdargripur í störfum mínum. Ég deili þar ekki við hann. Ég skoða þetta eins og hverjar aðrar dylgjur og nöldur af sömu tegund og einatt hefir verið að mér kastað í blöðum og stundum hefir gengið svo langt, að nemendur mínir hafa séð sig tilneydda að kenna hlutaðeigandi dylgjumönnum mannasiði. En um ritdóm minn um einn af nemendum mínum, sem fór norður í kjördæmi hv. þm. V.-Húnv., hefði hann ekki átt að tala, því að í ritdóminum var ekki annað sagt en það, að þegar þessi gamli og góði nemandi minn sagði mér frá því, að hann væri að fara þangað norður og ætlaði að verða þar farkennari á afviknum stað, þá sagði ég aðeins, að þann dag, sem hann sagði mér þetta, hefðu allar góðar dísir yfirgefið hann. Veit ég, að allir vorkenna mér það, því að hv. þm. V.-Húnv. þarf ekki að ímynda sér, eftir því sem hann kemur fram hér, að menn haldi, að það sé einhver paradís fyrir rithöfunda og gáfumenn að fara norður til hans. En í umr. um þetta mál hefir ekkert komið fram, sem verulega getur orðið til þess að hnekkja því, að það geti náð fram að ganga, ef sanngjarnlega er á litið. Auðvitað hafa nokkrir hv. þm. reynt að slá sig til riddara með sinni víðtæku menntun, en kasta að kennurum fyrir menntunarleysi þeirra og að þeir séu grunnfærir, hrokafullir, hóflausir í kröfum og ég veit ekki hvað. En hér er það gamla sagan, að þessi langskólahroki er broslegur í augum almennings. Sannleikurinn er sá, að langskólagengna fólkið er lítið eða ekkert betra en margir menn, sem hafa notið menntunar skemmri tíma, ef hún hefir verið hagkvæm og miðuð við það, að búa menn sem bezt undir þeirra starf. Ég vil hispurslaust fullyrða, að á seinni árin hafa kennarar sýnt, að þeim hefir farið mikið fram um það, sem mestu máli skiptir, en það er starfskunnátta.

Hv. 5. þm. Reykv. lét í ljós efa um það, að þeir, sem gengið hafa í gegnum kennaraskólann, undirbyggju smábörnin nokkuð betur en aðrir, t. d. ýmsar gamlar konur, sem hafa haft það fyrir starf. En sannleikurinn er sá, og má því til sönnunar vitna til álits barnaskólastjóranna hér í bæ, að þau börn, sem verið hafa í smábarnaskólum þeirra, sem kennarapróf hafa, koma í barnaskólana mun betur undirbúin en hin, sem hafa lært hjá þeim, sem hafa ekki fengið kennaramenntun. Það er m. a. vegna þess, að kennurum er það ljóst, að 4—6 ára starf með börnum verður oft að miklu leyti gagnslaust ef þau hafa ekki fengið góða undirbúningskennslu, að þetta ákvæði var sett í frv., að þeir, sem hafa á hendi kennslu við einkaskóla, skuli hafa kennaramenntun.

Annars sé ég ekki ástæðu til að orðlengja um þetta frekar. Hv. þm. Ak. þarf ég engu að svara, því að hann vek engu að mér í ræðu sinni.