29.11.1935
Neðri deild: 86. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (2357)

164. mál, skipun barnakennara

Hannes Jónason [óyfirl.]:

Það er algerlega misskilningur hjá hv. 9. landsk., að orð hans eða ritdómur hafi hlaupið í mínar taugar. Ég er alls ekki taugaóstyrkur maður og þarf því stærri skammta en þetta og úr öðrum stöðum, til þess að þeir hafi nokkrar verkanir á mig. Orð mín voru eingöngu sögð til þess að vísa á bug óréttmætri árás, sem ég áleit, að væri gerð á kennarastétt landsins og leita að þessu lága. Og orsakirnar fann ég í þessum ritdómi hjá þessum hv. þm., sem er kennari við kennaraskólann.

Við skulum þá fara nánara út í þetta, fyrst farið er að gera það að umræðuefni. Hann sagðist hafa sagt það, að sér finnist, að allar góðar dísir hafi yfirgefið þennan kennara, þegar hann hafi farið norður. Það mættu allir sjá, eftir því, hvernig ég hefði komið fram hér, að það væri engin paradís að feta í fótspor mín þar norður frá. Hann virðist halda, að ég lifi og hrærist í öllu alstaðar í kjördæmi mínu. En sannleikurinn er sá, að ég hefi aldrei séð þennan mann, hvað þá talað við hann. Ef hv. þm. hefir haft þá trú, að ég mundi snúa öllum til betri vegar eða á mína skoðun í landsmálum, þá er ekki undarlegt, þó að hann sé hugsandi yfir framtíð þessa pilts frá sínu sjónarmiði skoðað.

Í þessu öllu felst þá sú skoðun þessa kennara kennaraskólans, að það sé ekki uppeldisfræðslustarfið, sem fyrst og fremst sé verkefni kennaranna, þegar þeir komi út í sitt skólaumdæmi, heldur sé það pólitísk starfsemi, og það skipti mestu máli, hvernig henni verður hagað þar og hvort þeim tekst að vinna þetta starf, en kennslan sjálf sé aukaatriði. Eða á þetta bara að skoðast sem almenn lítilsvirðing á barnafræðslu í sveitum landsins? Slíkt og þvílíkt getur ekki verkað vel u nemendur kennaraskólans. Ég held, að það sé þvert á móti til niðurdreps fyrir þeirra andlegu krafta.

Nei, það er önnur starfsemi en þessi, sem á að sitja í fyrirrúmi hjá kennarastéttinni. Kennurum ber skylda til að meta starf sitt ekki eftir því, hvort það er í stórum kaupstað eða stærri kauptúnum, sem þeir reka þetta starf, heldur eiga þeir aðeins að hugsa um að uppfræða börnin sem bezt á allan hátt og keppa að því að ná því takmarki sem allra bezt. En það, sem ég er að vita, er þessi andi, sem hv. 9. landsk. vill, að sé ríkjandi, og það rýrnar ekkert við það, þótt hv. þm. hafi fengið samskonar áminningar frá öðrum stöðum. En þessa hirtingu, sem hann segir, að hafi komið frá nemendum sínum úr kennaraskólanum, hefi ég ekki orðið var við.

Ég þarf svo ekki frekar að orðlengja um þetta. Ég er ekkert reiður við hv. þm. út af þessum skrifum hans. Mér stendur alveg á sama, hvorum megin hryggjar hann liggur, því að hann hefir ekki nokkurn skapaðan hlut að segja, t. d. meðal kjósenda í mínu kjördæmi — og líklega ekki í neinu kjördæmi. En ég álít það ekki hollt og ekki samkv. þeim starfsháttum, sem eiga að vera ríkjandi í kennaraskólanum, að kennararnir þar séu að reyna að leiða nemendurna út á rangar brautir og víkja þeim af þeim leiðum, sem þeir fyrst og fremst eiga að halda sig á. Það væri æskilegast, að þeir létu sínar pólitísku skoðanir koma sem minnst fram við kennslu barna, sem eiga vitanlega foreldra með mjög svo mismunandi skoðunum í landsmálum. Ef kennarar fara að beita sínum pólitísku áhrifum í skólunum, þá getur það orðið til að koma af stað óánægju og úlfúð þar, sem þeir starfa. Sú óánægja getur aldrei leitt til neins góðs, heldur getur hún oft orðið til þess, að starf kennarans beri miklu minni árangur en þyrfti að vera, án þess að ég sé að amast við því, að kennarar hafi eins og aðrir sína pólitísku skoðun, því að það getur enginn bannað þeim.