03.12.1935
Neðri deild: 89. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (2364)

164. mál, skipun barnakennara

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Brtt. á þskj. 683 eru fram komnar í framhaldi af því, sem ég sagði áður í umr., þar sem ég mæltist til þess, að aflað væri nánari upplýsinga um ýmislegt viðvíkjandi frv. Eftir því, sem næst verður komizt, þá eru 420 kennarastöður við þá barnaskóla, sem ríkið leggur fé til. Af þessum 420 kennurum voru síðastl. ár 325—330, sem lokið höfðu kennaraprófi. Þess ber þó að gæta, að af þessum rúmlega 90 kennurum, sem þá störfuðu án þess að hafa full réttindi, voru langmestur hlutinn farkennarar. Það mun láta nærri, að farkennarastöður séu rúmlega 100 á landinu. Nú nær sú breyt., sem frv. gerir ráð fyrir, ekki nema til þeirra, sem starfa við ríkisskóla, ef brtt. verða samþ. En af þessum mörgu kennurum munu það ekki vera nema 12, sem starfa í skjóli ákvæða í l. frá 1919. Af þessum 12 eru nokkrir svo gamlir, að þeir munu láta af starfi bráðlega fyrir aldurs sakir. Ég get fallizt á, að þessi breyt. verði gerð, en jafnframt vil ég leggja til, að framkvæmd l. sé frestað til 1. okt. 1936, svo að hægt sé að ganga úr skugga um það áður, hverjir verða sviptir réttindum með þessari lagabreyt.

Það er lagt til í 1. brtt., að 1. gr. frv. nái eingöngu til kennara, sem starfa við barnaskóla, sem njóta ríkisstyrks. Það er því lagt til, að þar falli niður ákvæðið um einkaskólana. Hinsvegar er 2. brtt. um það, að enginn megi stofna einkaskóla, nema hann uppfylli sömu skilyrði og um getur í 1. gr. Ég tel þetta sjálfsagt, því það er hvorki heppilegt né réttmætt, að hver og einn fái að stunda barnakennslu, án þess að eftirlit sé haft með því, hvort hann er fær um að inna það af hendi. En samkv. brtt. minni er fræðslumálastjórninni heimilt að veita mönnum undanþágu, ef fyrir liggja eindregin meðmæli skólastjóra fræðsluhéraðsins og skólanefndar, og í öðru lagi, að skólinn fullnægi kröfu heilbrigðisstj. um húsakynni og hollustuhætti. Þessi undanþága á að vera nægileg til þess, að engin ástæða sé til að halda, að þeir menn, sem stundað hafa þessa atvinnu með góðum árangri, verði sviptir henni, ef skólastjóri fræðsluhéraðsins og skólanefnd mæla með því, að þeir hafi kennsluna áfram. Skólastjórar barnaskólanna eiga auðvitað að vera bezt færir um að dæma um það, hvernig undirbúning þau börn hafa hlotið, sem koma frá einkaskólunum.

Þá er 3. brtt., sem er í rauninni aðeins orðalagsbreyt. Þar er sagt, að jafnframt því að tilkynna fræðslumálastjóra, hverjir eigi að starfa við einkaskóla, þá beri að leggja fram sannanir fyrir því, að hlutaðeigandi kennarar fullnægi skilyrðum þeim, er krafizt er til kennslustarfsins. Ég kann ekki við orðalagið eins og það er í frv., og því legg ég til, að því verði breytt.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta. Ég vil mæla með því, að frv. nái fram að ganga með breyt. þeim, sem ég legg til, að á því séu gerðar.